Categories
Fréttir

Ræða Stefáns Vagns

Deila grein

11/02/2025

Ræða Stefáns Vagns

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, var seinni ræðumaður Framsóknar á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra á mánudagskvöldið.

Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Kæru Íslendingar. Ég vil í upphafi ræðu minnar byrja á að óska nýkjörnum þingmönnum til hamingju með kjörið og velfarnaðar í störfum þeirra hér á Alþingi. Sömuleiðis vil ég óska nýrri ríkisstjórn farsældar.

Ný þingmálaskrá hefur verið lögð fram af nýrri ríkisstjórn og verð ég að segja að sú skrá kemur á óvart að mörgu leyti. Hér í þessum þingsal á síðasta kjörtímabili var mikið fjallað um störf og málefni þáverandi ríkisstjórnar, eðlilega, og þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn gagnrýndu stefnuleysi og stjórnarmál af miklum þunga. Því kemur á óvart að sjá að um helmingur þeirra mála sem eru í nýrri þingmálaskrá eru annaðhvort endurflutt eða voru í undirbúningi í ráðuneytum undir forystu fyrrverandi ríkisstjórnar. Þannig að, virðulegur forseti, staðan var mögulega ekki eins slæm og látið var í veðri vaka hér á Alþingi eða a.m.k. ber ný þingmálaskrá þess ekki merki. Eins er ljóst við yfirlestur þingmálaskrár að eitthvað vantar nú upp á að þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar, sum ófrávíkjanleg, séu sýnileg. Mögulega eiga þau eftir að líta dagsins ljós eða voru látin niður falla þar sem enginn flokkur fékk yfir 50% í kosningunum. En þá er það víst þannig að þá gilda loforðin ekki lengur og breytast í markmið eða stefnur sem ekki þarf að standa við. Ónefndur ráðherra sagði eitt sinn fyrir mörgum árum þegar hann var inntur eftir óuppfylltu loforði vestur á fjörðum: Ég meinti það þegar ég sagði það. Það á kannski við hér.

Mikilvæg verkefni bíða í samgöngumálum en lítið sést á spil nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum. Í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, náðist að setja inn framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit í fjárlög fyrir árið 2025 og mjög mikilvægt að þau verkefni haldi áfram og klárist eins og lagt var upp með. Loforð um tvenn jarðgöng á hverjum tíma eins og hæstv. innviðaráðherra lofaði fyrir kosningar sjást hins vegar ekki og ný samgönguáætlun mun ekki líta dagsins ljós fyrr en mögulega í haust. Það verður áhugavert að sjá nýja forgangsröðun hæstv. ráðherra sem hefur farið mikinn um samgöngubætur, m.a. í Norðvesturkjördæmi, og við sem þar búum væntum þess að sjálfsögðu að það raungerist í nýrri áætlun. Má þar nefna loforð um Álftafjarðargöng, göng um Mikladal og Hálfdán, eða Suðurfjarðagöng, tvöföldun Hvalfjarðarganga og göng undir Klettháls. Öllu var lofað.

Miðað við málflutning hæstv. innviðaráðherra á síðasta löggjafarþingi þá var hann duglegur að ítreka að nóg væri til og ekkert að vanbúnaði. En í upphafi stjórnarmyndunarviðræðna komu oddvitar ríkisstjórnarinnar fram og sögðu að nýjar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs til hins verra gerðu það að verkum að ekki væri hægt að fara í þau mál sem lofað hafði verið fyrir kosningar, því miður. Breyttar forsendur. Umræddar upplýsingar lágu hins vegar fyrir við gerð fjárlaga ársins 2025 og fulltrúar allra flokka í fjárlaganefnd voru fullmeðvitaðir um breytta stöðu og því hefði þetta ekki átt að koma fulltrúum ríkisstjórnarinnar neitt á óvart. Upplýsingarnar komu fram fyrir 2. umræðu fjárlaga í nóvember, fyrir kosningar, og þetta er því ódýr eftiráskýring sem stenst enga skoðun.

Af nægu er að taka, virðulegur forseti, og ekki er hægt að fara yfir allt hér á þessum stutta tíma en það er ekki hægt að láta hjá líða að ræða það stórundarlega mál sem er að hæstv. ráðherra, sem hefur opinberlega lýst yfir þeirri skoðun að bókun 35 standist ekki stjórnarskrá Íslands, ætlar nú ekki aðeins að styðja málið heldur er ráðherra í ríkisstjórn sem ætlar að leggja umrætt mál fram, mál sem hæstv. ráðherra hefur fullyrt að standist ekki stjórnarskrá Íslands. Fyrsta mál á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar. Hvernig þetta getur gerst er hulin ráðgáta og verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni hér í þingsal þegar málið mun koma fram. En hér sannast það að vika er svo sannarlega langur tími í pólitík. Og sýslumannsembættin, virðulegur forseti, að sameina sýslumannsembættin í eitt, að taka burtu eina og æðsta embættismann ríkisins í hverjum landshluta,við í Framsókn styðjum ekki þá vegferð. Við styðjum hins vegar að auka samstarf, verkaskiptingu og samvinnu allra embætta.

Virðulegur forseti. Mig langar hér í lokin að enda á jákvæðum nótum og hvetja nýja ríkisstjórn til dáða. Ég efast ekki um og veit að við öll hér inni erum að vinna af heilindum með það að markmiði að gera Ísland betra í dag en það var í gær. Þó að áherslur og stefnur séu ólíkar er markmiðið það sama. Ég hlakka til samstarfsins á komandi mánuðum og óska þinginu velfarnaðar í sínum störfum fyrir land og þjóð.“