Categories
Greinar

Námsmönnum bannað að vera duglegir

Deila grein

12/02/2018

Námsmönnum bannað að vera duglegir

Velferðarráðuneytið reiknar dæmigert framfærsluviðmið fyrir einstakling 223.046 kr. án húsnæðiskostnaðar og reksturs bifreiða. Hins vegar er grunnframfærsla LÍN aðeins 177.107 kr. á mánuði með húsnæðiskostnaði. Með góðum vilja má finna rök fyrir lægri greiðslu til námsmanna en séu þau skoðuð nánar verður ljóst að verulega vantar uppá svo námsmenn hafi tök á að láta enda ná saman.

Sé hámarksframfærsla LÍN lækkuð í samræmi við lægstu mögulegu leigu á herbergi við Stúdentagarða, eða 75.164 kr., vantar námsmönnum 121.103 kr. mánaðarlega uppí þessi viðmið. Hin eiginlega framfæsla LÍN er því aðeins 54% af framfærsluviðmiði ráðneytisins og þá með lægstu mögulegu húsaleigu sem kerfið býður upp á.

Stórir biðlistar

Nauðsynlegt er að hafa í huga að hundruðir námsmanna eru á biðlista Stúdentagarða og upp í tveggja ára bið er eftir íbúð fyrir iðn- og háskólanemendur utan Háskóla Íslands hjá Byggingarfélagi námsmanna. Þar komast því ekki allir að sem vilja. Í ljósi þess vanda eiga nemar, sérstaklega af landsbyggðinni, oft á tíðum ekki annað val en að fara á almennann húsaleigumarkað með tilheyrandi kostnaði.

Ósanngjart frítekjumark

Þá komum við að einum stærasta vanda íslenskra námsmanna. Það er hreinlega bannað að vera duglegur og vinna meðfram námi. Samkv. úthlutunarreglum LÍN geta námsmenn haft 930.000 kr. í árstekjur (frítekjumark)  án þess að til tekjuskerðingar komi  og námslán skerðast 45% umfram þá upphæð. Hér er ekki tekið með í reikninginn að námsmenn þurfa að standa skil á öllum gjöldum og sköttum  en persónuafsláttur nýtist þeim svo innkoman er nálægt þeim mörkum.

Námsmenn þurfa að framfleyta sér yfir sumartímann og geta duglegir einstaklingar unnið tæpan þrjá og hálfan mánuð yfir sumarið. Sé einungis miðað við lágmarkslaun fyrir sumarvinnu fer námsmaður auðeldlega yfir tekjumörk LÍN og lendir í skerðingu. Með skerðingarhlutfalli LÍN og tekjuskatti (því þeir klára persónuafsláttinn á sumrin) eru námsmönnum boðið uppá kerfi sem skerðir tekjur þeirra um tæp 82%. Það er óréttláttur hátekjuskattur á lágtekjufólk. Sá raunveruleiki liggur í augum uppi. Þá er ótalin skerðing á húsaleigubótum við hærri atvinnutekjur.

Núverandi kerfi hefur þróast í eins konar fátækrargildru sem getur í alvarlegustu tilvikum haft veruleg áhrif á jafnrétti til náms. Sú afkáralega staðreynd að aldraðir í þessu þjóðfélagi hafi hærra atvinnutekjumark en iðn- og háskólanemar er því miður sá raunveruleiki sem námsfólk býr við í dag. Núverandi kerfi refsar námsfólki fyrir að vera duglegt.

Hafa ekki efni á heilbrigðisþjónustu

Íslenskir námsmenn borga í dag hæstu mögulegu þjónustugjöld innan heilbrigðiskerfisins. Það er ekki í samræmi við gjaldinnheimtu þess þjóðfélagshóps á hinum Norðurlöndunum. Árið 2011 kom einmitt fram í viðamikilli könnun innan Háskóla Íslands að meira en helmingur námsmanna sótti sér ekki viðeigandi heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar.

Það er þyngra en tárum tekur að unga fólkið okkar geti ekki sótt þá nauðsynlegu þjónustu sem þeir þurfa og þurfi í alvarlegustu málum að taka hlé frá námi vegna íþyngjandi kostnaðar. Þeir geta ekki einu sinni fengið tækifæri til að vera duglegir og vinna fyrir þjónustugjöldum heilbrigðiskerfisins.

Dregur úr svartri atvinnustarfsemi

Fyrir fjölmarga námsmenn er það algjört neyðarúrræði að vinna svarta vinnu til að komast af og draga björg í bú. Þrátt fyrir útgjaldaaukningu við hækkun á tekjuskerðingarmörkum LÍN er sú aðgerð líkleg til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og auka heildartekjur ríkissjóðs.

Ef námsmenn skipuleggja sig vel, læra á daginn og fá refsilaus tækifæri til stöku kvöld- eða helgarvinnu, verður heildarábati samfélagsins mun meiri en kostnaðurinn. Sú stefna er einnig að fullu í samræmi við þá félagslegu frjálslyndissýn sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir.

Alex Björn Bulow Stefánsson
varaþingmaður Framsóknarflokksins og formaður SIGRÚNAR, félags ungra Framsóknarmanna í RVK