Þingflokkur Framsóknar hefur sett fram þrjú sérstök forgangsmál á þessum þingvetri. Þetta eru tillögur um óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma, um jarðakaup erlendra aðila og um orkuöryggi almennings.

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, leggur fram tillögu um „að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina eigi síðar en haustið 2025.“ Markmið tillögunnar er að tryggja að bankar geti boðið fasteignakaupendum hér á landi upp á óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma enda er það réttlætismál fyrir neytendur á Íslandi. Slíkt fyrirkomulag þekkist á Norðurlöndum og víðar og treystir fyrirsjáanleika við fjármögnun húsnæðis.
„Íslenskir bankar eru of smáir til að eiga þess kost að bjóða fram slíka fjármálaþjónustu, þar sem þeir eru að hluta bundnir af eigin fjármögnunarkjörum. Íslenska ríkið og lífeyrissjóðir eru að vissu leyti í yfirburðastöðu á íslenskum fjármálamarkaði og geta með einfaldari hætti og á hagstæðari kjörum haft aðgang að langtímafjármögnun.
Viðfangsefnið gengur út á að bankar geti fjármagnað húsnæðislán á óverðtryggðum vöxtum til lengri tíma en þeir bjóða upp á í dag. Með breyttum reglum og þróaðri fjármálamarkaði, til að mynda í gegnum vaxtaskiptasamninga, en það eru samningar þar sem aðilar skiptast á föstum og breytilegum vaxtagreiðslum af tilteknum höfuðstól yfir ákveðið tímabil, er hægt að auðvelda bönkum að bjóða upp á slík lán,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, leggur fram tillögu um að skipaður verði sérfræðihópur „sem útfæri frekari breytingar á lögum með það að markmiði að takmarka jarðakaup erlendra aðila hér á landi. Starfshópurinn skili drögum að frumvarpi sem lagt verði fram af atvinnuvegaráðherra eigi síðar en á haustþingi 2025.“
„Fram hefur komið að kaup erlendra aðila á jörðum til útflutnings á jarðefnum eru í undirbúningi á Mýrdalssandi. Upphaflega hugsunin á bak við lög um nýtingu jarðefna var m.a. að bændur og Vegagerðin hefðu auðvelt aðgengi að möl og sandi til að byggja fjárhús og leggja vegi. Lögunum var ekki ætlað að stuðla að útflutningi jarðefna. Þá hafa jarðir verið seldar með vatnsréttindum til félaga í erlendri eigu. Vatnalögum, nr. 15/1923, var m.a. ætlað að tryggja sveitarfélögum aðgengi að vatni. Þau gerðu ekki ráð fyrir að vatn væri mikilvæg verðmæti í hlýnandi heimi sem flest önnur ríki hafa kortlagt út í ystu æsar. Áhugi á jarðakaupum í tilgangi orkunýtingar og innviða fer vaxandi en dæmi um slíkt má finna í vatnsafli, vindi og jarðhita. Græna orkan er olía framtíðarinnar og eignarhald á slíkum auðlindum þarf að hugsa til langs tíma. Erlendir aðilar hafa einnig verið að kaupa jarðir sem hafa að geyma mikilvægt ræktarland sem getur sett takmarkanir á nyt þess í landbúnaði og matvælaframleiðslu í framtíðinni.
Þróunin vekur upp margs konar spurningar um nauðsyn þess að styrkja lagaramma og stjórnsýslu þessara málaflokka,“ segir í greinargerð tillögunnar.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, leggur einnig fram tillögu um að stjórnvöld leggji „fram frumvarp sem tryggi orkuöryggi almennings og stuðli um leið að hagkvæmu og stöðugu verðlagi raforku til þessa hóps, eigi síðar en á vorþingi 2025.“
„Miklar breytingar hafa orðið á orkuumhverfi Íslands undanfarin ár og eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku er sífellt að aukast. Í dag er ekkert því til fyrirstöðu að almenningur í landinu verði hreinlega undir í samkeppninni um raforku bjóði stærri kaupandi betur. Engin lagaleg úrræði eru fyrir hendi til að koma í veg fyrir slíkt ástand. Almenningur er þannig á ystu nöf í ölduróti orkumarkaðarins á meðan stórir raforkunotendur búa við langtímasamninga sem tryggja raforkuþörf þeirra.“
„Áður fyrr bar Landsvirkjun skýra lagalega ábyrgð á því að tryggja orkuöryggi almennings, þ.e. fyrir heimilin og venjuleg fyrirtæki. Þegar orkulöggjöf Evrópusambandsins var fyrst tekin upp í íslenskan rétt var þessi ábyrgð Landsvirkjunar felld úr gildi án þess að nýjar lausnir væru innleiddar. Þó eru margar leiðir færar innan Evrópulöggjafarinnar, ekki síst í kjölfar orkukrísu álfunnar, en þær hafa ekki verið innleiddar í lög hér á landi. Vernd fyrir heimilin í landinu og aðra minni orkunotendur er því ekki séríslensk krafa enda raforka íbúa nauðsynjavara og grunnþjónusta við borgara, sem ekki er hægt að skipta út með hraði.
Færa má sterk rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að tryggja bæði heimilum og minni orkunotendum aðgengi að raforku óháð orkuframleiðslu hverju sinni, en þó reynir sérstaklega á þegar umframeftirspurn er til staðar. Þetta er sérlega mikilvægt að útfæra á Íslandi þar sem hér er um að ræða einstakt einangrað raforkukerfi sem fylgir sveiflum í skilyrðum náttúrunnar sjálfrar, orku úr vatnsafli og jarðvarma sameiginlegra auðlinda, og hér er ekki hægt að stóla á varabirgðir annars staðar frá,“ segir í greinargerð tillögunnar.