Í dreifbýlu sveitarfélagi líkt og Rangárþingi eystra skipta samgöngur stærstan hluta íbúa mjög miklu máli. Þær koma við daglegt líf íbúa og því verður að tryggja að þær séu með sem allra besta móti. Því miður hefur sveitarfélagið ekki fullt forræði yfir samgöngukerfum sveitarfélagsins og langstærstur hluti þess er á forræði Vegagerðarinnar. Því er mikilvægt að sveitarfélagið leggi hart að því að fá samgöngubætur við Vegagerðina og ráðamenn þá sem þar geta haft áhrif. Á undanförnum árum hefur B-listinn lagt höfuðáherslu á að kortleggja samgöngukerfi sveitarfélagsins með það að markmiði að hafa haldbærar staðreyndir til grundvallar þeim kröfum sem gerðar verða til yfirvalda. Ekki verður séð að nokkuð annað verkfæri muni nýtast til hagsmunagæslu fyrir íbúa sveitarfélagsins.
Dæmi um þau verkfæri sem sveitarfélagið hefur nú í hendi eftir gagnaöflun síðustu ára eru:
- Úttekt fagaðila á öllum vegum í dreifbýli þar sem þeir hljóta öryggiseinkunn.
- Umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið í heild.
- Auglýsing um umferð í þéttbýlinu Hvolsvelli sem lækkar meðal annars hámarkshraða í íbúðargötum.
- Samgönguverkfræðingur hefur gert úttekt með öryggi vegfarenda í þéttbýlinu Hvolsvelli að leiðarljósi.
Allar þessar aðgerðir munu liggja til grundvallar í þeirri vinnu sem framundan eru hjá sveitarfélaginu til þess að bæta þau samgöngukerfi sem það hefur yfir að ráða með það að markmið að bæta lífsgæði íbúa og ekki síður auka öryggi þeirra. Þá veita þessar upplýsingar sveitarfélaginu verkfæri til þess að fylgja betur eftir kröfum sínum við valdbær stjórnvöld.
Sveitarfélagið hefur einnig fengið tugi milljóna úr styrkvegasjóði til viðhalds samgönguleiða. Hefur mikil bragarbót orðið á þeim vegköflum sem mögulegt hefur verið að sækja um styrki fyrir og fyrir liggur að áframhald verður á þeirri vinnu á næstu árum.
Það er mín skoðun að á næstu árum verði sveitarfélagið að leggjast í töluverða vinnu við viðhald og endurbætur á bæði götum og gangstéttum í þéttbýli. Vinna verður áætlun til nokkurra ára með það að markmiði að götur og gangstéttir séu til fyrirmyndar fyrir alla íbúa sveitarfélagsins og gesti þess óháð ferðamáta. Þá þarf að leggja höfuðáherslu á að þrýsta á Vegagerðina að bæta tengivegi í dreifbýli og þá sérstaklega þá sem skólabörn þurfa að aka um alla daga til og frá skóla, með það að markmiði að stórauka lagningu bundins slitlags á umrædda vegi.
Almenningssamgöngur hafa verið í algjöru lamasessi og því fáir sem nýta sér þær, með hækkandi eldsneytisverði eykst kostnaður ungmenna á framhaldsskólaaldri sem þurfa að aka um langa leið til og frá skóla. Málaflokk almenningssamgangna þarf því að skoða alvarlega og þrýsta á Vegagerðina sem hefur þann málaflokk á sinni könnu að bæta verulega þá þjónustu sem boðið er uppá til að auka ásókn og mæta þörfum íbúa.
Bjarki Oddsson
Formaður Samgöngu- og umferðarnefndar Rangárþings eystra.
Höfundur skipar 3. sæti framsóknarmanna og annara framfarasinna í Rangárþingi eystra.
Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 1. maí 2022.