Mikilvægt skref hefur verið stigið í átt að því að tryggja betri aðlögun og inngildingu erlendra íbúa í Mýrdalshreppi og vinna markvisst að eflingu íslenskukunnáttu. Sveitarstjórn hefur ákveðið að setja fjármagn í ráðningu verkefnastjóra íslensku og inngildingar í fjárhagsáætlun næsta árs. Markmiðið er að bæta stöðu þess fjölda íbúa sveitarfélagsins sem hafa annað móðurmál en íslensku og stuðla að sterkari samfélagslegri tengingu. Fjárveitingin í stöðu verkefnastjóra er beint framhald af öflugu starfi enskumælandi ráðs sveitarfélagsins og er mikilvægt skref til að efla stöðu erlendra íbúa og auka samfélagslega virkni.
Mikilvægi íslenskunnar
Íslenskan er lykillinn að samfélaginu og forsenda þess að íbúar geti tekið fullan þátt í daglegu lífi og störfum innan sveitarfélagsins. Sérstaklega er öflug og markviss íslenskukennsla mikilvæg þegar kemur að því að tryggja fjöltyngdum börnum jöfn tækifæri á við aðra til framtíðar litið. Sveitarfélagið vinnur um þessar mundir að mótun inngildingarstefnu og hefur með þessu markað þá stefnu að fjárfest verði í mannauði til þess að fylgja henni eftir og vinna markvisst að eflingu íslenskunnar. Einnig er mikilvægt að mótuð verði málstefna og henni fylgt eftir til þess að styðja við og hvetja sem flesta til að efla íslenskukunnáttu sína.
Viðbragð við breytingum
Samfélagið í Vík og nágrenni hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Mikilvægt er að hið opinbera sé sveigjanlegt til þess að bregðast við slíkum breytingum og sveitarfélagið hefur eftir fremsta megni lagt sig fram um að gera það með hag allra íbúa að leiðarljósi.
Samhliða er ekki síður mikilvægt að ríkið haldi áfram að þróa og bæta sína þjónustu. Þjónustustig af hálfu ríkisins hefur staðið í stað eða dregist saman á sama tíma og samfélagið vex. Sú staða er engan veginn ásættanleg og mikilvægt að ríkið rétti af kúrsinn og vinni með sveitarfélögum að eflingu þjónustu í samræmi við vöxt á öðrum sviðum.
Framtíðarsýn
Mýrdalshreppur er staðráðinn í að vera sveitarfélag sem tekur vel á móti öllum íbúum sínum, óháð þjóðerni og bakgrunni. Með þessari fjárfestingu í framtíð íslenskunnar er mörkuð skýr framtíðarsýn um að öllum íbúum séu tryggð jöfn tækifæri til að taka fullan þátt í samfélaginu.
Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2024.