Categories
Greinar

Afnemum 25 ára „regluna“

Deila grein

22/03/2018

Afnemum 25 ára „regluna“

Ég vil afnema hina svo kölluðu 25 ára ,,reglu‘‘ við innritun nemenda í framhaldsskóla. Frá árinu 2012 hefur framhaldsskólum verið heimilt að forgangsraða umsóknum um skólavist eftir tiltekinni flokkun á umsækjendum. Einn liður í reglugerðinni sem liggur til grundvallar kveður á um að umsækjendum 25 ára og eldri, og njóta ekki forgangs af öðrum ástæðum, er raðað næstsíðast við flokkun umsókna. Margir túlkuðu þetta sem svo að framhaldsskólar landsins séu lokaðir fólki eldra en 25 ára sem hefur áhuga á bóknámi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa ekki borist umkvartanir vegna synjunar um skólavist sökum aldurs og líkur á að það reyni á slíkt eru hverfandi. Sérstaklega í ljósi þess að framlög til framhaldsskólastigsins voru aukin um 1.290 milljónir milli 2017 og 2018 og í ofanálag eru framlög á nemanda hærri í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs, en framhaldsskólarnir halda þeim fjármunum sem sparast vegna styttingarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að einfalda eigi regluverk ef ekki er þörf fyrir það. Þessi aðgerð er skref í þá átt.

Nú eru drög að breytingum á fyrrgreindri reglugerð komin í opið samráð á vef samráðsgáttarinnar. Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingar um drögin í gegnum samráðsgáttina en markmið hennar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila.

Þess má geta að umsækjendum 25 ára og eldri bjóðast einnig fjölmörg önnur námsúrræði en nám í framhaldsskóla. Þar er helst að geta framhaldsfræðslu, sem boðin er um allt land og lögð hefur verið áhersla á að efla og styrkja með auknum fjárframlögum á síðustu árum. Þá geta nemendur á þessum aldri sótt aðfaranám í staðnámi eða fjarnámi.

Við lofuðum stórsókn í menntamálum og við ætlum að standa við það. Það eiga því allir að komast að í framhaldsskólunum sem sækja um, uppfylli þeir þau inntökuskilyrði sem skólarnir setja hverju sinni. Það að vera yngri en 25 ára er ekki inntökuskilyrði.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. mars 2018.