Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Grindavík

Deila grein

13/04/2018

Framboðslisti Framsóknar í Grindavík

Á félagsfundi Framsóknarfélags Grindavíkur í gær var samþykktur framboðslisti fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Nýr oddviti Framsóknar í Grindavík er Sigurður Óli Þórleifsson. Sigurður Óli er 42 ára og starfar hjá Ísfelli, sem sölustjóri Mustad beitingarvéla. Hann er kvæntur Önnu Dröfn Clausen og eiga þau 4 syni. Sigurður Óli hefur verið knattspyrnudómari í yfir 20 ár, þar af 10 ár sem alþjóðlegur knattspyrnudómari og er í dag í dómaranefnd KSÍ.
Í öðru sæti er Ásrún Helga Kristinsdóttir. Ásrún er 43 ára og starfar sem grunnskólakennari en hún hefur einnig verið bæjarfulltrúi frá 2014. Ásrún er gift Reyni Ólafi Þráinssyni og eiga þau tvær dætur.
Í þriðja sæti er Guðmundur Grétar Karlsson. Guðmundur Grétar er 38 ára framhaldsskólakennari hjá Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Guðmundur er giftur Mörtu Karlsdóttur og eiga þau tvær dætur.
Í fjórða sæti er Þórunn Erlingsdóttir. Þórunn er 37 ára íþróttafræðingur og grunnskólakennari. Hún var bæjarfulltrúi í Grindavík 2010-2012. Þórunn er gift Orra Frey Hjaltalín og eiga þau 3 börn.
Á næstu vikum mun málefnavinna Framsóknar fara fram þar sem bæjarbúum gefst kostur á að hafa áhrif á stefnu flokksins fyrir komandi kosningar. Ljóst er af samsetningu listans að mikil áhersla verður á fjölskyldumál, svo sem fræðslu-, íþrótta- og æskulýðsmál.
Framboðslisti Framsóknar í Grindavík:

 1. Sigurður Óli Þórleifsson, sölustjóri
 2. Ásrún Helga Kristinsdóttir, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi
 3. Guðmundur Grétar Karlsson, framhaldsskólakennari
 4. Þórunn Erlingsdóttir, íþróttafræðingur og kennari
 5. Anton Kristinn Guðmundsson, matreiðslumeistari
 6. Justyna Gronek, gæðastjóri
 7. Hallur Gunnarsson, formaður Minja- og sögufélags Grindavíkur
 8. Valgerður Jennýardóttir, leiðbeinandi
 9. Páll Jóhann Jónsson, útgerðarmaður, bæjarfulltrúi og fyrrv. alþingismaður
 10. Margrét Önundardóttir, grunnskólakennari
 11. Björgvin Björgvinsson, húsasmíðameistari
 12. Theodóra Káradóttir, flugfreyja
 13. Friðrik Björnsson, rafvirkjameistari
 14. Kristinn Haukur Þórhallsson, eldri borgari
Categories
Greinar

Leikskólalausnir

Deila grein

13/04/2018

Leikskólalausnir

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að ekki er allt með felldu í málefnum leikskóla Reykjavíkurborgar. Ljóst er að gera þarf stórátak áður en skólarnir verða reiðubúnir til þess að veita þá þjónustu sem borgarbúar vænta. Kallað er eftir skýrum svörum og raunhæfum lausnum frá stjórnmálamönnum nú í aðdraganda kosninga. Skiljanlega, ástandið er óþolandi.

Þessu kalli keppast frambjóðendur nú við að svara, með ýmsum fyrirheitum og hugmyndum. Meðal loforða er að byggja fleiri leikskóla og fjölga deildum. En stöldrum aðeins við. Áður en við leitum svara skulum við skilgreina spurninguna, hvert er vandamálið?

Ekki hefur, með góðu móti tekist að manna leikskólana síðustu misseri, með tilheyrandi keðjuverkandi vanda. Þó það sé gott skref að huga að byggingu nýrra leikskóla þá mun fjölgun leikskólaplássa ein og sér eingöngu auka á mannekluvanda skólanna. Vandinn í grunninn er sá að einhverra hluta vegna vill fólk ekki starfa á leikskólum og leikskólakennurum fækkar. Spurningin sem við þurfum að svara er; hvað veldur?

