Categories
Greinar

Hvað er í matinn?

Deila grein

18/12/2015

Hvað er í matinn?

SIJVið lifum í heimi þar sem kröfur um heilnæm matvæli verða sífellt háværari. Neytendur vilja vita hvað þeir eru að kaupa og hvernig það er framleitt. Og víst er að aðstæðurnar og aðferðirnar eru mismunandi. Sýklalyf eru víða notuð í miklu magni við kjötframleiðslu, í ávaxta og- grænmetisræktun og fiskeldi. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum fara 80% af sýklalyfjum í dýr en aðeins 20% í mannfólkið. Í Evrópusambandinu skiptist þetta til helminga. Á Íslandi og Noregi er hlutfallið miklu lægra þar sem talið er að um 80% sýklalyfja fari í mannfólkið.

Ástæðan fyrir notkun sýklalyfja við matvælaframleiðslu er sú, að þau eru vaxtarhvetjandi og fyrirbyggjandi. Slík notkun er óheimil á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnunni (WHO) eru bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum orðnar verulegt vandamál. Og því meiri og útbreiddari sem notkun sýklalyfja er, því meiri verður vandinn. Niðurstaðan verður óhjákvæmilega sú að hefðbundin sýklalyf virka ekki sem skyldi. Afleiðingin, að mati WHO, getur orðið sú að »saklausar« venjubundnar sýkingar og sár geta valdið miklum skaða og jafnvel dregið fólk til dauða vegna þess að sýklalyfin vinna ekki á sýklunum; þeir eru orðnir ónæmir.

Sýkingar geta í sumum tilfellum borist úr dýrum í menn. Til dæmis inflúensa svína og fugla, salmonella og kampýlóbakter. Það sama gildir um bakteríustofna sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum. Þeir geta borist í menn frá dýrum og matvælum. Áhættan vex en er þó mismikil eftir löndum og svæðum.

Smitvarnarstofnun Evrópusambandsins (ECDC) telur að í dag nemi árlegur kostnaður vegna baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, um 1,5 milljörðum evra og að á hverju ári látist um 25 þúsund manns af þessum völdum. Það sama er uppi á teningnum í Bandaríkjunum.

Áhrifaríkasta leiðin til að snúa þessari óheilla (lífshættulegu) þróun við, er að banna að lyf séu notuð við þauleldi og/eða sem vaxtarhvetjandi efni í eldi dýra, en það hefur alltaf verið bannað á Íslandi.

Hvernig er staðan hér? 

Samkvæmt Lyfjastofnun Evrópu eru Ísland og Noregur með langminnstu notkun á sýklalyfjum þegar miðað er við framleitt kíló af kjöti líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd sem birtist í Bændablaðinu og er byggð á tölum frá Lyfjastofnun Evrópu.

Eftir því sem best er vitað, þá er staðan líka góð þegar kemur að ónæmum stofnum. Hafa ber í huga að ekki hafa á undanförnum árum verið gerðar stöðugar mælingar á ónæmum stofnum baktería í mönnum og dýrum. Óbirtar niðurstöður rannsókna sem Matvælastofnun stóð fyrir 2014 vegna kampýlóbakter í kjúklingum, sýna að einn stofn af 29 reyndist vera ónæmur vegna sýklalyfjanna Ciprofloxacin og Nalidixín sýru eða um 3,4%. Varðandi salmonella, þá voru allir salmonellastofnar sem greindust í dýrum og fóðri árið 2014, prófaðir með tilliti til næmi þeirra gegn sýklalyfjum, og benda óbirt gögn einnig til þess að tíðnin sé mjög lág.

Tíðni svo kallaðrar MRSA-bakteríu, sem er ónæm fyrir sýklalyfjum, hefur aukist í dönskum grísum; úr 44% árið 2011 í 77% í ár. Þó er ástandið langt því frá verst í Danmörku. En sjúkrahús og sjúkrastofnanir um allan heim reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að óværan berist inn fyrir þeirra veggi. Þar getur sýking, sem áður var saklaus, valdið illviðráðanlegum eða óbætanlegum skaða hjá fólki með veiklað ónæmiskerfi.

Ástandið er enn mjög gott í íslenskum landbúnaði og á matvælamarkaði. Og staðan er einnig góð á heilbrigðisstofnunum okkar, þó alltaf þurfi að vera á varðbergi. Það er mikilsvert að auka ekki áhættuna að óþörfu. Ein leið til að draga úr framtíðaráhættu er að auka framleiðslu á íslenskum matvælum og við innflutning þarf að gæta vel að því að flytja inn matvörur frá löndum sem aðhyllast sambærilega framleiðsluhætti og tíðkast hér.

…en hvaðan kemur útlenda kjötið? 

Samkvæmt yfirliti frá Hagstofu Íslands var kjöt flutt inn árið 2014 frá eftirfarandi löndum:

hvaderimatinn

Sláandi er að sjá að helmingurinn af innflutningnum er frá Þýskalandi; landi sem notar 35 sinnum meira af sýklalyfjum við sína framleiðslu en notuð eru á Íslandi. Danir nota sjö sinnum meira af lyfjum, en samt eru 22% af öllu kjöti flutt inn þaðan. Hlutfall af innfluttu kjöti frá Spáni er 8,5% en þar er lyfjanotkunin 40 sinnum meiri en á Íslandi! Lítið er hins vegar flutt inn frá Noregi og Svíþjóð, sem ásamt Íslandi, nota langminnst af sýklalyfjum við framleiðslu á kjöti.

Nokkur þungi hefur verið í málflutningi samtaka verslunarmanna um að herða beri á innflutningi á kjöti til Íslands. Verslunin skýlir sér á bak við neytendur og segir að hagurinn sé allur þeirra. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir neytendur að kaupmenn skuli velja að flytja inn kjöt frá þeim löndum í Evrópu þar sem lyfjanotkunin er margföld á við það sem hún er á Íslandi. Í öllu falli virðist umhyggja fyrir heilsu neytenda ekki ráða för.

Það ætti að vera sameiginlegt verkefni bænda, verslunar og yfirvalda að tryggja heilnæm matvæli á borð neytenda. Jafnframt þurfa merkingar að vera skýrar. Þar duga ekki upprunamerkingar um að kjötvinnslan sé í Hollandi (sem notar 13 sinnum meira af sýklalyfjum en notuð eru á Íslandi) ef dýrið er alið og slátrað á Spáni eða Ítalíu, sem eru þau tvö Evrópulönd sem virðast nota hvað mest af sýklalyfjum við framleiðslu matvæla. Það ætti að vera keppikefli verslunarinnar í samstarfi við neytendur og yfirvöld að tryggja að innflutt vara sé af sömu gæðum og sú innlenda.

Aðeins þannig tryggjum við örugg matvæli á alla diska, vinnum gegn auknu ónæmi baktería og gerum okkur þannig kleift að sigrast á sýkingum í framtíðinni. Eða eins og segir í fyrirsögn í sænska blaðinu Dagens nyheter á dögunum; Val okkar á innfluttu kjöti ræður hvort við stöndumst ónæmisógnina.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2015.