Categories
Fréttir

„Okkar skylda að tryggja þeim besta mögulega grunn til að þroskast og dafna“

Deila grein

17/09/2024

„Okkar skylda að tryggja þeim besta mögulega grunn til að þroskast og dafna“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gerði að umtalsefni, í störfum þingsins, stöðu barna og mikilvægi þess að skapa umgjörð heilbrigðs samfélags með því að kenna þeim samkennd og ábyrgð, samhug og samstöðu og þau finni nærveru og kærleika „svo að þau skilji að samfélagið verður aðeins sterkt þegar við vinnum saman.“

„Áföllin hafa dunið yfir samfélagið okkar undanfarna daga og vikur. Eftir sitjum við mörg hver orðlaus og eflaust fallast mörgum okkar hendur. Áskorunin er stór og ábyrgðin mikil en sú mikilvægasta er ábyrgðin sem við berum gagnvart börnunum okkar og ungmennum,“ sagði Ingibjörg.

„Börnin eru það mikilvægasta í lífi okkar og það er okkar skylda að tryggja þeim besta mögulega grunn til að þroskast og dafna.“

„Þegar upp koma vandamál í uppeldi eða menntun barna okkar höfum við oft tilhneigingu til þess að vísa ábyrgðinni á aðra; ríki, sveitarfélög, kennara, menntakerfið og jafnvel nágranna okkar, í stað þess að líta í eigin barm. En sannleikurinn er sá að við öll, hver sem á í hlut, hvert og eitt, getum gert betur. Börnin okkar þurfa á því að halda. Þau þurfa samveru með okkur, hlustun, stuðning og leiðsögn, sérstaklega á tímum þegar tæknin er farin að rjúfa félagsleg tengsl. Það er okkar hlutverk að tryggja að þau finni fyrir nærveru og kærleika. Við berum ábyrgð á því að kenna börnunum okkar mikilvægi samkenndar og ábyrgðar, sýna þeim hvernig samhugur og samstaða er undirstaða heilbrigðs samfélags svo að þau skilji að samfélagið verður aðeins sterkt þegar við vinnum saman. Stöndum með hvert öðru og öxlum ábyrgð á heildinni, ekki bara okkur sjálfum. Börnin okkar eru einstök, þau standa sig vel og eru framar okkur að mörgu leyti, en við megum ekki gleyma þeim sem þurfa aukna aðstoð og stuðning. Það er okkar sameiginlega ábyrgð að tryggja að enginn verði út undan, að öll börn fái tækifæri til að blómstra, sama hvaða áskorunum þau standa frammi fyrir.“

„Við erum ekki einungis að byggja samfélag fyrir okkur sjálf heldur fyrir komandi kynslóðir. Tökum öll höndum saman, gefum okkur tíma og tryggjum að börnin okkar fái að dafna í öruggu, kærleiksríku og ábyrgðarmiklu samfélagi,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi: