Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsson.
Sigurður Ingi ræddi þá uppstokkun í Stjórnarráðinu er komi fram í stjórnarsáttmálanum, en hún sé til komin til að endurspegla betur framtíðina og verkefnin sem þurfi að leysa. Hraðar tæknibreytingar munu hafa áhrif á líf og störf fólks og mikilvægt sé að nýta tækifærin sem skapist í breyttum heimi.
„Áhersla er lögð á menntun, tækni og nýsköpun í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum, á nýsköpun í stjórnsýslu, skapandi greinar og menningu, allt með það að markmiði að skapa ný og græn störf um land allt. Afkoma ríkissjóðs er staðfesting þess að viðbrögð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili við áhrifum heimsfaraldursins á heilsu og efnahag þjóðarinnar voru bæði rétt og skynsamleg. Afkoman sýnir okkur að það pólitíska jafnvægi sem ríkir á Íslandi er mikilvægt og á þessu jafnvægi getum við byggt frekari sókn til aukinna lífsgæða allra landsmanna, um allt land,“ sagði Sigurður Ingi.
„Við erum að hefja nýja sókn. Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt,“ sagði Sigurður Ingi.
Lilja Dögg fór yfir að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gefi góð fyrirheit um að umgjörð menningar og lista. „Kvikmyndagerð er mikilvæg íslensku atvinnu- og menningarlífi. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis verður styrkt og við ætlum að hækka endurgreiðslur til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi,“ sagði Lilja Dögg.
„Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu,“ sagði Lilja Dögg.
Willum Þór sagði það vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar að snúa vörn í sókn, að styrkja og efla gott heilbrigðiskerfi. „Það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Viljann á þeirri vegferð nú og til framtíðar má vel lesa í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar við horfum til raunaukningar framlaga til rekstrar og til fjárfestinga, en stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala,“ sagði Willum Þór.
„Heilbrigðiskerfið verður að geta þjónað hverjum og einum innan skilgreinds biðtíma. Einstaklingurinn og þjónustan við hann eru í fyrirrúmi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lögð sé aukin áhersla á forvarnir, lýðheilsu og geðheilbrigðismál. Það verða forgangsmál okkar á þessu kjörtímabili, að þróa heilbrigðiskerfið í takt við framtíðina,“ sagði Willum Þór.
Ræður ráðherra Framsóknar má lesa hér að neðan.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar:
Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Til hamingju með 1. desember, fullveldisdaginn. Ég vil byrja á því að óska þingmönnum, sérstaklega nýjum þingmönnum, til hamingju með að hafa tekið sæti á hinu háa Alþingi. Það er mikill heiður að fá að sitja í þessum sal og fá tækifæri til að hafa áhrif til góðs í samfélaginu okkar. Það eru miklar skyldur lagðar á herðar okkar sem hér störfum í þágu lands og þjóðar. Okkar verkefni er að leiða þjóðina til aukinna lífsgæða á öllum sviðum. Okkar verkefni er að takast á við framtíðina.
Við í Framsókn lögðum mikla áherslu á bjartsýni og gleði í okkar kosningabaráttu. Við lögðum áherslu á það að fjárfesta í fólki, en það er lykillinn að sköpun lífsgæða og nýrra tækifæra á landinu okkar. Þess sér skýrt stað í nýjum stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í stjórnarsáttmálanum eru loftslagsmálin áberandi enda er loftslagsváin það verkefni sem brýnast er í heiminum í dag og næstu ár og áratugi. Fólk hefur áhyggjur og það á sérstaklega við um unga fólkið sem sér framtíð sinni ógnað. Heiminum verður hins vegar ekki bjargað með því hafa áhyggjur. Óttinn getur haft lamandi áhrif. Þess vegna er sá tónn sem sleginn er í nýjum stjórnarsáttmála tónn vonar og bjartsýni. Við ætlum að nýta þær einstöku aðstæður sem við búum við hér á Íslandi, þá þekkingu sem við höfum á endurnýjanlegum orkugjöfum og þann kraft sem býr í fólki og atvinnulífinu til að leysa þau verkefni sem að okkur snúa og gefa öðrum verkfæri til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Við leggjum áherslu á að orkuskiptin eru sameiginlegir hagsmunir og að þeim verði náð með jöfnuði og réttlæti að leiðarljósi.
Sú mikla uppstokkun sem verður í Stjórnarráðinu er gerð til að endurspegla betur framtíðina og þau verkefni sem hún færir okkur. Við erum að ganga í gegnum miklar tæknibreytingar sem munu breyta og hafa verið að breyta lífi okkar og störfum. Breytingarnar eru hraðar og nauðsynlegt er að skapa aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki til að nýta þau tækifæri sem skapast í breyttum heimi. Að samtvinna húsnæðis- og skipulagsmál við samgönguáætlun í sama ráðuneyti og sveitarstjórnar- og byggðamál til að mynda getur til skapað tækifæri til að finna betri og skilvirkari lausnir.
Áhersla er lögð á menntun, tækni og nýsköpun í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum, á nýsköpun í stjórnsýslu, skapandi greinar og menningu, allt með það að markmiði að skapa ný og græn störf um land allt. Afkoma ríkissjóðs er staðfesting þess að viðbrögð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili við áhrifum heimsfaraldursins á heilsu og efnahag þjóðarinnar voru bæði rétt og skynsamleg. Afkoman sýnir okkur að það pólitíska jafnvægi sem ríkir á Íslandi er mikilvægt og á þessu jafnvægi getum við byggt frekari sókn til aukinna lífsgæða allra landsmanna, um allt land.
Eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að stuðla að uppbyggingu atvinnutækifæra hringinn í kringum landið til að fólk eigi aukna möguleika á því að velja sér þann stað þar sem það vill búa. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:
„Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.“
Þessi orð marka að mörgu leyti tímamót í viðhorfi til starfa hjá ríkinu. Hér er ekki talað um störf án staðsetningar sem sérstakt atriði heldur er hugsuninni snúið við. Sérstaklega þarf að rökstyðja að störf séu staðbundin. Þetta er stórt mál. Einnig ætlum við að styðja við klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila til að búa til starfsaðstöðu á lykilstöðum á landinu, en fyrsta verkefnið af þessu tagi er að hefjast á Selfossi og minni verkefni eru til um land allt.
Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við erum að hefja nýja sókn. Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt.
***
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar:
Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við fögnum fullveldisafmælinu í dag og getum verið stolt af því hversu langt Ísland hefur náð á þessum rúmum 100 árum. Einnig er degi tónlistar fagnað í dag. Engin orð fanga mikilvægi íslenskrar tónlistar, bæði fyrir sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar. Í henni er einhver ólýsanlegur strengur sem höfðar ekki bara til okkar sjálfra heldur tónlistarunnenda um allan heim. Íslenskt tónlistarfólk hefur náð ótrúlegum árangri á fjölmörgum sviðum tónlistar og fyrir vikið er tónlist orðin ein af okkar mikilvægustu útflutningsgreinum.
Í kvöld langar mig til að fjalla um menningu, listir og ferðaþjónustu og hvernig ég tel að það sé einstakt tækifæri fólgið í hinu nýja ráðuneyti menningar og viðskipta, en hátt í 30.000 manns starfa við menningu, skapandi greinar og ferðaþjónustu og búa til gríðarleg útflutningsverðmæti.
Virðulegur forseti. Þjóðir heims hafa mismikil áhrif á söguna og leið þjóða á borð við Ísland er í gegnum hið mjúka vald, þ.e. að hafa áhrif í gegnum menningu og listir. Ljóst er að íslenskt listafólk hefur verið okkar bestu sendiherrar. Hildur Guðnadóttir, Ragnar Kjartansson, Erna Ómarsdóttir, Laufey Lín, Björk, Friðrik Þór og Arnaldur. Indriðason eru dæmi um slíka sendiherra. Því var það löngu tímabært að þjóðin eignaðist ráðuneyti sem beinir meira sjónum að menningu, listum og skapandi greinum en hingað til ásamt því að hlúa vel að ferðaþjónustu. Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands er fólginn í sterku lista- og menningarlífi og brýnt er að hlúa að íslenskri frumsköpun.
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gefur góð fyrirheit um að umgjörð menningar og lista verði studd enn frekar og langar mig að nefna nokkrar aðgerðir í þeim efnum. Kvikmyndagerð er mikilvæg íslensku atvinnu- og menningarlífi. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis verður styrkt og við ætlum að hækka endurgreiðslur til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi.
Tónlistarmiðstöð verður sett á laggirnar og verður ein af hornsteinum íslensks tónlistarlífs. Það er grundvallaratriði að styðja betur við tónlistina á Íslandi. Þess má geta að virði umfjöllunar um íslenska tónlist á alþjóðavettvangi nam um 7 milljörðum kr. árið 2020.
Myndlistarstefna verður kláruð á næsta ári og verður hrint í framkvæmd á kjörtímabilinu. Það er tímabært að myndlistin njóti aukins vægis í takt við aðrar listgreinar. Íslenskt myndlistarlíf er einkar framsækið og hefur hlotið lof og viðurkenningar erlendis og því verðum við að gera betur þar. Samtímamyndlist á endalaust erindi. Segja má að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé býsna heit fyrir myndlistinni þar sem fyrsta ríkisstjórnin var kynnt á Listasafni Íslands og sú síðari á Kjarvalsstöðum.
Góðir landsmenn. Bókaþjóðin stendur undir nafni en útgefnum bókum hefur fjölgað um 36% á síðustu fjórum árum. Opinber stuðningur við útgáfu bóka hefur aukið úrvalið fyrir lesendur á öllum aldri. Þessi stuðningur er liður í fjölþættum aðgerðum stjórnvalda til að efla íslenskuna og bæta læsi. Við megum ekki gleyma því að handritin voru ein af fyrstu útflutningsafurðum íslensku þjóðarinnar á 14. öld og er ég sannfærð um að Snorri Sturluson væri bara býsna ánægður með stöðu mála.
Við ætlum að gera betur í hönnun. Íslenskir hönnuðir eru í fremstu röð og ég hvet einstaklinga og fyrirtæki til að huga að því alla daga að hafa íslenska hönnun í sínu umhverfi. Því var það sérstakt ánægjuefni þegar forseti Íslands ákvað að íslensk hönnun myndi prýða Bessastaði.
Ný sviðslistamiðstöð mun hefja störf á nýju ári og verður mjög mikilvæg fyrir sviðslistir í landinu. Hún mun koma til með að styðja við greinina og koma henni enn betur á framfæri hérlendis og erlendis. Að auki verður styrkt betur við starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.
Góðir landsmenn. Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu.
Í lokin langar mig til að vitna í ræðu Péturs Gunnarssonar rithöfundar sem flutti á 80 ára afmæli Bandalags íslenskra listamanna, en þar rifjaði hann upp að BÍL hafi verið stofnað á tíu ára afmæli fullveldisins og frumherjar BÍL voru þess fullvissir að án blómlegrar menningar væri fullveldið orðin tóm. Hugmyndasmiðurinn að stofnun BÍL, Jón Leifs tónskáld, líkti því við landvarnir og sagði að ef stjórnvöld veittu þótt ekki væri nema broti af því sem aðrar þjóðir kostuðu til landvarna væri björninn unninn. Og einn úr hópi þeirra, Halldór Laxness, komst svo að orði: Gildi þjóðar fer eftir menningu hennar.
Þess vegna leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á hugvit til framtíðar.
Kæru landsmenn. Það eru spennandi tímar fram undan þar sem fjölmörg tækifæri blasa við hugrakkri þjóð. — Góðar stundir.
***
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra:
Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Til hamingju með fullveldisdaginn. Það er auðmjúkur maður sem hér stendur og flytur eldhúsdagsræðu sem ráðherra í fyrsta sinn. Málaflokkur heilbrigðisþjónustu er stór í öllu samhengi. Frábært starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins hefur tekið vel á móti mér í vikunni. Verkefnin eru ærin. Heilbrigðismálin eru og ættu að vera okkur öllum ofarlega í huga, enda heilsan ein okkar dýrmætasta eign. Heimsfaraldurinn hefur í raun minnt okkur rækilega á þá staðreynd. Við slíkar aðstæður kjarnast oft hlutirnir. Við höfum reynt styrkinn í heilbrigðiskerfinu og baráttuviljann sem hefur komið bersýnilega í ljós og verða afrek heilbrigðisstarfsfólks seint fullþökkuð.
Á hinn bóginn hefur hið mikla álag, aukaálag, sem fylgir slíkum aðstæðum einnig afhjúpað undirliggjandi veikleika í kerfinu. En það gefur um leið tækifæri til að bregðast markvissar við. Það er forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að snúa vörn í sókn, að styrkja og efla gott heilbrigðiskerfi, því að það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Viljann á þeirri vegferð nú og til framtíðar má vel lesa í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar við horfum til raunaukningar framlaga til rekstrar og til fjárfestinga, en stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala. Starfið sem fram fer hvern einasta dag í heilbrigðiskerfinu, þar sem kraftaverk eru í raun unnin, er þó ávallt í forgrunni. Og áfram er unnið að því að byggja undir fjármögnun rekstrar og með aðgerðum að bæta aðbúnað og auka viðbragðsgetu kerfisins. Ég nefni hágæslurými, 30 ný endurhæfingarrými og farsóttardeild Landspítala í Fossvogi. Mikilvægt er að styrkja og efla gjörgæsludeildir og bráðamóttöku Landspítala og horfa til þess að það verði eftirsóknarvert að sinna störfum í heilbrigðisþjónustu.
Kæru landsmenn. Við verðum hins vegar að muna að horfa á heilbrigðiskerfið og heilbrigði þjóðarinnar í stærra samhengi. Það er grundvallarréttlætismál að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu sé tryggður. Heilbrigðiskerfið verður að geta þjónað hverjum og einum innan skilgreinds biðtíma. Einstaklingurinn og þjónustan við hann eru í fyrirrúmi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lögð sé aukin áhersla á forvarnir, lýðheilsu og geðheilbrigðismál. Það verða forgangsmál okkar á þessu kjörtímabili, að þróa heilbrigðiskerfið í takt við framtíðina. Lærdómur síðustu missera, þar sem okkur hefur tekist að lágmarka skaðleg áhrif af stærstu áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir lengi, hlýtur að vera sá að samvinna og samstaða skiptir öllu máli og er forsenda árangurs. — Góðar stundir.