Categories
Fréttir

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

Deila grein

25/01/2017

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

lilja____vef_500x500,,Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið afar vel. Lánshæfi ríkissjóðs hefur hækkað í A-flokk, m.a. vegna lækkandi skulda ríkissjóðs, mikils innstreymis gjaldeyris og góðrar ytri stöðu þjóðarbúsins. Þá hafa stöðugleikaframlög slitabúanna gert það að verkum að heildartekjur ríkissjóðs eru við 1.000 milljarða á fjárlögum síðasta árs. Ég er því ekki alveg viss um að þetta tengist nýlegri skipan hæstv. fjármála-og efnahagsráðherra eins og hann virðist jafnvel halda því að hækkun lánshæfismats ríkissjóðs er langhlaup og hann er bara nýbúinn að hefja störf.
Algjör grundvallarbreyting hefur orðið frá fyrri tímum þar sem hrein erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Seðlabankinn hefur brugðist við þessu mikla innflæði með auknum kaupum á gjaldeyri. Gjaldeyrisforðinn er orðinn rúm 40% af landsframleiðslu, en kostnaður við hann að sama skapi er umtalsverður. Eitt stærsta verkefni hagstjórnarinnar verður að bregðast við þeim breytingum sem hafa átt sér stað á viðskiptajöfnuðinum.
Góðir landsmenn. Einn liður í því væri að setja á laggirnar stöðugleikasjóð Íslands. Slíkur sjóður hefði það eitt af meginmarkmiðum að stuðla að sveiflujöfnun í hagkerfinu. Þjóðir sem eru ríkar að auðlindum líkt og Ísland hafa sett upp svipaða sjóði til að ná betur utan um hagstjórnina. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.
Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um stofnun sjóðs með svipað hlutverk. Til að mynda er getið um slíkan sjóð í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og tel ég það vera afar jákvætt. Almennt er gengið út frá því að auðlindagjöld standi undir sjóðnum, bæði stofnframlagi og vexti hans. Slíkt er vissulega mögulegt en það tæki langan tíma að byggja upp myndarlegan höfuðstól til ávöxtunar. Skilvirkara væri að nota hluta af stöðugleikaframlögunum sem höfuðstól stöðugleikasjóðsins, kaupa upp hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og stækka sjóðinn svo smám saman með tekjum af auðlindum landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkugeiranum og ferðaþjónustu.
Ég held að flestum landsmönnum sé ljóst að efnahagslegri endurreisn sé vel á veg á komið. Hins vegar hefur vantað upp á samfélagslega sátt í þjóðfélaginu. Má segja að lítill stuðningur við ríkisstjórnina sé vitnisburður um slíkt. Okkur stjórnmálamönnunum ber að hlusta gaumgæfilega eftir því hver voru skilaboðin í síðustu kosningum.
Góðir landsmenn. Við í Framsóknarflokknum teljum að brýnasta verkefnið fram undan sé að fjármunum sé forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum fjárfesta enn frekar í innviðum kerfisins og stíga markviss skref svo allir fái notið góðrar þjónustu án tillits til efnahags. Við munum því leggja til á þingi að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum þar sem m.a. þarf að taka tillit til þeirra miklu tækniframfara sem eru að eiga sér stað í heilbrigðismálum. Við viljum að Ísland sé þar fremst í flokki og geti boðið upp á eina tæknivæddustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Þjóðin kallar eftir því að heilbrigðismálum sé sinnt betur og við verðum að axla þá ábyrgð.
Samkeppnishæfi Íslands skiptir okkur öll máli. Einn liður í því er að menntakerfi okkar undirbúi framtíð þjóðarinnar. Í alþjóðlegum samanburði hafa skólarnir okkar verið að gefa eftir. Við verðum að bregðast við þeirri þróun. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og framtíðin byggir á styrk þess. Við í Framsóknarflokknum leggjum ríka áherslu á að efla menntun í landinu með jöfnum tækifærum og hagsmunum þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum fjárfesta í menntakerfinu þannig að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins árið 2020.
Góðir landsmenn. Vandi fylgir vegsemd hverri. Kjöraðstæður eru í íslensku efnahagslífi og mikilvægt að rétt sé haldið á málum. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að gera vel og forgangsraða vel. Brýnt er að þingið vinni vel saman að góðum málum.
Ég óska nýrri ríkisstjórn velferðar og tel að henni farnist best með virku og öguðu aðhaldi frá minni hlutanum. — Eigið góðar stundir.”
Lilja Dögg Alfreðsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

Deila grein

25/01/2017

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

sigmundur_vef_500x500,,Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Nú höfum við lesið stjórnarsáttmálann. Við höfum hlustað á stefnuræðuna. En við erum engu nær um það til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð. Var það bara vegna þess að hún var talin ívið skárri kostur en áframhaldandi óvissuástand, áframhaldandi stjórnarkreppa, sem fylgdi hinum undarlegustu kosningum síðari áratuga? Hver eru markmiðin, ég tala nú ekki um aðferðirnar? Við vitum það ekki og erum engu nær eftir umræðuna í kvöld.

Það var mjög lýsandi að þegar nýr forsætisráðherra var spurður að því í fjölmiðlum fyrir fáeinum dögum hvaða mál stæðu upp úr hjá nýrri ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar þá kom honum ekki annað til hugar en að nefna ríkisfjármálaáætlun, það væri líklega ríkisfjármálaáætlun sem stæði upp úr. Þetta er lögbundið plagg sem fjármálaráðherra leggur fram á hverju ári og það stendur upp úr hjá þessari ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar. Ráðherrann hefði allt eins getað fylgt þessu eftir með því að segja að svo yrði líklega kosið í nefndir og síðan mætti vænta þess að það yrðu eldhúsdagsumræður einhvern tíma undir lokin. Það væri það sem stæði upp úr. Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn.

Þegar ríkisstjórn tók við árið 2013 var til staðar sýn en ekki aðeins sýn heldur líka stefna um það hvernig menn ætluðu að hrinda þeirri sýn í framkvæmd. Það var strax hafist handa við undirbúning og einungis sex mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við var ráðist í framkvæmd á risastórum breytingum. Hér segja menn okkur, svona í bland við einhverja frasa, að fyrsta árið fari í að meta stöðuna, meta heilbrigðiskerfið, peningastefnuna, kalla til fjölflokkasamráð, og líklega fjölþjóðlegt samráð líka, og svo sjái menn hvað komi út úr því.

En auðvitað ættum við að gleðjast, virðulegur forseti, yfir því sem er kannski einna mikilvægast við myndun þessarar ríkisstjórnar og það er að tvíhöfða flokkurinn Viðreisn/BF skuli hafa gefið eftir nánast öll megináhersluatriði sín úr kosningabaráttunni þegar stjórnin var mynduð, a.m.k. á pappírnum. En hvað gerist á bakvið tjöldin? Formaður Viðreisnar/BF er alræmdur plottari að eigin mati. Hann tekur að sér að plotta, ekki einungis fyrir sjálfan sig heldur aðra líka. Hvaða plott bjó að baki þegar þessi ríkisstjórn var mynduð? Hvert var viðeigandi plott, svo ég noti orð formanns Viðreisnar, þegar ríkisstjórnin var mynduð? Hvað þurfti t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að gefa eftir til þess að endurheimta Viðreisn og fylgitungl þess flokks og fá þá til fylgilags við sig?

Reyndar vakti athygli mína að nýr fjármálaráðherra sá ástæðu til að setja ofan í við nýjan forsætisráðherra þegar á kynningarfundi þar sem verið var að kynna ríkisstjórnina og sagði honum að hann ætti að passa sig að eyða ekki of miklu úr kassanum sem hann myndi halda utan um. Það er kannski ekki svo skrýtið því að ég hef aldrei áður heyrt formann Sjálfstæðisflokksins státa sig sérstaklega af því hversu mikið honum hafi tekist að auka útgjöld ríkissjóðs milli ára. Það held ég að hafi ekki gerst áður í sögu þess annars ágæta flokks fyrr en nú.

En hvað með allt hitt? Hvað með kröfur samtaka sem urðu til undir nöfnum á borð við Áfram Icesave og Já ESB? Hvert verður viðeigandi plott í samstarfi við þá flokka? Hvert verður viðeigandi plott þegar kemur að því að fara í gegnum hvers konar fjármálakerfi við ætlum að hafa í landinu, endurmeta það? Hvert verður viðeigandi plott í samskiptum við Evrópusambandið?

Nýr forsætisráðherra tók reyndar Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð. Hvers vegna gerði hann það? Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Hvað ætlar nýr forsætisráðherra sér með Seðlabankann? Það var reyndar nefnt að skoða ætti peningastefnuna, en hvernig? Sjálfstæðisflokkurinn vill, held ég, sjálfstæða peningastefnu, annar stjórnmálaflokkur myntráð og sá þriðji ganga í ESB og leysa málin þannig. Hvernig verður þetta leyst og hvernig verður tekist á við okurvextina og verðtrygginguna?

Að sögn vann núverandi forsætisráðherra að því árum saman, eða frá því snemma á síðasta kjörtímabili, að meta í fjármálaráðuneytinu hvernig staðið yrði að því að vinna sig út úr kerfi verðtryggingar. Skyldu þau blöð og sú vinna hafa fylgt í kössunum þegar flutt var úr Arnarhvoli í Stjórnarráðið eða skyldi sú vinna öll hafa farið í pappírstætarann? Það verður tíminn að leiða í ljós, virðulegi forseti. Tími minn er nánast á þrotum svo áform mín um að hrósa nokkrum ráðherrum — ekki mörgum — eru þar með farin út um þúfur í bili, en það vinnst tími til þess síðar.

Aðalatriðið er þetta: Með örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa sýn, takmarkaða stefnu og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd. En á meðan þessir flokkar eru í ríkisstjórn verðum við líklega að vonast til þess að það verði þannig áfram.”

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.

Categories
Fréttir

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

Deila grein

24/01/2017

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

elsa_vef_500x500Elsa Lára Arnardóttir, alþingismaður Framsóknar, hefur lagt fram þingmál er varðar samræmda vísitölu neysluverðs.
Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs.
Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september 2017.

Heimild: www.althingi.is