Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins mikilvægi Barnamenningarsjóðs Íslands til að efla börn og ungmenni til þátttöku í menningarstarfi. Eins hafa styrkirnir sem verkefnin fara til snertiflöt við mjög mörg heimili landsins. Á degi barnsins, þann 26. maí, var styrkjum fyrir árið 2024 úthlutað. Sjóðurinn styrkir 41 verkefni í ár og er heildarupphæð úthlutunar rúmar 100 millj. kr.
„Hann styður fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Byggt er á áherslum menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag,“ sagði Líneik Anna.
„Gróskan í barnamenningu blasti einmitt við okkur öllum í þættinum Sögur, verðlaunahátíð barnanna, sem sýndur var á RÚV síðastliðinn laugardag, þar sem börn verðlaunuðu það sem vel var gert í barnamenningu á Íslandi í beinni útsendingu.“
„Sjóðurinn var festur í sessi á síðasta ári þegar Alþingi samþykkti þingsályktun hæstv. menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028. Meðal verkefna sem fengu styrk í ár eru verkefni sem byggja á samstarfi við leik- og tónlistarskóla í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði; Barnamenningarhátíð Vestfjarða, Púkinn 2025, og BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. BRAS-hátíðin er haldin að hausti. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er uppspretta og verður hún samstarfsverkefni listafólks, stofnana, skóla og safna á Austurlandi auk þess sem komið hefur verið á samstarfi við Listaleypurin í Færeyjum og verður áhugavert að sjá hvert það samstarf leiðir. Einkunnarorð BRAS eru: Þora, vera, gera,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Á degi barnsins, þann 26. maí, var styrkjum úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024 úthlutað. Sjóðurinn styrkir 41 verkefni í ár og er heildarupphæð úthlutunar rúmar 100 millj. kr. Þessir styrkir eru ótrúlega mikilvægir til að efla börn og ungmenni til þátttöku í menningarstarfi og styrkirnir sem verkefnin fara til hafa snertiflöt við mjög mörg heimili landsins. Sjóðurinn var stofnaður á aldarafmæli fullveldisins á hátíðarfundi Alþingis 18. júlí 2018. Hann styður fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Byggt er á áherslum menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.
Gróskan í barnamenningu blasti einmitt við okkur öllum í þættinum Sögur, verðlaunahátíð barnanna, sem sýndur var á RÚV síðastliðinn laugardag, þar sem börn verðlaunuðu það sem vel var gert í barnamenningu á Íslandi í beinni útsendingu. Sjóðurinn var festur í sessi á síðasta ári þegar Alþingi samþykkti þingsályktun hæstv. menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028. Meðal verkefna sem fengu styrk í ár eru verkefni sem byggja á samstarfi við leik- og tónlistarskóla í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði; Barnamenningarhátíð Vestfjarða, Púkinn 2025, og BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. BRAS-hátíðin er haldin að hausti. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er uppspretta og verður hún samstarfsverkefni listafólks, stofnana, skóla og safna á Austurlandi auk þess sem komið hefur verið á samstarfi við Listaleypurin í Færeyjum og verður áhugavert að sjá hvert það samstarf leiðir. Einkunnarorð BRAS eru: Þora, vera, gera.“