Categories
Fréttir

„Við viljum einfalda og samræma upplýsingar í menntakerfinu sem byggja á raunupplýsingum hverju sinni, börnum, foreldrum og skólasamfélaginu til hagsbóta“

Deila grein

13/08/2024

„Við viljum einfalda og samræma upplýsingar í menntakerfinu sem byggja á raunupplýsingum hverju sinni, börnum, foreldrum og skólasamfélaginu til hagsbóta“

Frigg er nýr gagnagrunnur utan um skráningu upplýsinga um íslenska nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla sem nú er í smíðum. Upplýsingarnar hafa fram til þessa verið vistaðar hjá mismunandi aðilum í mismunandi kerfum en verða með Frigg á einum miðlægum stað þvert á skóla, skólastig og landsvæði.

„Frigg mun svara langvarandi þörf á einfaldri og miðlægri upplýsingagátt yfir nemendur á landsvísu í takt við tímann. Við viljum einfalda og samræma upplýsingar í menntakerfinu sem byggja á raunupplýsingum hverju sinni, börnum, foreldrum og skólasamfélaginu til hagsbóta. Grunnurinn er eitt undirstöðuatriða í innleiðingu Matsferils og lykillinn að áframhaldandi umbótaaðgerðum sem byggja þurfa á gögnum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu um Frigg - mynd

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu um Frigg

Gagnagrunnurinn mun m.a. halda utan skráningu barna og ungmenna í, úr og milli skóla og námsárangur nemenda í hinu nýja samræmda námsmati, Matsferli, á síðari stigum. Stefnt er að því að opna gagnagrunninn fyrir lok þessa árs.

Frigg er samstarfsverkefni mennta og barnamálaráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Stafræns Ísland (SÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) um samræmt verklag við nemendaumsýslu og innleiðingu þvert á skóla og sveitarfélög.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vinnur nú að smíði og hýsingu gagnagrunnsins sem nær yfir öll börn og ungmenni með lögheimili hér á landi fram að háskólastigi. Yfirsýn og afgreiðsla innritunar í skóla verður samræmd þvert á skóla og sveitarfélög. Útbúin verður umsókn um innritun í grunnskóla og umsókn um skólaskipti, á Island.is með einföldun og góða notendaupplifun að leiðarljósi. Í fyrstu mun grunnurinn ná yfir alla nemendur í grunnskólum landsins og síðar bætast leik- og framhaldsskólar við.

Opnun gagnagrunnsins markar einfaldari, skilvirkari og gagnsærri stjórnsýslu óháð stjórnsýslustigum, með öruggum gagnainnviðum, betri opinberri þjónustu og nútímalegra starfsumhverfi. Þá mun einfalt og samræmt notendaviðmót á einum stað einfalda til muna aðgengi foreldra og barna að þjónustu og upplýsingum er varða þau sjálf.

Markmið Friggjar er að:

  • tryggja að öll börn njóti skólavistar, hvar sem er á landinu,
  • tryggja einfaldan og skilvirkan flutning barna milli skóla og sveitarfélaga,
  • tryggja samræmi og gagnsæi í allri málsmeðferð sem tengist nemendaumsýslu, milli skóla og sveitarfélaga,
  • tryggja einskráningu gagna er varða börn, viðhald, rekjanleika og sjálfvirkar uppfærslur þeirra,
  • undirbyggja aukin gæði rauntímaupplýsinga um málefni barna,
  • undirbyggja frekari þjónustuþróun við börn, án hindrana, í þágu farsældar.

Gagnagrunnurinn styður við hugsun um inngildandi skólastarf, þar sem virðing er borin fyrir fjölbreyttum þörfum og styrkleikum nemenda. Samræmt skráningarkerfi og gagnagrunnur fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er grunnforsenda þess að hægt sé að nýta gögn til stuðnings við skólastarf og skólaþjónustu.

Frigg er þáttur í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 og áherslum stjórnvalda um stuðning við skóla- og frístundastarf, inngildandi menntun, samþættingu þjónustu, samspili milli þjónustukerfa og stafrænni umbreytingu.

Heimild: stjr.is