Að starfa með stórum hóp af litlum börnum, í litlu rými allan daginn er gríðarlega krefjandi, það veit ég af eigin raun. En vinnan göfgar manninn og eins og gefur að skilja þá eru fá störf eins gefandi. En hvers vegna fæst þá ekki fólk til starfa á leikskólum? Er svarið í raun ekki eins einfalt og það er augljóst?

Laun á leikskólum eru ekki samkeppnishæf og við söltum ekki grautinn okkar með hugsjónum einum. Megin ástæða þess að fáir leggja í þá vegferð að mennta sig í leikskólafræðum er þessi staðreynd. Af þeim sökum eru leikskólarnir bornir uppi af ófagmenntuðu starfsfólki og launin sem við bjóðum þeim eru með ólíkindum lág.

Ef ekki fæst hæft starfsfólk til starfa á leikskólum vegna þeirra lágu launa sem í boði eru, hvað gerum við þá? Bjóðum börnum og gamalmennum störfin, þyggja þau ekki hvaða laun sem er? Nei hættið nú alveg, á hvaða vegferð er þessi umræða? Við hljótum að geta gert betur.

Við þurfum að gera það upp við okkur hvort við viljum hafa fagmenntað starfsfólk á leikskólum borgarinnar. Ef svo er, þá þurfum við að hækka launin, þetta er ekki flókið.

Framsókn í Reykjavík vill fara í aðgerðir með það að markmiði að auka samkeppnishæfni leikskólanna til þess að laða að hæft og fagmenntað starfsfólk. Við viljum hækka laun leikskólakennara og leikskólaliða. Samhliða því viljum við fara í ýmsar aðgerðir til þess að bæta starfsaðstæður allra á leikskólum borgarinnar.

Nýlega kynnti Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík tillögur sínar. Tillögurnar falla margar vel að stefnu Framsóknar í Reykjavík og teljum við þær skref í rétta átt. Meðal þess sem við viljum leggja áherslu á, samhliða launahækkun er að vinnuvika starfsmanna leikskóla verði stytt enda hefur það verkefni gefið góða raun. Þá þarf að bæta aðbúnað og húsakost strax og minnka álag á starfsfólk og börn með því að minnka deildir leikskólanna.

Við getum og viljum gera betur.

Snædís Karlsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík

Greinin birtist á visir.is

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Fjarðabyggð

Deila grein

13/04/2018

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Fjarðabyggð

Félagsfundur í Framsóknarfélagi Fjarðabyggðar, sem haldinn var 12.apríl, samþykkti einróma framboðslista Framsóknar og óháðra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 26.maí næstkomandi. Mun Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, leiða listann og eru bæjarfulltrúarnir Pálína Margeirsdóttir og Hulda Sigrún Guðmundsdóttir í öðru og þriðja sæti.

 
Kosið verður í sameinaðri Fjarðabyggð í komandi sveitarstjórnarkosningum þar sem sameining milli Breiðdals og Fjarðabyggðar var samþykkt í íbúakosningu í sveitarfélögunum þann 24. mars síðastliðinn.
Jón Björn Hákonarson, oddviti listans, segist vera afar þakklátur og stoltur af því að fá að leiða listann til kosninga í sameinuðu sveitarfélagi. „Mér er efst í huga þakklæti fyrir það traust sem mér er sýnt að fá að leiða lista frambjóðenda Framsóknar og óháðra í komandi sveitarstjórnarkosningum í okkar góða sveitarfélagi. Styrkleikar Fjarðabyggðar eru fjölbreytileiki sveitarfélagsins á öllum sviðum, sterkt atvinnulíf og fjölskylduvænt samfélag sem við þurfum að hlúa að og efla ennfrekar. Þá er ég mjög ánægður með að á listanum sitja frambjóðendur úr öllum sjö byggðarkjörnum Fjarðabyggðar með fjölbreytta reynslu sem vilja leggja hönd á plóg og vinna að því að gera gott samfélag enn betra.“
Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Fjarðabyggð:

