Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Silja Dögg Gunnarsdóttir

Deila grein

25/06/2020

Eldhúsdagsumræður: Silja Dögg Gunnarsdóttir

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni að erfiðan en afar lærdómsríkan þingvetur væri á enda, verkefni urðu allt önnur en gert var ráð fyrir og að treysta hafi þurft á hyggjuvit, innsæi, vísindi og umfram allt hlusta vel eftir þörfum samfélagsins.

„Ríkisstjórnin steig inn í aðkallandi verkefni af fullum þunga. Farið var í fjölmargar aðgerðir til að treysta stöðu heimila landsins. Margir lögðu hönd á plóg í þessum erfiðu verkefnum. Ég vil þakka landsmönnum öllum fyrir samstöðuna og æðruleysið á þessum erfiðu tímum, ekki síst okkar frábæru listamönnum sem gerðu okkur lífið léttara, léttu lund okkar með söng og gleði á fjölmörgum síðkvöldum,“ sagði Silja Dögg.

Silja Dögg fór yfir afgreiðslu þingsins á nýjum menntasjóði námsmanna og að hann muni hafa gríðarlegar kjarabætur í för með sér fyrir námsmenn. „Hæstv. menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, er þriðji menntamálaráðherrann sem gerir atlögu að því að breyta lögum um menntasjóð. Allt er þegar þrennt er og því fögnum við. Fyrirmyndin er norræn og meginbreytingin felst í að kerfið verður tvískipt, þ.e. sjálfbær lánahluti og svo styrkjakerfi sem ríkið fjármagnar. Þá geta námsmenn sem ljúka námi innan tilskilins tíma fengið 30% niðurfellingu á höfuðstól námsláns og foreldrar fá styrk með hverju barni. Námslánin verða greidd út mánaðarlega, og hægt verður að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. Og síðast en ekki síst verður ábyrgðamannakerfið fellt úr gildi“.

Silja Dögg ræddi einnig frumvarp til laga um jarðir. „Markmið frumvarpsins er að styrkja löggjöf um jarðir, land og aðrar fasteignir með breytingum á lagaákvæðum um eignarráð og nýtingu fasteigna, þ.m.t. jarða, og um opinbera skráningu á atriðum viðkomandi landa og fasteigna. Frumvarpið er í samræmi við eitt af áherslumálum þingflokks Framsóknar sem er þingsályktunartillaga hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur um aðgerðaáætlun í jarðamálum, en frumvarpið gengur þó ekki jafnlangt og ályktunin. Því eru tvímælalaust frekari sóknarfæri í þessum málaflokki. Landeignaskráning verður t.d. að vera í lagi ef við ætlum okkur að ná almennilega utan um jarðamál á Íslandi. Það er afar flókið verkefni en er m.a. grundvöllur þess að hægt verði að uppfæra fasteignamat í dreifbýli. Það verður að segjast að þessi skráningarmál eru í algjörum ólestri hjá okkur.

„Úrbætur í orkuöryggi og raforkudreifingu sem og sterkari lagaumgjörð um jarðir og auðlindir ættu að vera í algjörum forgangi hjá okkur hér. Framsækni í þeim málaflokkum mun treysta velsæld þjóðarinnar til framtíðar. Góðar stundir,“ sagði Silja Dögg að lokum.

Ræða Silju Daggar í heild sinni:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Sérkennilegur, erfiður en afar lærdómsríkur þingvetur er senn á enda. Verkefni ársins 2020 urðu allt önnur en fólk gerði ráð fyrir. Kófið skall á og þá breyttist allt. Fordæmin fyrir slíku ástandi voru engin. Menn þurftu að treysta á hyggjuvit, innsæi, vísindin og umfram allt hlusta vel eftir þörfum samfélagsins og þróun á alþjóðlegum vettvangi. Ríkisstjórnin steig inn í aðkallandi verkefni af fullum þunga. Farið var í fjölmargar aðgerðir til að treysta stöðu heimila landsins. Margir lögðu hönd á plóg í þessum erfiðu verkefnum. Ég vil þakka landsmönnum öllum fyrir samstöðuna og æðruleysið á þessum erfiðu tímum, ekki síst okkar frábæru listamönnum sem gerðu okkur lífið léttara, léttu lund okkar með söng og gleði á fjölmörgum síðkvöldum.

Ágætu Íslendingar. Nýr menntasjóður námsmanna er eitt af þeim stóru verkefnum sem Alþingi afgreiddi á þessum þingvetri. Um er að ræða kerfisbreytingu sem mun hafa gríðarlegar kjarabætur í för með sér fyrir námsmenn. Lögin taka gildi 1. júlí nk. Hæstv. menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir er þriðji menntamálaráðherrann sem gerir atlögu að því að breyta lögum um menntasjóð. Allt er þegar þrennt er og því fögnum við. Fyrirmyndin er norræn og meginbreytingin felst í að kerfið verður tvískipt, þ.e. sjálfbær lánahluti og svo styrkjakerfi sem ríkið fjármagnar. Þá geta námsmenn sem ljúka námi innan tilskilins tíma fengið 30% niðurfellingu á höfuðstól námsláns og foreldrar fá styrk með hverju barni. Námslánin verða greidd út mánaðarlega, og hægt verður að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. Og síðast en ekki síst verður ábyrgðamannakerfið fellt úr gildi. Því munu margir fagna. Rúmlega 90% lánþega munu koma betur eða jafn vel út úr nýja kerfinu. Allir flokkar, utan eins, samþykktu lög um nýjan menntasjóð. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á það, í viðbrögðum við Covid-19, að fólk hafi kost á að fara í nám. Því var afar ánægjulegt að sjá frétt í gær um að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana.

Annað stórt mál sem stendur til að Alþingi afgreiði á þessu vorþingi eru lög um jarðir. Um ræðir frumvarp frá hæstv. forsætisráðherra. Markmið frumvarpsins er að styrkja löggjöf um jarðir, land og aðrar fasteignir með breytingum á lagaákvæðum um eignarráð og nýtingu fasteigna, þ.m.t. jarða, og um opinbera skráningu á atriðum viðkomandi landa og fasteigna. Frumvarpið er í samræmi við eitt af áherslumálum þingflokks Framsóknar sem er þingsályktunartillaga hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur um aðgerðaáætlun í jarðarmálum, en frumvarpið gengur þó ekki jafnlangt og ályktunin. Því eru tvímælalaust frekari sóknarfæri í þessum málaflokki. Landeignaskráning verður t.d. að vera í lagi ef við ætlum okkur að ná almennilega utan um jarðarmál á Íslandi. Það er afar flókið verkefni en er m.a. grundvöllur þess að hægt verði að uppfæra fasteignamat í dreifbýli. Það verður að segjast að þessi skráningarmál eru í algjörum ólestri hjá okkur.

Kæru landsmenn. Ég ætlaði nú að segja ýmislegt fleira en tími minn er á þrotum. En að lokum vil ég segja: Úrbætur í orkuöryggi og raforkudreifingu sem og sterkari lagaumgjörð um jarðir og auðlindir ættu að vera í algjörum forgangi hjá okkur hér. Framsækni í þeim málaflokkum mun treysta velsæld þjóðarinnar til framtíðar. Góðar stundir.