Categories
Fréttir

Færri glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað

Deila grein

29/02/2016

Færri glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað

EÞHÞeim sem lægstar tekjur hafa og glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Hlutfall þeirra er nú u.þ.b. 25% en var 30% árið 2011. Þessi tiltekni félagsvísir tilgreinir húsnæðiskostnað þeirra 20% landsmanna sem lægstar hafa tekjurnar. Tekjulágir með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað voru fæstir árið 2008 en gögnin taka til tímabilsins 2004 til 2014. Húsnæðiskostnaður telst verulega íþyngjandi ef hann nemur yfir 40% af ráðstöfunartekjum heimilis.
Aðeins 2,2% tekjuhæstu heimilanna búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Í félagsvísum er staðan greind eftir heimilisgerð og má þar sjá að algengast er að  fullorðnir karlmenn búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað en þessi staða er fátíðust hjá tveimur fullorðnum með eitt eða tvö börn.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra fjallaði m.a. um þetta á Fasteignaráðstefnunni í Hörpu í síðustu viku þar sem húsnæðismarkaðurinn í nútíð og framtíð var til umræðu: „Það er fagnaðarefni að hópur hinna tekjulægstu sem eiga í vandræðum með húsnæðiskostnað sé að minnka. Hann er hins vegar enn allt of stór að mínu mati. Þær breytingar á opinberum stuðningi við húsnæðismál, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi og koma fram í frumvörpum sem ég hef mælt fyrir, munu vonandi stuðla að því að færri þurfi að glíma við húsnæðiskostnað sem gleypir bróðurpartinn af ráðstöfunartekjum þeirra“ segir Eygló Harðardóttir.

Um félagsvísa

Megintilgangur félagsvísa er að birta á einum stað safn tölulegra upplýsinga til að auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Á þriðja tug sérfræðinga frá Háskóla Íslands, Rannsóknum og greiningu, Tryggingastofnun ríkisins, Barnaverndarstofu, Ríkislögreglustjóra, Hagstofu Íslands, velferðarráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Félagsvísindastofnun, Ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, umboðsmanni skuldara, embætti landlæknis, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá Íslands tóku þátt í vinnu við gerð félagsvísa.