Categories
Fréttir

Vill Viðskiptaráð brjóta gegn meginreglu samningsréttar?

Deila grein

08/10/2024

Vill Viðskiptaráð brjóta gegn meginreglu samningsréttar?

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, ræddi í störfum þingsins tillögur Viðskiptaráðs sem sjá mátti á síðum Morgunblaðsins í dag. Þar er m.a. lagt til að falla frá kjarasamningstengdum aðgerðum og að vaxtabótakerfið og hlutdeildarlánin verði afnumin.

„Það vekur furðu að lagt sé til að ríkið eigi að brjóta gegn meginreglu samningsréttar um að samninga skuli halda, hvort sem það varðar kjarasamninga eða aðrar skuldbindingar. Að eiga aðild að samningum er ábyrgð sem ber að sinna af heiðarleika og heilindum,“ sagði Ingibjörg.

„Það er rétt sem Viðskiptaráð bendir á að ríkið skal taka þátt í kjaraviðræðum af varfærni en síðastliðinn mars steig ríkið inn í viðræður af ábyrgð og framsýni og eðlilega eru skiptar skoðanir um aðkomu ríkisins. Hins vegar megum við aldrei skapa ríkinu það vantraust til framtíðar að ganga gegn skuldbindingum. Þegar búið er að gefa fyrirheit er mikilvægt að standa við það sem lagt hefur verið fram. Um er að ræða aðgerðir sem hafa það að markmiði að styðja við lífskjör launafólks.“

Vildi Ingibjörg ítreka að einn þriðji af byggingu húsnæðis ár hvert hafi verið með aðkomu ríkisins og sveitarfélaga, m.a. með stofnframlögum eða hlutdeildarlánum.

„Hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur eru komin til að vera og ríkisstjórnin hefur nú þegar samþykkt að veita 4 milljarða til hlutdeildarlána á þessu ári. Sú ríkisstefna að auðvelda tekjulágum fyrstu kaupendum að eignast hagkvæmt húsnæði er eitthvað sem við í Framsókn höfum lagt höfuðáherslu á.“

„Íhlutun ríkisins í húsnæðismarkaði er nauðsynleg til að tryggja stöðugleika og draga úr neikvæðum áhrifum á hagkerfið. Því viljum við í Framsókn stuðla að því að áfram verði unnið með þann grundvöll sem þegar hefur verið lagður. Það sem eftir situr eftir lestur morgunsins er að Viðskiptaráð virðist ekki bera mikla virðingu fyrir samningum,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi: