Kjördæmavika þingflokks Framsóknar hefst í næstu viku. Framundan eru áhugaverðir og skemmtilegir dagar þar sem við leggjum upp með metnaðarfulla fundaröð, en fundir þingflokks verða nú í ár um land allt. Í ár munum við koma við og funda á 24 stöðum auk þess sem við nýtum tímann til að heimsækja fyrirtæki og stofnanir þar sem við komum því við.
Við í þingflokknum leggjum ríka áherslu á að ná reglulegu samtali við landsmenn, hlusta á hvað brennur á íbúum og ræða hin ýmsu mál og verkefni sem liggja fyrir á hverju svæði fyrir sig. Samtalið við ykkur er okkur mikilvægt og gefur gott veganesti í áframhaldandi störf okkar.
Það eru fjölmörg mál sem bíða afgreiðslu þingsins, mál eins og sóttvarnarlög, tónlistar- og myndlistarstefna og íþrótta- og æskulýðslög svo eitthvað sé nefnt.
Efnahagsmálin eru sífellt í umræðu og er hækkandi verðbólga áhyggjuefni. Ráðist var í aðgerðir á síðasta ári til að mæta þeim er verst standa og til viðbótar var farið í sérstakar aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga. Stóra verkefnið framundan er svo að vinna markvisst að því að ná verðbólgunni niður.
Heilbrigðismálin eru okkur öllum hugleikin og þar hafa ákveðin skref verið tekin. Verkefnin þar eru stór og ærin. Landsmönnum fjölgar, komum ferðamanna einnig auk þess sem hlutfall eldri fólks eykst sem skapa áskoranir er tengjast þessari breyttu samfélagsgerð.
Stór og mikilvæg mál eru framundan og verða til umfjöllunar á þinginu. Á vordögum verður ný samgönguáætlun lögð fram, reglugerð í kringum beislun vinds er væntanleg og frumvarp um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, þar sem lagður er grunnur að mikilvægum innviðum samfélagsins, kemur fljótlega auk annarra áhugaverðra verkefna.
Í húsnæðismálum hefur verið unnið að samkomulagi við sveitarfélög í landinu um uppbyggingu íbúða en um er að ræða tímamót sem fyrsti samningur sinnar tegundar. Náðst hefur samningur við Reykjavíkurborg um að auka framboð á nýjum íbúðum til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins á næstu 10 árum. Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði. Sjáum við fram á að samningar við önnur sveitarfélög muni einnig líta dagsins ljós í framhaldinu. Meginmarkmiðið er að leitast við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta og húsnæðisöryggi fyrir alla.
Fyrsta ár innleiðingar farsældarlaganna er liðið en reiknað er með að innleiðingin taki 3-5 ár á landsvísu. Fjögur sveitarfélög leiða vagninn í innleiðingunni, Vestmannaeyjar, Akranes, Akureyri og Árborg og hafa þegar sést jákvæð áhrif laganna. Á dögunum var gerður samningur við Sameinuðu þjóðirnar um að flytja út aðferðafræðina við sköpun farsældarlaganna auk efnis þeirra til fleiri landa og deila farsældinni á heimsvísu. Þá stækkar verkefnið um Barnvænt Ísland ört, en meira en helmingur sveitarfélaga er á þeirri vegferð að verða formlega barnvænt sveitarfélag, áfangi sem Kópavogur og Akureyri hafa þegar náð fyrst allra.
Við í Framsókn munum áfram að vinna að því að jafna búsetuskilyrði m.a. með því að byggja upp innviði með betri samgöngum og fjarskiptum. Efla enn frekar og auka fjölbreytileika í menntamálum auk þess sem við vinnum stöðugt að bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.
Við hlökkum til að koma og eiga gott samtal við ykkur.
Þriðjudagur 14. febrúar:
kl. 12.00 – Reykjavík, Hilton Hótel – Salur B (2. hæð)
kl. 16.00 – Grindavík, Gjánni
kl. 17.00 – Mosfellsbæ, Kjarninn Þverholti 2 (5. hæð)
kl. 20.00 – Akranesi, Gamla Kaupfélagið
kl. 20.00 – Hornafirði, Hótel Höfn
kl. 20.00 – Reykjanesbæ, Framsóknarsalurinn Hafnargötu 62
Miðvikudagur 15. febrúar:
kl. 12.00 – Stykkishólmi, Fosshótel Stykkishólmi
kl. 12.00 – Flúðum, Hótel Flúðir
kl. 17.00 – Norðfirði, Hótel Hildibrand
kl. 17.00 – Hvolsvelli, Félagsheimilið Hvoli
kl. 20.00 – Egilsstöðum, Tehúsinu Kaupvangi 17
kl. 20.00 – Selfossi, Tryggvaskála
kl. 20.30 – Ísafirði, Edinborgarhúsinu
Fimmtudagur – 16. febrúar:
kl. 12.00 – Patreksfirði, Vestur resturant/N1
kl. 12.00 – Hvammstanga, Hótel Laugarbakka
kl. 12.00 – Vopnafirði, Safnaðarheimilinu
kl. 16.30 – Blönduós, Glaðheimum
kl. 16.00 – Laugum – Reykjadal, matsal Framhaldsskólans á Laugum
kl. 17.00 – Búðardal, Vínlandssetrinu – Leifsbúð
kl. 20.00 – Húsavík, Fosshótelinu Húsavík
kl. 20.30 – Borgarnesi, Landnámssetrinu (Arinstofu)
Föstudagur 17. febrúar:
kl. 12.00 – Siglufirði, Torgið resturant (2. hæð)
kl. 12.00 – Dalvíkurbyggð, Menningarhúsinu Berg
kl. 12.00 – Akureyri, Greifanum (2. hæð)