Sveitarstjórnarfólk Framsóknar
Frambjóðendur Framsóknar í Múlaþingi
1. Jónína Brynjólfsdóttir
Jónína Brynjólfsdóttir leiðir lista Framsóknar til kosninga í vor. Hún er viðskiptalögfræðingur og með MLM gráðu í forystu og stjórnun. Hún er frá Reykjavík en hefur búið á Egilsstöðum í að verða 14 ár.
Jónína hefur áralanga reynslu af félags- og stjórnmálastörfum og er nú varafulltrúi í sveitarstjórn Múlaþings, varaformaður umhverfis- og framkvæmdaráðs og ritari stjórnar HEF veitna.
Jónínu má lýsa sem hressri týpu sem er snögg til, með svokallaða „“strax” veiki þar sem hún gengur í málin og vinnur verkin sem þarf að vinna, er svakalega skipulögð og kann á ótrúlegustu forrit og öpp sem hjálpa manni að skipuleggja sig. Hún hefur gríðarlega gaman af félagsstörfum og nærist af samveru við fólk.
“Ég er gríðarlega stolt að tilheyra þessum flotta hópi frambjóðanda og mér er mikill heiður að leiða listann. Ég met lífsgæði okkar hér í Múlaþingi mikils og sé heilmörg tækifæri fyrir okkar nýja sveitarfélag á næsta kjörtímabili.”
2. Vilhjálmur Jónsson
Vilhjálmur Jónsson, sveitastjórnarfulltrúi á Hánefsstöðum í Seyðisfirði skipar 2. sæti. Hann skipaði 2. sætið einnig fyrir sveitarstjórnarkosningar við stofnun Múlaþings árið 2020 og hefur því setið í sveitarstjórn, byggðaráði og heimastjórn Fljótsdalshéraðs á yfirstandandi kjörtímabili. Hann starfar einnig við búskap á Hánefsstöðum.
“Nýlega voru kynntar tillögur Vegagerðarinnar um leiðarval að og frá Fjarðarheiðargöngum á Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði og áform hafa verið um útboð í Fjarðarheiðargöng í haust. Undirbúningur framkvæmda við Axarveg er langt kominn og framkvæmdir standa yfir við Borgarfjarðarveg. Allt er þetta árangur langrar baráttu sem fylgt hefur verið eftir með auknum slagkrafti af hálfu sveitarstjórnar í sameinuðu Múlaþingi. Einnig hefur verið unnið að bættum samgöngum víðar innan sveitarfélagsins og meiri nýtingu Egilsstaðaflugvallar og uppbyggingu í höfnum sveitarfélagsins.
Traustur fjárhagur er mikilvægur bakhjarl góðrar þjónustu og nauðsynlegrar uppbyggingar traustra innviða. Þrátt fyrir ágjöf vegna heimsfaraldurs hefur ekki verið slegið af hvað varðar framboð þjónustu, reyndar heldur bætt í, og sama gildir um fjárfestingar í innviðum eins og lagt var upp með í áætlunum fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Í fjárhagsáætlun samstæðu Múlaþings 2022 – 2025 er gert ráð fyrir nokkuð góðu jafnvægi þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar.
Það skiptir máli að nýta hvert tækifæri til að sækja ný verkefni og stuðla að hvers konar atvinnuuppbyggingu og framförum sem efla samfélagið. Á sama tíma er þó mikilvægt að gæta að sjálfbærni í víðum skilningi, gera sér grein fyrir jákvæðum og neikvæðum áhrifum á loftslag, náttúru og samfélag, ganga fram með ábyrgum hætti og setja fram viðeigandi mótvægisaðgerðir. Aukin tækifæri til menntunar í nærsamfélagi skipta miklu máli og mikilvægt er að fylgja eftir þeirri uppbyggingu háskólanáms sem unnið hefur verið að af sveitarstjórn undanfarin ár.