 1. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar
 2. Pálína Margeirsdóttir, bæjarfulltrúi og ritari
 3. Hulda Sigrún Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi og ritari
 4. Jón Kristinn Arngrímsson, matráður
 5. Ívar Dan Arnarson, vélstjóri
 6. Ingólfur Finnsson, bifvélavirki
 7. Aðalbjörg Guðbrandsdóttir, húsmóðir
 8. Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri
 9. Elva Bára Indriðadóttir, leiðbeinandi
 10. Sigfús Vilhjálmsson, útvegsbóndi
 11. Guðfinna Erlín Stefánsdóttir, forstöðumaður
 12. Bjarki Ingason, framleiðslustarfsmaður og nemi
 13. Gunnlaugur Ingólfsson, bóndi
 14. Elsa Guðjónsdóttir, sundlaugarvörður
 15. Þórhallur Árnason, varðstjóri
 16. Svanhvít Aradóttir, þroskaþjálfi
 17. Sævar Arngrímsson, skipuleggjandi viðhalds
 18. B. Guðmundur Bjarnson, verkstjóri
Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks í Norðurþingi

Deila grein

12/04/2018

Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks í Norðurþingi

Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks í Norðurþingi hefur verið samþykktur. Fysta sætið skipar Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og deildarstjóri, annað sætið Hrund Ásgeirsdóttir, bóndi og kennari, og það þriðja Bergur Elías Ágústsson, ráðgjafi.
Í heiðurssæti listans skipar Gunnlaugur Stefánsson, bæjarfulltrúi. Gunnlaugur hefur skipað sæti á framboðslista flokksins frá árinu 1994 og átt sæti í sveitarstjórn frá árinu 1998.
Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks i Norðurþingi:

 1. Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og deildarstjóri
 2. Hrund Ásgeirsdóttir, bóndi og kennari
 3. Bergur Elías Ágústsson, ráðgjafi
 4. Bylgja Steingrímsdóttir
 5. Heiðar Hrafn Halldórsson
 6. Eiður Pétursson
 7. Lilja Skarphéðinsdóttir
 8. Aðalgeir Bjarnason
 9. Hróðný Lund
 10. Sigursveinn Hreinsson
 11. Gísli Þór Briem
 12. Jana Björg Róbertsdóttir
 13. Unnsteinn Ingi Júlíusson
 14. Eva Matthildur Benediktsdóttir
 15. Sigríður Benediktsdóttir
 16. Jónas Þór Viðarsson
 17.  Áslaug Guðmundsdóttir
 18. Gunnlaugur Stefánsson, bæjarfulltrúi
Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Árborg

Deila grein

11/04/2018

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Árborg

Helgi S. Haraldsson, svæðisstjóri og bæjarfulltrúi, leiðir framboð Framsóknar og óháðra í Sveitarfélaginu Árborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningarnar. Í öðru sæti er Sólveig Þorvaldsdóttir, verkfræðingur, í þriðja sæti er Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri, og Gunnar Borgþórsson, knattspyrnuþjálfari, skipar fjórða sæti listans.
Framboðslistinn var samþykktur á fjölmennum fundi sem fram fór í Framsóknarhúsinu á Selfossi í gær, 10. apríl.
Málefnavinna er í fullum gangi og á næstu dögum verða auglýstir opnir málefnafundir þar sem íbúum Árborgar gefst kostur á að leggja sín lóð á vogarskálarnar að framtíðarsýn sveitarfélagsins.
Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Sveitarfélaginu Árborg fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018:
 1. Helgi S. Haraldsson, svæðisstjóri Eimskips á Suðurlandi og bæjarfulltrúi.
 2. Sólveig Þorvaldsdóttir, verkfræðingur hjá Rainrace ehf.
 3. Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Bændasamtökum Íslands.
 4. Gunnar Rafn Borgþórsson, knattspyrnuþjálfari.
 5. Inga Jara Jónsdóttir, meistaranemi við Háskóla Íslands.
 6. Gísli Gíslason, húsasmíðameistari.
 7. Guðmunda Ólafsdóttir, skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga.
 8. Guðmundur Guðmundsson, fv. sviðsstjóri.
 9. Fjóla Ingimundardóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
 10. Gissur Kolbeinsson, fjármála- og rekstrarstjóri hjá BHM.
 11. Brynja Valgeirsdóttir, líffræðingur og meistaranemi.
 12. Páll Sigurðsson, skógfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og bóndi.
 13. Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Umf. Selfoss.
 14. Þórir Haraldsson, lögfræðingur.
 15. Gunnar Einarsson, rafvirkjameistari.
 16. María Hauksdóttir, ferðaþjónustu- og kúabóndi.
 17. Hjörtur Þórarinsson, kennari og fv. framkvæmdastjóri.
 18. Íris Böðvarsdóttir, sálfræðingur og varabæjarfulltrúi.
Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar á Fljótsdalshéraði

