Categories
Greinar

Brýnasta velferðarmálið

Deila grein

06/03/2017

Brýnasta velferðarmálið

Um allangt skeið hafa vextir á Íslandi verið mun hærri en gerist og gengur í öðrum vestrænum ríkjum.

Almennt séð hljóta háir vextir að rýra lífskjör almennings sem og samkeppnisstöðu atvinnulífsins og langvarandi vaxtamunur við útlönd, óháð hagsveiflum, hlýtur því að fela í sér töluvert velferðartap fyrir landið. Það ætti því enginn að velkjast í vafa um það að lækkun vaxta sé eitt brýnasta velferðarmálefni sem nú blasir við landsmönnum.

Of háir, of lengi

Vaxtamunur við útlönd hefur gjarnan verið rakinn til þess að verðbólga hér hefur verið hærri en erlendis. Það leiðir til hærri verðbólguvæntinga, sem svo hlýtur að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt að sparnaðarhneigð sé fremur lítil meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi rök eru í sjálfu sér góð og gild. Hins vegar er staðan sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið vel neðan við skilgreind verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands undanfarin þrjú ár. Jafnframt er ljóst að einkaneysla hefur þrátt fyrir allt vaxið hægar en ráðstöfunartekjur á sama tíma, samhliða því að skuldir heimilanna hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu. Virðist því sem að tengslin á milli sparnaðar og vaxta hafi breyst eftir bankahrun. Allan þennan tíma, frá ársbyrjun 2014, hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti sína við þær spár. Má af því leiða að bankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Alþingi og Seðlabankinn

Vart verður um það deilt að sjálfstæði seðlabanka er einn af hornsteinum hans. Pólitísk afskipti af bankanum ættu að vera sem minnst. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að lög um markmið Seðlabankans, og bankana að öðru leyti, eru samin af löggjafanum, Alþingi, og eru því í eðli sínu pólitísk. Þá má ekki gleyma því að Seðlabanki Íslands er banki ríkissjóðs. Útgjöld sem ákveðin eru af Alþingi og framkvæmd af ráðherrum eru greidd af Seðlabankanum þar sem helsti viðskiptareikningur ríkissjóðs er til staðar.

Seðlabankinn getur ekki neitað ríkissjóði um bankaþjónustu á borð við útgreiðslu gjalda sem Alþingi hefur samþykkt að skuli eiga sér stað jafnvel þótt Seðlabankinn geti gert athugasemd um hagræn áhrif slíkra útgjalda, sem hann oft gerir. Þá sér Seðlabankinn um að gefa út ríkisskuldabréf á markaði. Starfsemi Seðlabankans er við kemur þjónustu við pólitíska aðila er því töluverð þótt Seðlabankinn sé sjálfstæður þegar kemur að beitingu stýritækja sinna.

Lokkandi stýrivextir

Eitt af helstu stýritækjum Seðlabankans til að tryggja verðbólgumarkmið, eru svo kallaðir stýrivextir, sem eru grundvöllur að vaxtastiginu í landinu. Eftir því sem vextir Seðlabankans eru hærri, því hærri eru vextir á markaði. Það er ekki óalgengt að svo kölluð vaxtamunaviðskipti (e. carry-trade) séu stunduð á mörkuðum smárra mynta, eins og íslensku krónunnar. Þá taka fjárfestar lán á lágum vöxtum og fjárfesta þar sem hærri vextir bjóðast.

Það blasir við að vaxtastefna Seðlabankans átti stóran þátt í því hversu mikið fjármagn kom til landsins í aðdraganda hrunsins; hinir háu vextir lokkuðu fjárfesta hingað. Þess má geta að vextir í mörgum Evrópulöndum eru nú í kringum 0,0%, en á Íslandi eru þeir 5,0%. Staðan um þessar mundir á Íslandi er svo sú, að íslenskir fjárfestar hafa búið við gjaldeyrishöft frá haustinu 2008 og vegna þeirra hefur byggst upp ójafnvægi milli núverandi vægis eigna í eignasöfnum þeirra þegar kemur að innlendum og erlendum eignum. En m.a. vegna hárra vaxta á Íslandi minnkar hvati lífeyrissjóða – og annarra íslenskra aðila – til að dreifa áhættu fjárfestinga sinna milli Íslands og umheimsins. Vægi hins óstöðuga íslenska hagkerfis verður of mikið miðað við erlend hagkerfi í eignasöfnum lífeyrissjóða sem dregur úr styrk þeirra til að mæta efnahagslegum áföllum. Þessi staða getur ekki talist heppileg.

Svara þarf …

Nú hefur verið lögð fram á Alþingi, af þingflokki Framsóknar, tillaga til þingsályktunar um að fela forsætisráðherra að skipa þverpólitíska nefnd óháðra sérfræðinga til að rannsaka með greinargóðum og nákvæmum hætti: Áhrif af breytingum á gengi íslensku krónunnar á innlenda neysluhegðun; áhrif af gengissveiflum á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og atvinnugreinaskiptingu landsins; tengsl stýrivaxta Seðlabanka Íslands og gengis íslensku krónunnar; áhrif af innstreymi gjaldeyris á innlenda vexti, bæði langtíma og skammtímavexti; hvort 3,5% uppgjörskrafa lífeyrissjóða stuðli að háum langtímavöxtum á Íslandi; hvort vaxtastefna Seðlabanka Íslands stuðli að háum vaxtakostnaði fyrir ríkissjóð.

Svör við þessum spurningum eru afar mikilvæg til að tryggja samkeppnishæfni landsins, stöðugleika og almenna velferð.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2017.