Categories
Fréttir

„Svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi“

Deila grein

26/09/2024

„Svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, sagði það hafa verið átakanlegt að horfa á Kveik um daginn þar sem fjallað var um aðbúnað erlendra verkamanna, vinnumansal, í störfum þingsins.

„Þetta er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi. Við eigum að gera miklu, miklu betur hvað þetta varðar. Fyrir sex árum síðan var fjallað um nákvæmlega sömu stöðu og það kemur mér á óvart að við skulum ekki vera komin lengra,“ sagði Jóhann Friðrik.

Sagði hann það eðlilegt að þingheimur kallaði eftir sterkari viðbrögðum frá Vinnumálastofnun, Vinnueftirliti og Skattinum en að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins væru svo sannarlega að hlusta.

„Í dag fer fram í Hörpu sameiginlegur fundur, sameiginleg ráðstefna þeirra til þess að reyna að stemma stigu við þessu vandamáli. Mér finnst það virðingarvert, virðulegi forseti, en ég kalla eftir miklu sterkari viðbrögðum íslenskra stjórnvalda. Við verðum að klára að uppfæra viðbragðsáætlun. Við verðum að stíga miklu fastar niður hvað varðar vinnumansal og mansal almennt á Íslandi. Við þurfum að klára að uppfæra aðgerðaáætlun og hrinda henni í framkvæmd. Ég kalla eftir því að stjórnvöld stígi fastar niður. Ég held að allt samfélagið sé að krefjast þess og við eigum að hlusta og bregðast við,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.