Deila grein

09/04/2018

Framboðslisti Framsóknar á Fljótsdalshéraði

B-listi Framsóknar á Fljótsdalshéraði til sveitastjórnarkosninga var samþykktur á félagsfundi í gærkvöldi, sunnudaginn 8. apríl.
Listann skipa 8 konur og 10 karlar en sé litið til 8 fyrstu sætanna sitja þar 5 konur og 3 karlar. Stefán Bogi Sveinsson og Gunnhildur Ingvarsdóttir, bæjarfulltrúar, skipa fyrstu tvö sæti listans. Í þriðja sæti er Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi, ráðunautur og formaður Félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum. Fjórða sætið skipar Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, búfræðingur og varabæjarfulltrúi.
Flokkurinn er í dag stærstur í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs með þrjá fulltrúa en situr í minnihluta. Einn núverandi aðalmanna, Páll Sigvaldason, gefur ekki kost á sér áfram.
Eftirtaldir skipa framboðslista Framsóknar á Fljótsdalshéraði:

 1. Stefán Bogi Sveinsson, 37 ára, lögfræðingur og bæjarfulltrúi
 2. Gunnhildur Ingvarsdóttir, 65 ára, fjármálastjóri og bæjarfulltrúi
 3. Guðfinna Harpa Árnadóttir, 36 ára, bóndi og ráðunautur
 4. Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, 23 ára, búfræðingur og varabæjarfulltrúi
 5. Benedikt Hlíðar Stefánsson, 44 ára, vélatæknifræðingur
 6. Jónína Brynjólfsdóttir, 38 ára, verkefnastjóri
 7. Alda Ósk Harðardóttir, 36 ára, snyrtifræðimeistari
 8. Einar Tómas Björnsson, 26 ára, framleiðslustarfsmaður
 9. Jón Björgvin Vernharðsson, 37 ára, bóndi og verktaki
 10. Ásgrímur Ásgrímsson, 51 árs, öryggisstjóri
 11. Guðrún Ásta Friðbertsdóttir, 32 ára, leikskólakennari
 12. Björn Hallur Gunnarsson, 48 ára, verktaki
 13. Valgeir Sveinn Eyþórsson, 23 ára, nemi
 14. Ásdís Helga Bjarnadóttir, 49 ára, verkefnastjóri
 15. Guðmundur Björnsson Hafþórsson, 42 ára, málarameistari og sölumaður
 16. Magnús Karlsson, 65 ára, bóndi
 17. Sólrún Hauksdóttir, 58 ára, ofuramma og bóndi
 18. Guðmundur Þorleifsson, 86 ára, heldri borgari
Categories
Greinar

Látum góða hluti gerast

Deila grein

04/04/2018

Látum góða hluti gerast

Sveitarstjórnarmál eru nokkuð sérstök að því leyti, að það er fleira og meira sem sameinar okkur en sundrar. Ég tel að það sé óhrekjanleg staðreynd að flokkspólitískar línur séu ekki jafn skýrar og í landsmálunum. Sveitarstjórnarmálin snúast um að taka höndum saman og sameinast um lykilverkefni, til heilla fyrir nærsamfélagið. Að veita góða, stöðuga og áreiðanlega þjónustu og sameinast um það að búa til samfélag sem við getum verið stolt af og þar sem allir Hafnfirðingar fái notið sín.

