Categories
Fréttir

„Fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar“

Deila grein

20/09/2024

„Fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga á Alþingi um námsgögn, ný heildarlög. Frumvarpið er liður í innleiðingu menntastefnu til ársins 2030 en fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar. Eins felur það í sér umtalsverðar breytingar á útgáfu námsgagna og sumir hafa talað um að þær séu líklega þær mestu sem hafa orðið í áratugi, nái frumvarpið fram að ganga á Alþingi.

Gjaldfrjáls námsgögn

„Uppbygging frumvarpsins tekur að nokkru leyti mið af lögum um námsgögn en í því felast nokkur mikilvæg nýmæli og breytingar sem ég ætla hér að fara yfir. Þar ber helst að nefna að í frumvarpinu er lagt til að öllum börnum að 18 ára aldri standi til boða gjaldfrjáls námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum á Íslandi.

Markmið með gjaldfrjálsum námsgögnum er að tryggja jöfn tækifæri allra barna til náms, sem er jafnframt í samræmi við áherslur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við eitt af markmiðum gildandi menntastefnu. Hingað til hafa gjaldfrjáls námsgögn einvörðungu átt við skyldunám í grunnskóla en í frumvarpinu felst sú grundvallarbreyting að aðgangur að gjaldfrjálsum námsgögnum verður einnig tryggður á leikskóla- og framhaldsskólastigi,“ sagði Ásmundur Einar.

„Þetta er enn eitt skrefið í því að tryggja öllum börnunum okkar jöfn tækifæri í skólakerfinu okkar. Það hlýtur að vera leiðarstef allra þeirra sem hafa hag barnanna okkar fyrir brjósti að tryggja að kostnaður verði aldrei steinn í götu þeirra þegar kemur að menntun og þetta er í raun meðal þeirra grundvallarréttinda sem barnasáttmálinn kveður á um. Risavaxið framfaraskref var tekið með því að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir og er sá sem hér stendur stoltur af því að halda áfram á þeirri pólitísku braut að tryggja að efnahagur komi ekki niður á skólagöngu barna.“

Ræða Ásmundar Einars í heild sinni á Alþingi: