Það er ánægjulegt að sjá að sífellt hærra hlutfall eldra fólks starfar á íslenskum vinnumarkaði. Mikilvægt er að hæfileika þeirra sem eldri eru njóti við þegar yngri kynslóðir eru að koma nýjar inn á vinnumarkaðinn. Í Félagsvísum 2015, sem gefnir eru út af velferðarráðuneytinu, kemur fram að atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 55-74 ára var 67,2% árið 2014 en tíu árum áður var hlutfallið 63,3%.
Bætt starfsumhverfi
Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar, sem og annars staðar á Vesturlöndum, er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar er til að mynda gert ráð fyrir því að hlutfall Íslendinga 60 ára og eldri verði komið yfir 30% árið 2060. Á sama tíma erum við heilsuhraustari og ævilíkur að lengjast, sem leiðir af sér aukinn vilja og getu til virkrar þátttöku í atvinnulífinu hjá þeim sem eldri eru. Hér á Íslandi er stærstur hluti vinnumarkaðarins blessunarlega meðvitaður um mikilvægi þess að tryggja starfsfólki sínu starfsumhverfi sem stuðlar að betri líðan og heilsu. Gott og vandað starfsumhverfi skilar sér í betri anda á vinnustaðnum og ánægðara starfsfólki, sem skilar sér í auknum afköstum.
Jöfn meðferð á vinnumarkaði
Það er ljóst að við erum á réttri leið. Mikilvægt er að auka möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína svo að vinnumarkaðurinn geti notið þeirrar miklu þekkingar og færni sem þessi aldurshópur býr yfir, sem lengst. Þar má meðal annars nefna möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri starfsævinnar eða seinni stigum hennar. Einnig er mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar. Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.
Til stendur að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði nú í vor. Í frumvarpinu felst að fyrirtæki og stofnanir megi ekki mismuna fólki, meðal annars á grundvelli aldurs. Samþykkt slíks frumvarps er mikilvægt skref í að styðja enn betur við eldra fólk á vinnumarkaði og mun ég glaður greiða atkvæði mitt með því.
KVÓT: Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.
Þorsteinn Sæmundsson
Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. mars 2016.