Fyrir tveimur árum boðaði ný ríkisstjórn stórsókn í menntamálum. Síðan þá hefur varla liðið sú vika að ekki hafi borist fréttir af aðgerðum eða árangri. Ráðist var í aðgerðir til að fjölga kennurum, sem skiluðu sér í aukinni aðsókn í kennaranám sl. haust. Þeim bolta munum við halda á lofti og tryggja að sett markmið náist. Flæði kennara milli skólastiga mun aukast með einföldun á leyfisbréfakerfi og ný lög þar um taka gildi um áramót. Tillögur að breyttu fyrirkomulagi starfsþróunar kennara og skólastjórnenda liggja fyrir og vinna við mótun stefnu í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku er í fullum gangi. Drög nýrrar menntastefnu til ársins 2030 verða kynnt á næstunni, en markmið hennar er skýrt: Við viljum framúrskarandi menntakerfi. Þessi verkefni, og mörg fleiri, munu með tímanum skila miklum árangri, en áfram þarf að hlúa að þeim fræjum sem sáð hefur verið, svo þau skjóti rótum og beri góðan ávöxt.
Íslenskan í öndvegi
Tungumálið er forsenda hugsunar og án þess verður engin þekking til. Án góðrar íslenskukunnáttu komum við hugmyndum okkar ekki í orð, hættum að fá nýjar hugmyndir og drögum úr færni okkar til að breyta heiminum. Það er því ekki að ástæðulausu sem ríkisstjórnin hefur sett íslenska tungu í öndvegi. Orðaforði og málskilningur liggur til grundvallar öllu námi og það er brýnt að snúa vörn í sókn, svo íslensk börn séu reiðubúin þegar framtíðin bankar upp á. Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku er liður í því, sem og fjárfesting í máltækni svo börnin okkar þurfi ekki að tala ensku við tölvur og tæki. Þingsályktun um íslenskuna varðar veginn og hvetur okkur áfram, hvort sem horft er til notkunar á íslenskri tungu eða framkvæmda sem hugsaðar eru til verndar menningararfinum okkar.
Hús íslenskunnar er dæmi um slíka framkvæmd. Bygging þess er loksins hafin og það er ánægjulegt að sjá það langþráða hús rísa á Melunum í Reykjavík. Það mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur ekki verið unnt að halda sýningar á handritum sem varðveitt eru hjá Stofnun Árna Magnússonar en með tilkomu hússins verður bylting í aðstöðu stofnunarinnar til að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þeim sem handritin geyma. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við húsið ljúki um sumarlok 2023 og verður húsið verðugur heimavöllur fyrir fjöregg íslenskrar menningar, tungumálið okkar.
Betri kjör námsmanna
Í stjórnarsáttmála er því heitið að ráðast í löngu tímabæra endurskoðun á námslánakerfinu. Nú sér fyrir endann á því mikilvæga verkefni, þar sem nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um Menntasjóð námsmanna, byltingarkennt og fullfjármagnað stuðningskerfi fyrir námsmenn, sem felur í sér gagnsærri og réttlátari stuðning hins opinbera við námsmenn. Frumvarpið miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til námsmanna og er sérstaklega hugað að hópum sem þurfa mest á stuðningi að halda, s.s. einstæðum foreldrum, fjölskyldufólki og námsmönnum utan höfuðborgarsvæðisins. Höfuðstóll námsláns verður lækkaður um 30% við útskrift, beinn fjárstuðningur veittur vegna framfærslu barna og boðið upp á vexti á bestu mögulegu kjörum. Markmiðið er að bæta verulega skuldastöðu námsmanna við útskrift, svo hún hafi sem minnst truflandi áhrif á líf að loknu námi, og skapa hvata til að nemar ljúki námi.
Meiri fjölbreytni
Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg. Nemendur hafa ólíkar þarfir og eiga að hafa val um sitt nám. Einsleitni í námsvali og -framboði er ein ástæða brotthvarfs úr framhaldsskólunum og því er vel að fjölbreytni námsframboðs sé að aukast, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina. Fyrr á árinu var í fyrsta sinn sett löggjöf um starfsemi lýðskóla hér á landi sem skapar umgjörð um fjölbreyttari valkosti í íslensku menntakerfi og nú í haust hófst nám í tölvuleikjagerð á framhaldsskólastigi sem og stafrænni verslun og viðskiptum, svo dæmi séu tekin um nýjungar í skólastarfi. Slíkum breytingum ber að fagna.
Menning blómstrar
Á sviði menningar og lista má nefna lagafrumvarp um sviðslistir og stuðning við safnastarf, bætt aðgengi að menningu og listum, mótun nýrrar menningarstefnu, hækkun framlaga til bókasafnssjóðs og ný lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Skýrar vísbendingar eru um að stuðningur við bókaútgáfu sé þegar farinn að stuðla að fjölbreyttara lesefni, ekki síst fyrir yngstu lesendurna því samkvæmt Bókatíðindum fjölgar titlum um 47% milli ára í flokki skáldverka fyrir börn. Þá benda nýjustu kannanir til þess að lestur sé almennt að aukast hér á landi, sem er afar ánægjulegt.
Á kjörtímabilinu hefur gengið vel að efla þá málaflokka sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Það er ánægjulegt að finna fyrir þeim mikla meðbyr sem málefnin njóta í samfélaginu og hvetjandi til framtíðar.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.