Með tilkomu Múlaþings voru innleiddar nýjungar hvað varðar stjórnsýslu sveitarfélaga, svo sem með tilkomu heimastjórna, sem hafa gefist vel og verið góð tenging við viðkomandi byggðir. Þessar breytingar hafa haft jákvæð áhrif á virkni íbúa og áhuga á málefnum nærsamfélagsins. Einnig hefur vel tekist til með rafrænar lausnir hvað fjarfundi varðar sem jafnar aðstöðu íbúa í víðfemu sveitarfélagi til að taka þátt í störfum á vettvangi þess. Góð samvinna og samstarf hefur verið í sveitarstjórn sem hefur gert starfið árangursríkt og ánægjulegt og megi svo verða áfram.
Starf í sveitarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi hefur verið áhugavert, krefjandi og gefandi og ég gef áfram kost á mér til starfa fyrir Múlaþing til að vinna að uppbyggingu og margvíslegum framförum til að bæta búsetuskilyrði í eftirsóknarverðu sveitarfélagi”.
3. Björg Eyþórsdóttir
Björg Eyþórsdóttir skipar 3. sæti á lista Framsóknar í Múlaþingi. Hún er 33 ára hjúkrunarfræðingur með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og með mastersgráðu í heilbrigðisvísindum í vinnslu. Björg ólst upp á Egilsstöðum og flutti þangað aftur fyrir 4 árum ásamt eiginmanni og fjórum sonum, eftir að hafa búið í Kaupmannahöfn og á höfuðborgarsvæðinu við nám, leik og störf. Það var mikið gæfuspor og hér líður þeim öllum ákaflega vel.
Björg hefur alltaf haft mikinn áhuga á félagsmálum og tekið þátt í ýmsum verkefnum frá unga aldri. Framan af var hún þátttakandi í nemendaráðum, málfundafélögum og pólitískum hreyfingum ungra. En svo seinna í forvarnarfélagi, foreldrafélögum auk þess sem hún skipaði 15. sæti á lista Framsóknar á Fljótsdalshéraði fyrir sveitastjórnakosningar 2010 og 18. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi fyrir sveitastjórnarkosningar 2014. Björgu er best lýst sem skipulagðri og samviskusamri með dass af fullkomnunaráráttu sem í daglegu lífi getur auðvitað bæði þvælst fyrir eins og að hjálpa til.
“Ég hef brennandi áhuga á að gera samfélagið aðeins betra en það var í gær og þykir það sannur heiður að fá tækifæri til að gefa kost á mér í störf fyrir sveitarfélagið okkar. Verandi heilbrigðisstarfsmaður eru þau mál mér hugleikin og þá sérstaklega jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Landsbyggðin á að njóta sömu réttinda og höfuðborgarsvæðið þegar kemur að sérfræðiþjónustu og almennri bráðaþjónustu og það er svo sannarlega sóknarfæri í því að skoða þessi mál með gagnrýnum hug. Í Múlaþingi er dásamlegt að búa og forréttindi að fá að búa hér og ala börnin sín upp við þær aðstæður sem sveitarfélagið okkar býður uppá. Lengi má þó gott bæta og möguleikarnir eru endalausir. Að mínu mati er það mjög mikilvægt að byggja upp öruggt og hvetjandi umhverfi fyrir börn og ungt fólk. Þau eru framtíðin og þau drífa samfélagið áfram í átt að einhverju stórkostlegu”.
4. Eiður Gísli Guðmundsson
Eiður Gísli Guðmundsson skipar 4. sæti lista Framsóknar í Múlaþingi. Hann er búsettur á Lindarbrekku 1í Berufirði, giftur Bergþóru Valgeirsdóttur og saman eiga þau þrjár dætur. Eiður er sauðfjárbóndi og hreindýraleiðsögumaður og hefur verið formaður sauðfjárbænda á suðurfjörðum.
“Ég hef mikinn áhuga á sveitarstjórnarmálum og að mínu mati eru samgöngubætur og uppbygging í sveitarfélaginu það sem skiptir okkur mestu máli.”
5. Guðmundur Bj. Hafþórsson
Guðmundur skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Múlaþingi. Hann er einn af þeim fjölmörgu Stöðfirðingum sem býr á Egilsstöðum.
“Ég man þegar ég var lítill hvað ég þoldi ekki að fara uppí Hérað, Höttur vann okkur alltaf í fótbolta og það var grautfúlt að keyra heim. Staðan núna er hins vegar sú að ég hef búið lengur á Egilsstöðum en í heimabæ mínum, einfaldlega af því mér líður hvergi betur – hér ætla ég að verða gamall og hef alltaf sagt.”
Guðmundur er lærður málarameistari og starfaði sem málari í yfir 20 ár en starfar núna sem eldvarnareftirlitsmaður hjá Slökkviliði Múlaþings. Hann er virkur í félagsstörfum og hefur setið í ráðum innan Fljótsdalshéraðs, og síðar Múlaþingi, síðastliðin 8 ár – þá helst tengt íþróttum, félags- og fræðslumálum.
“Ég er í sambúð og eigum við saman tvö dásamleg börn sem elska að alast upp í því umhverfi sem við höfum uppá að bjóða í Múlaþingi. Ég hef alltaf reynt að gera mitt besta í þeim störfum sem ég hef gegnt og reynt að sinna verkefnunum sem mér eru færð eins vel og ég get – og mun halda því áfram ótrauður”.
6. Alda Ósk Harðardóttir
Alda Ósk Harðardóttir skipar 6.sæti á lista Framsóknar fyrir komandi sveitastjórnarkosningar í Múlaþingi. Hún er fædd og uppalin á Egilsstöðum og hefur undanfarin 15 ár starfað sem snyrtifræðingur á eigin stofu. Eiginmaður hennar er Kristmundur Dagsson sem einnig er sjálfstæður atvinnurekandi. Saman eiga þau 3 börn, 14 ára, 9 ára og 2 ára.
Alda hóf afskipti af sveitastjórnarmálum árið 2014 og sat sem aðalmaður í atvinnu- og menningarnefnd 2014-2018, var varamaður í fræðslunefnd 2018-2020 og aðalmaður í fjölskylduráði 2020-2022.
„Það skiptir miklu máli að styðja við þá uppbyggingu sem orðið hefur í framhaldi af sameiningunni okkar í Múlaþing, því það eru forréttindi að búa hér. Hér ríkir náungakærleikur sem er sterkt afl og kemur til vegna þess að við erum lítið samfélag en með stórt hjarta.
Við þurfum að auka atvinnumöguleika okkar í Múlaþingi ásamt því að leita leiða til að efla nýsköpun. Það þarf að tryggja að ungt fólk geti snúið aftur heim eftir nám, því með fleiri störfum skapast meiri tekjur til að byggja upp samfélag sem verður ennþá eftirsóknarverðara að búa í. Ég vil leggja mitt af mörkum við að betrumbæta okkar samfélag.“
7. Þórey Birna Jónsdóttir
Þórey Birna Jónsdóttir starfar sem umsjóna- og sérkennari í Brúarásskóla. Hún er fædd árið 1983 og sleit barnsskónum á Borgarfirði eystra, hljóp af sér hornin í Menntaskólanum á Egilsstöðum og lauk B.Ed. prófi í leikskólafræði frá háskólanum á Akureyri.
Eiginmaður hennar er Sigmar Daði Viðarsson og eiga þau 2 börn. Þau keyptu jörðina Hrafnabjörg 1 fyrir tveimur árum og búa þar sauðfjárbúi með um 400 kindur. Þar áður höfðu þau búið á Egilsstöðum og í Fellabæ, samfleytt á Fljótsdalshéraði síðan 2008.
“Ég hef kennt í öllum leikskólum á Fljótsdalshéraði ásamt Fellaskóla og nú Brúarási. Ég hef átt barn í öllum grunnskólum á Fljótsdalshéraði og mér eru menntamál í Múlaþingi mjög hugleikin. Það er mér hjartans mál að skólar Múlaþings fái að dafna í þeirri mynd sem þeir eru, að þeir fái að starfa saman þannig að það sé þeim til framgangs og hagsældar. Við þurfum að vera djörf í framgangi hvað varðar tækni og þróun og koma okkur út úr því að hver og einn skóli eigi þau tæki og þann búnað sem hann þarfnast heldur að koma upp gagnabankasafni þar sem skólar, félagsmiðstöðvar og jafnvel fleiri geta fengið lánaðan búnað til skemmri tíma. Einnig eru mér málefni dreifbýlisins ofarlega í huga og ber þar helst sorphirðan og vetrarþjónustan á vegum í dreifbýlinu sérstaklega þar sem skólabílar fara um með börnin okkar.”
Þórey Birna hefur nokkrum sinnum tekið sæti á lista Framsóknarflokksins bæði í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum. Hún segir það skemmtilega og gefandi reynslu í hvert sinn með ólíku fólki sem er tilbúið til að gefa mikið af sér fyrir málstaðinn.
“Ég hlakka til komandi kosninga og vona að ég geti látið gott af mér leiða í starfi Framsóknarflokksins í Múlaþingi.”
8. Einar Tómas Björnsson
Einar Tómas Björnsson er í áttunda sæti á lista Framsóknar fyrir komandi sveitastjórnakosningar. Hann er uppalinn á Stöðvarfirði en er búsettur á Egilsstöðum og starfar sem leiðtogi í málmvinnslu hjá Alcoa Fjarðaáli.
Hann er kvæntur Berglindi Kjartansdóttur smíðakennara, saman eiga þau tvo börn en fyrir á Einar Tómas dóttur úr fyrra sambandi.
Hann var í 8.sæti á lista Framsóknar á Fljótsdalshéraði í sveitastjórnakosningunum árið 2018 og var í jafnréttisnefnd á Fljótsdalshéraði 2018-2020. Hann hefur mikinn áhuga á því að láta gott af sér leiða og hefur verið framkvæmdastjóri bæjarhátíðarinnar Stöð í Stöð á Stöðvarfirði frá árinu 2016. Einar Tómas er mikill fjölskyldumaður og finnst fátt betra en að vera í faðmi fjölskyldunnar.
„Mér finnst gaman að takast á við nýjar áskoranir og vil taka þátt í því að gera gott samfélag enn betra”.
Listinn í heild sinni:
- Jónína Brynjólfsdóttir, viðskiftalögfræðingur
- Vilhjálmur Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi
- Björg Eyþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur
- Eiður Gísli Guðmundsson, leiðsögumaður
- Guðmundur Bj. Hafþórsson, málarameistari
- Alda Ósk Harðardóttir, snyrtifræðimeistari
- Þórey Birna Jónsdóttir, kennari og bóndi
- Einar Tómas Björnsson, leiðtogi í málmvinnslu
- Ásdís Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri
- Jón Björgvin Vernharðsson, verktaki og bóndi
- Sonia Stefánsson, forstm bókasafns Seyðisfj
- Atli Vilhelm Hjartarson, framleiðslusérfræðingur
- Inga Sæbjörg Magnúsdóttir, lyfjafræðingur
- Dánjal Salberg Adlersson, tölvunarfræðingur
- Guðrún Ásta Friðbertsdóttir, leikskólakennari
- Kári Snær Valtingojer, rafvirkjameistari
- Íris Dóróthea Randversdóttir, grunnskólakennari
- Þorsteinn Kristjánsson, bóndi
- Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, búfræðingur
- Unnar Hallfreður Elísson, vélvirki og verktaki
- Óla Björg Magnúsdóttir, fyrrv skrifstofumaður
- Stefán Bogi Sveinsson, sveitarstjórnarfulltrúi