Söguleg stund átti sér stað á Alþingi í vikunni þegar tillaga um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var samþykkt mótatkvæðalaust. Samþykktin markar tímamót í lýðveldissögunni þar sem aldrei áður hefur verið mörkuð heildstæð stefna um þjóðaröryggi Íslendinga. Í raun hefur aldrei verið jafn brýnt að stjórnvöld marki slíka stefnu. Að öryggis- og varnarumhverfi Íslands og annarra Evrópuríkja stafa margar og flóknar áskoranir sem birtast okkur nær daglega í fyrirsögnum og fréttum.
Fyrir stjórnvöld er það mikill ábyrgðarhluti að í síkvikum heimi alþjóðastjórnmála – þar sem veðrabrigða gætir oft fyrirvaralaust – sé til staðar skýr stefnumörkun um framkvæmd þjóðaröryggis. Fyrir herlausa þjóð er vissulega um stórt skref að ræða en þetta skref er tekið með raunsæi og pólitíska sátt að leiðarljósi. Forsendurnar eru skýrar: Það er frumskylda stjórnvalda hvers ríkis að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar gagnvart þeim ógnum sem kunna að valda borgurum, stjórnkerfi og grunnvirkjum samfélagsins stórfelldum skaða – hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.
Hin nýja þjóðaröryggisstefna endurspeglar stöðu Íslands sem fámennrar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi sem hvorki hefur vilja né burði til að ráða yfir eigin her og tryggir öryggi og varnir sínar með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Ástæða er til að staldra við atburði á síðustu misserum og líta á þróun mála í okkar nánasta öryggisumhverfi, sem minna á að öryggi er ekki sjálfgefið. Það er afar brýnt að stilla saman strengi og horfa með heildstæðum hætti á öryggismál. Þjóðaröryggisstefnan er slíkt tæki.
Þjóðaröryggisstefnan nær jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og gerir meðal annars ráð fyrir að sett verði á fót sérstakt þjóðaröryggisráð sem hafi yfirsýn með framkvæmd stefnumiðanna og stuðli að virkri umræðu um öryggis- og varnarmál. Þegar er hafin vinna við frumvarp sem ég hyggst leggja fram, í samvinnu við innanríkisráðherra, til laga um stofnun þjóðaröryggisráðs líkt og stefnan kveður á um, og viðhalda áfram þeirri samstöðu sem ríkt hefur um málaflokkinn.
Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er í stöðugri mótun og tekur mið af þróun öryggismála á hverjum tíma. Samkvæmt ályktuninni sem samþykkt var í vikunni skal hún endurskoðuð á að minnsta kosti fimm ára fresti og ég tel brýnt að um hana fari fram regluleg umræða. Horft verður sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum og að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna verði áfram lykilstoðir í vörnum landsins. Norræn samvinna um öryggis- og varnarmál verði ennfremur efld og þróuð og áfram lögð áhersla á virkt alþjóðasamstarf á grundvelli alþjóðalaga og virðingu fyrir mannréttindum. Tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu og tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.
Öryggisumhverfi Íslands er einnig mótað af nýjum áskorunum sem þjóðaröryggisstefnan tekur mið af. Þar er áréttað að stuðlað verði að auknu netöryggi og að stefna stjórnvalda taki mið af hryðjuverkaógn, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi. Þá verði Ísland og íslensk landhelgi friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.
Það var mér sérstök ánægja að taka þátt í umræðunum á Alþingi í aðdraganda samþykktarinnar og verða vitni að þeirri sátt og samstöðu sem ríkti um þennan mikilvæga málaflokk. Um leið og ég ítreka ánægju mína með stefnuna og þakklæti til þeirra sem lögð lóð á vogarskálarnar við vinnu henni tengda vil ég undirstrika að þjóðaröryggi Íslendinga byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeim grunngildum sem okkur Íslendingum eru svo kær – lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbærri þróun, afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála.
Aðdragandi þjóðaröryggisstefnunnar hefur verið langur. Allt frá upphafi var lögð áhersla á að ná breiðri sátt og eiga þar forverar mínir í stóli – þeir Össur Skarphéðinsson og Gunnar Bragi Sveinsson – miklar þakkir skildar fyrir. Þá er ótalinn afar mikilvægur þáttur þverpólitískrar þingmannanefndar sem, undir styrkri stjórn Valgerðar Bjarnadóttur viðhélt sátt og skilaði af sér lykiltillögum sem þjóðaröryggisstefnan hvílir á. Þá fjallaði utanríkismálanefnd þingsins ítarlega um málið og skilaði sameiginlegu nefndaráliti með breytingatillögum sem allar voru til bóta.
Þjóðaröryggi er bjargfesta fyrir íslenska þjóð og í henni birtast þau gildi og þær skuldbindingar sem skapa grunninn að utanríkisstefnu Íslands. Það er ástæða til að fagna framsýni og ábyrgð allra stjórnmálaflokka á þingi sem náð hafa saman um þetta grundvallarmál.
Lilja Alfreðsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 2016.