„Heimilisofbeldi er samfélagsmein. Því fylgir skömm – ótti og sorg. Ofbeldið er yfirleitt vel falið og ofbeldi þrífst í þögninni. Skaðinn sem ofbeldið veldur er ekki bara alvarlegur heldur ferðast hann með fólki á milli kynslóða,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„En hvers vegna er ég að tala um þetta í dag og hvers vegna hér í sal Alþingis? Þetta er jú þekktar staðreyndir, ekki satt?
Ég er að tala um þetta nú því að við, löggjafinn, getum bætt kerfið þannig að það verji þolendur betur en nú er.
Ég lagði fram þingsályktunartillögu fyrir nokkru. Hugmyndin með henni er að kerfið takið betur utan um þolendur ofbeldis og taki þungann af þeim. Tillagan felur í sér að Alþingi feli dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem leggi fram tillögur um bætt verklag um miðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum á einnig að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli sömu aðila og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni síðan Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.
Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola.
Þingsályktunartillagan hefur ekki komist á dagskrá enn þá en umsagnir hafa borist, allar mjög jákvæðar,“ sagði Silja Dögg.