Það hefur staðið til að umhverfis- og auðlindaráðherra komi á fót Þjóðgarðastofnun sem mun annast náttúruvernd á friðlýstum svæðum í samræmi við náttúruverndarlög. Með því er verið að sameina verkefni og stjórnsýslu á þessu sviði undir eina stjórn og á einn stað. Nýlega spurði ég umhverfis- og auðlindaráðherra hvort það kæmi til greina að staðsetja fyrirhugaða stofnun á landsbyggðinni og ef svo er, hvað lægi til grundvallar slíkri ákvörðun.
Gott aðgengi að stjórnsýslu
Þau atriði sem ráðherra telur brýnt að horfa til þegar tekin verður ákvörðun um starfsstöðvar nýrrar stofnunar eru tengsl stjórnenda og lykilstarfsfólks við stjórnsýsluna. Það sé mikilvægt að stofnunin hafi gott aðgengi að stjórnsýslu eins og ráðuneytum og öðrum stofnunum sem snúa að slíkri starfsemi. Ráðherra bendir á að hægt sé með öruggum hætti að viðhalda tengslum á rafrænan hátt en að ekki megi gera lítið úr mikilvægi beinna samskipta.
Ráðherra telur mikilvægt að góð samskipti séu við hagaðila og að virkt samráð sé forsenda þess að vel takist upp. Sterk rök eru fyrir því að á hverju starfssvæði stofnunarinnar eða í hverjum landshluta þurfi að vera nokkuð öflug starfsstöð með getu til þess að sinna slíkum samtölum ásamt annarri þjónustu, t.d. hluta af miðlægri þjónustu stofnunarinnar.
Verkefni um allt land
Verkefni fyrirhugaðrar stofnunar eru á hendi þriggja stofnana sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þær stofnanir starfa víða um land eins og Umhverfisstofnun sem starfar á tíu stöðum á landinu. Eðli starfsemi nýrrar stofnunar sem færi með málefni náttúrverndar, t.a.m. friðlýsingar og rekstur og umsjón friðlýstra svæða, fæli í sér að meginþungi starfseminnar yrði á landsbyggðinni.
Þekking og frumkvæði
Það er ljóst að mikil þekking um náttúruvernd og náttúrurannsóknir býr á landsbyggðinni. Starfsfólk Náttúrustofa og Umhverfisstofnunar um landið sinnir eftirliti með náttúru landsins með gagnasöfnun, fræðslu, ráðgjöf, þjónustu og fleiru.
Á Hvanneyri er Landbúnaðarskóli Íslands. Sérstæða hans er að viðfangsefni skólans er náttúra landsins, nýting, viðhald og verndun, eins og segir á heimasíðu skólans. Þar er rekin öflugur skóli í búfræði og búvísindum auk þess sem þar er öflug rannsóknastarfsemi á sviði búvísinda, náttúru- og umhverfisfræða.
Það er því ekki erfitt að finna hentuga staðsetningu fyrir fyrirhugaða Þjóðgarðastofnun þar sem hægt er að nálgast forsendurnar sem liggja til grundvallar slíkri stofnun.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður
Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. desember 2018.