Categories
Fréttir

„Það sló að manni óhug“

Deila grein

16/09/2024

„Það sló að manni óhug“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, átti orðastað við innviðaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um viðbragðsáætlanir og brunavarnir í samgöngumannvirkjum.

„Það sló að manni óhug að fylgjast með bruna rútunnar rétt fyrir utan gangnamunan á Vestfjarðagöngum á föstudaginn. Hvað ef rútan hefði verið inn í jarðgöngunum, margar spurningar vakna, mörgu er ósvarað,“ segir Halla Signý á facebook.

„Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra á þeim forsendum að samkvæmt gildandi regluverki um brunavarnir í samgöngumannvirkjum þá ber eigandi samgöngumannvirkis ábyrgð á brunavörnum í þeim og einnig ábyrgð á að brunavarnir séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Fyrir sérhvert samgöngumannvirki skal vera til viðhaldsáætlun þar sem gerð er grein fyrir viðhaldi alls búnaðar sem varðar öryggi vegfarenda. Viðhald öryggisbúnaðar skal vera í höndum viðurkenndra fagaðila. Samkvæmt sömu reglugerð skal vera viðhaldsáætlun þar sem gerð er grein fyrir viðhaldi alls búnaðar og varðar öryggi vegfarenda. Á Íslandi eru 12 jarðgöng, mislöng, hönnuð og gerð á mismunandi tíma. Vestfjarðagöng eru samtals 9 km, þar af eru einungis 2 km tvíbreiðir. Að innan er nokkuð um að þau séu klædd efni sem varnar leka í göngum. Það efni er óvarið og bruni í þeim getur skapað alvarlegar eiturgufur og nóg er nú samt.

Því spyr ég hæstv. innviðaráðherra:

  • Eru viðbragðsáætlanir, sem og áhættumat, vegna jarðganga reglulega uppfærðar?
  • Er til viðeigandi búnaður, bílar og tæki, þar með talið súrefnisbirgðir hjá slökkviliði þess sveitarfélags þar sem eru jarðgöng samkvæmt öryggisstöðlum?
  • Er eftirlit af hálfu ríkisins með því að slökkviliðsæfingar séu haldnar reglulega í jarðgöngum á Íslandi? 
  • Ef svo er, hversu reglulegar eru þær?“

Átti samtal við Innviðaráðherra í dag varðandi brunavarnir í jarðgöngum, viðbragðsáætlanir og áhættumat. Það sló að…

Posted by Halla Signý Kristjánsdóttir on Mánudagur, 16. september 2024

Innviðaráðherra svaraði svo til að „viðbragðsáætlanir eru unnar í upphafi þegar jarðgöng eru opnuð. Þær hafa verið uppfærðar á fimm ára fresti. Annars vegar er þá um að ræða viðbragðsáætlanir sem eru sameiginlegar áætlanir með slökkviliðunum og svo innanhússáætlun um það hvernig Vegagerðin vinnur með viðkomandi slökkviliði.“

Um búnað og súrefnisbirgðir og eftirlit af hálfu ríkisins

  • Að ábyrgð á því að slökkviliðsæfingar séu haldnar, m.a. við jarðgöng, liggur hjá sveitarfélögum í samræmi við lög um brunavarnir.
  • Slökkvilið á hverjum stað ber ábyrgð á því að móta brunavarnaáætlun þar sem m.a. er tekið á brunavörnum í jarðgöngum, þ.m.t. búnaði og nauðsynlegri þjálfun slökkviliðsmanna.
  • HMS hefur eftirlit með og samþykkir brunavarnaáætlanir.

„Vegagerðin hefur á síðustu árum hvatt til þess að haldnar séu slökkviliðsæfingar í jarðgöngum og auk þess hefur Vegagerðin fjárfest í æfingabúnaði, reykvél sem slökkviliðið notar við æfingar. Það hefur gengið vel og auðveldað mjög æfingarnar sem hafa verið haldnar í Norðfjarðargöngum, Hvalfjarðargöngum, Strákagöngum, Fáskrúðsfjarðargöngum og Almannaskarðsgöngum,“ sagði innviðaráðherra.