Categories
Fréttir

Aðgerðir okkar munu leggja grunn að öflugri byggð í landinu!

Deila grein

25/03/2021

Aðgerðir okkar munu leggja grunn að öflugri byggð í landinu!

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, átti fjarfund með sendiherrum Norðurlandanna á Íslandi ásamt aðalræðismanni Færeyja á Íslandi. Tilgangur fundarins var að eiga samtal um stjórnmálin, stöðuna í efnahagsmálum og næstu skref fram að kosningum.

Í máli Sigurðar Inga kom fram að Framsóknarflokkurinn stendur sterkur á miðjunni sé mikilvægt afl í íslensku samfélagi sem á fullt erindi inn í næstu ríkisstjórn. Flokkurinn hafi sett sér metnaðarfull markmið fyrir síðustu kosningar m.a. að byggja upp samgönguinnviði, styrkja menntamálin, leysa vanda ungs fólks við fyrstu kaup og vinna að efnahagslegum stöðugleika. Enn fremur að ríkisstjórnin standi sterk og að flokkarnir séu samstíga í þeim úrræðum sem nýtast heimilum og fyrirtækjum vegna Covid-19.

Á fundinum lýsti Sigurður Ingi vonbrigðum sínum með framgöngu Evrópusambandsins gagnvart óskýrum yfirlýsingum um að hefta dreifingu bóluefnis til Íslands. Evrópusambandið hafi með þessu frumhlaupi dregið ákveðna línu í sandinn. Nú þurfi að hafa allar klær úti um meira bóluefni, óháð þeim samningum sem hafa áður verið gerðir. Lykilinn að því að ferðaþjónustan og efnahagslífið geti vaxið á ný sé að flýta bólusetningum eins og kostur er.

Í máli Sigurðar Inga kom jafnframt fram að brýnt sé að skapa störf og því hafi flokkurinn lagt höfuðáherslu á atvinnu, atvinnu, atvinnu. Íslendingar séu ekki vanir háum atvinnuleysistölum og vinnusemi hafi verið talin einn af helstu gildum íslensks samfélags. Þá voru byggðamál rædd og aðgerðir sem snúa að því að byggja brú á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Þróunin er jákvæð og aðgerðir sem ráðist hafi verið í munu skila sér og leggja grunn að öflugri byggð í landinu.