Kæru vinir og félagar!
Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs.
Það er óhætt að segja að haustþingið hafi verið annasamt og viðburðarríkt. Því er ánægjulegt að þingið náði þeim áfanga að afgreiða fjárlög á tilskildum tíma undir styrkri stjórn Willums Þórs og halda starfsáætlun. Ný lög um opinber fjármál hjálpa vissulega til í þeim efnum en líka einbeittur vilji ríkisstjórnarflokkanna að sýna samstarfsvilja í verki og viðhalda stöðugleika. Haustþingið sem lauk 14. desember síðastliðinn var eitt það afkastamesta frá byrjun og afgreiddi 44 mál. Ég tel þetta vera jákvæð skref í þá átt að bæta vinnubrögð og ásýnd Alþingis og vænti þess að haldið verði áfram að feta þá braut. Það er líka á döfinni að ráða aðstoðarmenn fyrir þingflokka sem hefur lengi verið á dagskrá þingsins. Ég fagna því að verið er að taka skref til að renna styrkari stoðum undir þingflokkana, auka sérfræðiaðstoð og bæta þannig vinnubrögðin enn frekar á Alþingi.
Traust til Alþingis og stjórnmála er ekki sjálfgefið og þar bera alþingismenn ríka ábyrgð. Störf okkar eru í umboði kjósenda og okkur ber siðferðisleg skylda til að vinna að heilindum í þágu almennings, þótt deilt sé um leiðir og áherslur. Vantrú og efi í garð stjórnmála einskorðast ekki við Ísland. Engu að síður höfum við verk að vinna í þeim efnum sem fulltrúar kjósenda, sérstaklega nú á tímum starfrænnar tækni og samfélagsmiðla.
Þingflokkurinn hefur ekki setið auðum höndum. Við einsettum okkur að vera virk og málefnaleg í umræðunni og vinna að málum sem endurspegla megináherslur okkar. Í upphafi þings ákváðum við að leggja fram þrjú lykilmál. Það eru málin: Barnalífeyrir, Mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða og Mótun opinberrar klasastefnu. Það er einkar ánægjulegt að frumvarp um barnalífeyri var samþykkt í byrjun desember. Lögin fela í sér að börn sem eiga aðeins eitt foreldri á lífi geta fengið greitt framlag til hálfs frá ríkinu fyrir sérstaka viðburði, rétt eins og börn sem eiga fráskilda foreldra. Hingað til hafa eftirlifandi foreldrar þurft að bera uppi kostnað vegna ferminga, skírna og tannréttinga en nú hefur Alþingi leiðrétt þessa mismunun. Þingflokkurinn lagði fram nokkur ný mál á haustþingi; Velferðartækni, Fræðsla um og meðferð við vefjagigt, Vistvæn opinber innkaup á matvöru, Heimavist á höfuðborgarsvæðinu, Náttúrustofur og Uppgræðsla lands og ræktun túna. Ég hvet ykkur að fara inn á heimasíðu flokksins, framsokn.is og skoða þau mál sem lögð hafa verið fram á þessu þingi og ætlunin er að vinna áfram með. Fleiri mál eru í farvatninu.
Fjárlögin fyrir 2019 endurspegla þær áherslur og þá framtíðarsýn sem birtast í stjórnarsáttmálanum. Línur voru lagðar við framlagningu fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þeim hefur verið fylgt.
Stórsókn í uppbyggingu innviða er hafin þar sem samgöngu-, mennta- og heilbrigðismál eru í forgrunni.
Það rímar vel við áherslur okkar í kosningabaráttunni.
Aukin framlög til rekstar hjúkrunarheimila og framkvæmdir við nýjan Landsspítala vega þungt og eru mikilvæg.
Þá hafa barnabætur verið hækkaðar til hagsbóta fyrir tekjulágar fjölskyldur og þeim fjölgað sem eiga rétt á barnabótum. Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála verða aukin verulega og er hækkunin í heild 11,5 ma.kr. að undanskildum launa- og verðlagshækkunum. Í fjárlagafrumvarpinu er líka að finna aðgerðir sem ætlað er að koma til móts við kröfur aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda kjarasamninga. Þannig verður persónuafsláttur hækkaður umfram neysluverðsvísitölu og barnabætur hækkaðar til tekjulægri hópa. Þá verður tryggingagjald lækkar í tveimur áföngum.
Flokkurinn okkar hefur ávallt viljað nálgast verkefnin með skynsemi og samvinnu að leiðarljósi. Við erum frjálslyndur félagshyggjuflokkur og viljum vinna að því að bæta samfélagið í hvívetna. Það endurspeglast í öllum okkar áherslum og í umræðu á opinberum vettvangi. Mikið hefur verið rætt um húsnæðisvanda unga fólksins. Það er brýnt verkefni sem ríkisstjórnin vill gera átak í. Það er ánægjulegt að svissneska leiðin sem við töluðum fyrir í aðdraganda kosninga er einn af þeim möguleikum sem skoða á í því sambandi. Það er líka einkar ánægjulegt að ríkisstjórnin hyggst taka markmiss skref á kjörtímabilinu til að afnema verðtryggingar á lánum sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur. Dæmi um önnur góð mál sem við höfum í sameiningu barist fyrir og nýlega hafa tekið gildi eru rammasamningu um tannlækningar aldraðra og áætlað samþykki fyrir líffæragjöf.
Kæru félagar.
Við munum halda áfram að vinna að framfaramálum og sýna það í verki að við vinnum að heilindum og tökum skyldur okkar sem fulltrúar almennings alvarlega. Flokkurinn okkar er rúmlega hundrað ára gamall og hefur tekist á við margar áskoranir í gegnum tíðina. Þrátt fyrir áföll sem hafi dunið yfir hann höfum við alltaf haldið áfram og það hyggjumst við gera. Við erum þéttur hópur og það er jákvæður liðsandi á meðal okkar. Við viljum halda áfram að vinna að góðum málum og bæta samfélagið okkar. Um það eiga stjórnmálin að snúast.
Kær kveðja,
Þórunn Egilsdóttir
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins