Sveitarstjórnarmál eru nokkuð sérstök að því leyti, að það er fleira og meira sem sameinar okkur en sundrar. Ég tel að það sé óhrekjanleg staðreynd að flokkspólitískar línur séu ekki jafn skýrar og í landsmálunum. Sveitarstjórnarmálin snúast um að taka höndum saman og sameinast um lykilverkefni, til heilla fyrir nærsamfélagið. Að veita góða, stöðuga og áreiðanlega þjónustu og sameinast um það að búa til samfélag sem við getum verið stolt af og þar sem allir Hafnfirðingar fái notið sín.
Fjölskyldufólk í fyrirrúmi
Nú árar vel og það þarf að nýta aðstæður og svigrúm til uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum og jafnframt gera það af skynsemi. Á sama tíma og það árar betur er óásættanlegt að Hafnarfjörður sé eitt dýrasta sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þjónustu við fjölskyldufólk. Þjónustukönnun Gallup fyrir árið 2017 gefur vísbendingar um nauðsyn þess að gera betur á mörgum sviðum hafnfirsks samfélags. Oft er þörf á nýrri sýn, nýrri hugsun og snjöllum lausnum til að bregðast við og gera betur. Framsókn og óháðir munu á næstu dögum kynna tillögur að úrbótum með framsýnum og áreiðanlegum lausnum, Hafnfirðingum öllum til heilla.
Framboðið
Mikill undirbúningur hefur átt sér stað hjá framboði Framsóknar og óháðra undanfarna mánuði. Fjölmargir gáfu sig fram og sóttust eftir sæti á lista. Það er í senn, bæði ánægjulegt og styrkleikamerki. Og sterk vísbending um fólk vill breytingar og er tilbúið til að vera aflvaki breytinga. Listi Framsóknar og óháðra er breið fylking fólks á öllum aldri, einstaklinga sem koma úr ólíkum áttum, hafa ólíka reynslu, þekkingu og menntun. Einstaklingar sem náð hafa saman um það verkefni að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi fyrir okkur öll.
Kosningabaráttan er rétt að byrja og við hlökkum til að hitta Hafnfirðinga og kynna fyrir þeim málefni okkar og áherslur. Við erum þegar farin af stað að hitta kjósendur og munum halda því áfram næstu vikurnar. Hvert og eitt okkar er tilbúið að leggja sitt af mörkum til hagsbóta fyrir Hafnfirðinga og í sameiningu munum við láta góða hluti gerast. Við erum sterkari saman.
Ágúst Bjarni Garðarsson, oddviti Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði.
Greinin birtist á vísir.is 4. apríl 2018.