Categories
Fréttir

Pólitísk inngrip í kjaraviðræður geta verið farsæl með gegnsæjum hætti og í samvinnu

Deila grein

11/02/2025

Pólitísk inngrip í kjaraviðræður geta verið farsæl með gegnsæjum hætti og í samvinnu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, beindi orðum til forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Sagði hún stöðuna í kjaradeilu kennara alvarlega, deilu þar sem traust var það mikið fyrir kosningar að verkfalli var frestað í von um farsæla niðurstöðu, en er nú rofið.

„Við í Framsókn höfum sýnt að pólitísk inngrip í kjaraviðræður geta verið farsæl en slíkt verður að gerist með skýrum gegnsæjum hætti og í samvinnu allra aðila við borðið. Þess vegna vekur það mikla undrun að kennarar hafi talið samninga vera í höfn en svo slitnaði upp úr viðræðum á síðustu stundu og er talað um að þar hafi pólitíkin skemmt fyrir. Hvaða afskipti höfðu aðilar ríkisstjórnarinnar af viðræðum sem urðu til þess að þær fóru í uppnám? Við getum nefnilega ekki litið fram hjá því hvaða áhrif þessi verkföll hafa og mest bitna þau á börnunum okkar,“ sagði Ingibjörg.

„Starf kennara hefur breyst mikið á undanförnum árum. Verkefnin eru orðin fjölbreyttari og krefjandi og ekki aðeins vegna breytinga á námsefni og kennsluháttum og vegna fjölbreyttara samfélags heldur einnig vegna síaukinnar ábyrgðar í velferðarmálum nemenda. Það er mikilvægt að við stöndum með kennurum og styðjum þá í starfi og bætum starfsaðstæður þeirra. Að öðrum kosti heldur fagmenntuðum kennurum áfram að fækka í stéttinni og það er þróun sem við höfum ekki efni á. Menntakerfið er undirstaða samfélagsins og án öflugra kennara verður framtíðin okkar ekki eins björt. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin rjúfa þessa stöðnun og koma á ásættanlegum samningum við kennara?“

Sjá nánar: Aðkoma stjórnvalda að kjaradeilu kennara.