Fjölskyldufólk í fyrirrúmi

Nú árar vel og það þarf að nýta aðstæður og svigrúm til uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum og jafnframt gera það af skynsemi. Á sama tíma og það árar betur er óásættanlegt að Hafnarfjörður sé eitt dýrasta sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þjónustu við fjölskyldufólk. Þjónustukönnun Gallup fyrir árið 2017 gefur vísbendingar um nauðsyn þess að gera betur á mörgum sviðum hafnfirsks samfélags. Oft er þörf á nýrri sýn, nýrri hugsun og snjöllum lausnum til að bregðast við og gera betur. Framsókn og óháðir munu á næstu dögum kynna tillögur að úrbótum með framsýnum og áreiðanlegum lausnum, Hafnfirðingum öllum til heilla.

Framboðið

Mikill undirbúningur hefur átt sér stað hjá framboði Framsóknar og óháðra undanfarna mánuði. Fjölmargir gáfu sig fram og sóttust eftir sæti á lista. Það er í senn, bæði ánægjulegt og styrkleikamerki. Og sterk vísbending um fólk vill breytingar og er tilbúið til að vera aflvaki breytinga. Listi Framsóknar og óháðra er breið fylking fólks á öllum aldri, einstaklinga sem koma úr ólíkum áttum, hafa ólíka reynslu, þekkingu og menntun. Einstaklingar sem náð hafa saman um það verkefni að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi fyrir okkur öll.

Kosningabaráttan er rétt að byrja og við hlökkum til að hitta Hafnfirðinga og kynna fyrir þeim málefni okkar og áherslur. Við erum þegar farin af stað að hitta kjósendur og munum halda því áfram næstu vikurnar. Hvert og eitt okkar er tilbúið að leggja sitt af mörkum til hagsbóta fyrir Hafnfirðinga og í sameiningu munum við láta góða hluti gerast. Við erum sterkari saman.

Ágúst Bjarni Garðarsson, oddviti Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði.

Greinin birtist á vísir.is 4. apríl 2018.

 

Categories
Greinar

Samstarf um Sundabraut

Deila grein

04/04/2018

Samstarf um Sundabraut

Reykvíkingar hafa haft Sundabraut til umræðu í áratugi, enda um mikla samgöngubót að ræða. Tilgangur Sundabrautar er margþættur og margumræddur en hún er m.a. talin hafa mikilvægu hlutveki að gegna í þróun byggðar á suðvesturhorni landsins og er forsenda uppbyggingar í Gufunesi og Geldingarnesi. Sundabraut er talin hafa mikla þýðingu fyrir samgöngur á landsvísu og hefur verið skilgreind sem þjóðvegur í þéttbýli, en því fylgir að kostnaður við gerð hennar mun greiðast úr ríkissjóði.
Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa unnið að þessu verkefni í sameiningu frá árinu 1995 í ljósi þess að borgin fer með skipulagsvald á því svæði sem brautinni er ætlað að liggja. Í gegnum tíðina hafa komið upp ýmsar hugmyndir að leiðarvali en á síðustu árum hefur aðallega verið þrætt um tvo kosti, innri leið (leið III) og ytri leið (leið I).

Báðar leiðir hafa verið taldar leysa meginhlutverk Sundabrautar sambærilega en kostnaðaráætlanir sýndu að ytri leiðin var um 50% dýrari en innri leiðin. Á þeim forsendum gerði Vegagerðin innri leiðina að tillögu sinni á sínum tíma. Þá er vert að benda á að skipulagsfræðingar hafa á síðari árum tekið undir tillögu Vegagerðarinnar á þeim forsendum að stefna innri leiðar Sundabrautar sé betur í takt við þróun samgönguáss höfuðborgarsvæðisins.

 

Samstarfi slitið
Reykjavíkurborg sló hins vegar innri leiðina, að því er virðist einhliða út af borðinu við útgáfu aðalskipulags Reykjavíkurborgar 2010-2030. Í nýju skipulagi er einungis gert ráð fyrir ytri leið Sundabrautar en í vegstæði innri leiðar áætluð íbúabyggð. Við þessa tilhögun skipulags gerði Vegagerðin ítrekaðar athugasemdir, með hliðsjón af 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr. 80/2007 en þar segir að lega þjóðvega í skipulagi skuli ákveðin að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Er þar jafnframt tekið fram að fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstutt sérstaklega.
Af viðbrögðum Vegagerðarinnar í framhaldinu að dæma má draga þá ályktun að hún telji Reykjavíkurborg ekki hafa gætt að þessu þegar innri leið var hafnað með nýju skipulagi. Steininn virðist loks hafa tekið úr í fyrra þegar Reykjavíkurborg undirritaði samning um uppbyggingu íbúða á Gelgjutanga, en sú uppbygging mun að óbreyttu koma varanlega í veg fyrir innri leið Sundabrautar. Hreinn Haraldsson vegarmálastjóri sendi Reykjavíkurborg í kjölfarið bréf þar sem enn og aftur var vakin athygli borgarinnar á fyrrgreindri 2. mgr. 28. gr. Vegalaga. Þá benti hann einnig sérstaklega á 3. mgr. sama ákvæðis sem hljóðar svo: „Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.“

Ágreiningur milli ríkis og borgar
Vegagerðinni hefur verið falið það hlutverk að vinna að þróun og endurbótum á vegakerfinu með gerð áætlana um nýjar framkvæmdir eftir því sem almannahagsmunir og þarfir samfélagsins krefjast. Almennt er viðurkennt að ákvörðun um vegstæði þjóðvega sé ekki einkamál, hvorki einstaklinga né einstakra sveitarfélaga. Af þeim sökum hafa bæði ríki og sveitarfélög ýmis þvingunarúrræði til þess að ná bestu útkomunni við lagningu vega, með almannahag að leiðarljósi. Fyrrgreint og tilvitnað ákvæði vegalaga er eitt þeirra. Sú staða er því upp komin að Vegagerðin lítur svo á að Reykjavíkurborg eigi að fjármagna þann umfram kostnað sem til fellur vegna vals borgarinnar á dýrari leiðinni. Hér er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða, því þó fyrri áætlanir hafi ekki verið unnar upp frá grunni gerir Vegagerðin ráð fyrir hér um bil 10 milljarða mun milli leiða, að núvirði.

Sáttarhönd Framsóknar
Ágreiningur um greiðslu umframkostnaðar er í okkar huga ekki stóra málið, þó það sé að sjálfsögðu stórmál fyrir íbúa Reykjavíkur ef 10 milljarða krafa verður stíluð á þá eina. Stóra málið er það að sérfræðingar Vegagerðarinnar gerðu innri leiðina að tillögu sinni, eftir ítarlega úttekt. Sú leið varð fyrir valinu með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi og okkur stjórnmálamönnum ber að taka mark á því.

Það hæfir ekki höfuðborg landsins að standa í deilum við ríkið sjálft. Við viljum vera til fyrirmyndar og með hagsmuni almennings að leiðarljósi ganga aftur til samstarfs við Vegagerðina við val á þeirri leið sem Sundabraut verði mörkuð um ókomna tíð. Sé það enn tillaga Vegagerðarinnar, að undangenginni nýrri úttekt og kostnaðarmati að innri leiðin sé betri, erum við tilbúin til þess að viðurkenna að lóðaúthlutun á Gelgjutanga hafi verið mistök og skoða hvort ekki borgi sig að vinda ofan af þeim. Fyrsta skrefið í þá átt væri að ganga til samninga við lóðahafa með það að markmiði að greiða aftur innri leið Sundabrautar. Við viljum leita sátta og velja þá leið sem verður hagkvæmust fyrir okkur öll, Reykvíkinga sem og aðra landsmenn.

Ingvar Mar Jónsson

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum 2018.

Greinin birtist á eyjan.pressan.is 3. apríl 2018.

Categories
Fréttir Sandgerði og Garður

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Garði og Sandgerði

Deila grein

03/04/2018

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Garði og Sandgerði

B-listi Framsóknar og óháðra í sameiginlegu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis hefur verið samþykktur vegna sveitarstjórnarkosninganna þann 26. maí næstkomandi. Á listanum eru 10 konur og 8 karlar, þar af eru 3 konur í efstu 4 sætum listans segir í fréttatilkynningu, en núverandi bæjarfulltrúi B-listans í Sandgerði, Daði Bergþórsson, leiðir listann.
Í öðru sæti er Álfhildur Sigurjónsdóttir, varabæjarfulltrúi og tollmiðlari, og í því þriðja er Thelma Dögg Þorvaldsdóttir, myndlistarkennari. Í heiðurssæti listans er Guðmundur Skúlason, bæjarfulltrúi, en hann hefur leitt B-listann í Sandgerði frá árinu 2010.
„Ég er gífurlega ánægður með þennan fjölbreytta og vel skipaðan framboðslista. Málefnavinna er að fara í gang og hvetjum við alla áhugasama bæjarbúa að taka þátt í því með okkur“, segir Daði Bergþórsson oddviti B-lista Framsóknar og óháðra.
„Mikil tilhlökkun og gleði er ríkjandi í framboðshópnum og vilji til að fylgja eftir sameiningu Garðs og Sandgerðis með mikilli og góðri uppbyggingu og gera gott samfélag enn betra. Ég fer bjartsýnn inní baráttuna og vongóður um góða niðurstöðu.“
Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Garði og Sandgerði:

 1. Daði Bergþórsson, bæjarfulltrúi og deildarstjóri
 2. Álfhildur Sigurjónsdóttir, varabæjarfulltrúi og tollmiðlari
 3. Thelma Dögg Þorvaldsdóttir, myndmenntakennari
 4. Erla Jóhannsdóttir, grunnskólakennari
 5. Eyjólfur Ólafsson, varabæjarfulltrúi og rafeindavirkameistari
 6. Úrsúla María Guðjónsdóttir, laganemi
 7. Guðrún Pétursdóttir, flugverndarstarfsmaður
 8. Unnar Már Pétursson, vaktstjóri
 9. Jóna María Viktorsdóttir, þjónustufulltrúi
 10. Jónas Eydal Ármannsson, framhaldsskólakennari
 11. Aldís Vala Hafsteinsdóttir, viðskiptafræðinemi
 12. Sigurjón Elíasson, tækjastjóri
 13. Berglind Mjöll Tómasdóttir, varabæjarfulltrúi og vaktstjóri
 14. Bjarki Dagsson, kerfisstjóri
 15. Hulda Ósk Jónsdóttir, verkstjóri
 16. Jón Sigurðsson, bóndi
 17. Ólöf Hallsdóttir, húsmóðir
 18. Guðmundur Skúlason, bæjarfulltrúi og aðstoðarvarðstjóri
Categories
Greinar

Bleiki fíllinn í skólamálum

Deila grein

02/04/2018

Bleiki fíllinn í skólamálum

Eftir nærri tvo áratugi í starfi með börnum og kennurum í borginni okkar, og víðar, veit ég frá fyrstu hendi yfir hvaða mannauði við höfum að ráða og mikilvægi þess að hlúa vel honum. Reykjavíkurborg er stærsta sveitafélag landsins og á að mínu mati að vera best til þess fallin að vera leiðandi í skólaþróun og skólastarfi. Við getum gert miklu betur, ef vilji stjórnvalda eða borgaryfirvalda er fyrir hendi.

Leik- og grunnskólakennarar eru sérfræðingar á sínu sviði. Kennarar þurfa svigrúm, tíma og frelsi til að stýra skólaþróun, enda engir aðrir betur til þess fallnir. Finnska leiðin, sem margir hafa nefnt en færri vita kannski nákvæmlega hvað snýst um, gengur út á það að valdefla sérfræðinginn sem kennarinn er og auka samstarf og jöfnuð í skólakerfinu. Þá eiga allir að hafa jöfn tækifæri til náms óháð búsetu eða efnahag. Einkareknir skólar eru því ekki til umræðu í Finnlandi, slíkt elur á samkeppni og ójöfnuði. Samstaða þarf að ríkja þvert á pólitíska flokka um að samvinna og menntun fari best saman og að hver og einn skipti máli. Það á ekki að skipta framtíð barns máli hvort það búi í bæ sem er „grænn“ eða „blár“ eða „rauður“ á hinu pólitíska litrófi.

Í stað þess að hvetja skóla til samkeppni með von um að eitthvað batni sem aflaga hefur farið, þá er krafa um samstarf. Þar sem vel gengur er skoðað í kjölinn og það er yfirfært á aðra staði sem þurfa eitthvað að bæta. Ef kennari nær ekki til nemanda fær hann annan kennara í til að reyna og sjá hvað gerist. Ef erfiðlega gengur með einn bekk, þá er samstarf sett í gang með öðrum bekk þar sem betur gengur. Það er nefnilega miklu meira í húfi en orðspor og meðaleinkunn. Líf barna eru í húfi. Að mínu mati er því algjörlega galið að ætla að ala á samkeppni milli skóla eða hverfa með aukinni einkavæðingu því í valnum munu liggja nemendur sem ekki hafa bakland eða stuðning eða einhvers konar annan vanda sem er þeim hamlandi í hröðu umhverfi harðrar samkeppni.

Kennarar á Íslandi vita þetta manna best enda keppast þeir við og þreytast aldrei á að viðhafast einhvers konar samstarf sín á milli. Hér eru haldnar menntabúðir um alls konar út um allt land, menntamál eru rædd á twitter undir #menntaspjall, ótalmargir facebookhópar um hverja faggrein hafa myndast sem vettvangur kennara til að skiptast á hugmyndum að verkefnum og lausnum. Kennarar sitja kvöld eftir kvöld og þýða og staðfæra eða útbúa kennsluefni til að kveikja áhuga nemenda og leyfa öðrum kennurum að njóta góðs af því. Kennarar sækja ráðstefnur um allan heim og nýta eigið fé og endurmenntunartíma og fjármagn til að ferðast um landið og heiminn til að skoða hvað er í gangi þar og taka sem mest með sér heim í sinn skóla – og aftur – miðla til kollega sinna. Alþjóðlegt samstarf og verkefni eru í gangi víða um allt land og krefst það mikilla fórna af hálfu þeirra kennara sem að því standa enda dugir hinn eiginlega skilgreindi vinnutími skammt þegar eitthvað stórt er í bígerð.

Skólarnir okkar búa yfir gríðarlegum mannauði og gríðarlegri þekkingu. Það væri algjört glapræði af hálfu yfirvalda á hverjum stað að ætla þessu fólki að halda áfram að troðast enn frekar inn í aukna miðstýringu sem sveitarfélögin hafa komið á á undanförnum árum, með stærsta sveitarfélag landins, Reykjavík, í broddi fylkingar.

Hér á landi eru fjölmargir einstaklingar sem virkilega myndu vilja gera kennslu og starf með börnum að sínu framtíðarstarfi, ef hvatinn væri til staðar. Við höfum alið upp gagnrýna einstaklinga sem sjá og skilja að það lifir enginn af hugsjóninni einni saman. Myndu því betri kjör og starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara skila okkur fleiri fagmenntuðum kennurum inn í skólana sem svo aftur gerði það að möguleika að bjóða upp á fleiri leikskólapláss og bæta meðleinkunn og alþjóðlegan orðstír bókaþjóðarinnar í norðri, ef því er að skipta.

Valdeflum kennarann og viðurkennum þá sem þá sérfræðinga sem þeir eru. Greiðum leik- og grunnskólakennurum laun sem ná að lágmarki meðallaunum sérfræðinga hér á landi, með sama menntunarstig að baki. Um þetta þarf að skapa þjóðarsátt.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir

Höfundur er grunnskólakennari og er að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun við HÍ.

Hjördís skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins til borgarstjórnarskosninganna í vor.

Greinin birtist á visir.is 28. mars 2018.