Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, ræddi á Alþingi mikilvægt mál sem snertir framtíð íslensks landbúnaðar og fæðuöryggi. Fjármála- og efnahagsráðherra áformar breytingar á tollflokkun osts með viðbættri jurtafitu.
„Slík breyting mun ekki aðeins veikja íslenska mjólkurframleiðslu heldur stefna fæðuöryggi landsins í hættu. Hundruð milljóna króna munu færast frá íslenskum bændum til erlendra fyrirtækja og framtíð ungra bænda verður óviss. Tugir kúabúa gætu þurft að hætta starfsemi. Við verðum að spyrja okkur hvort við séum reiðubúin til að fórna okkar eigin framleiðslu, byggðafestu og sjálfbærni fyrir skammtímaávinning örfárra innflutningsaðila,“ sagði Ingibjörg.
Gagnrýndi hún harðlega að íslenska ríkið væri ekki skuldbundið til að fylgja áliti Alþjóðatollastofnunarinnar, þar sem íslenskir dómstólar hefðu þegar kveðið upp aðra niðurstöðu og raunar ákveðið hvernig túlka beri hina íslensku tollskrá. Hún benti á að mörg önnur ríki hefðu neitað að fylgja sambærilegum tilmælum án þess að hafa þurft að glíma við neikvæðar afleiðingar.
„Það er því mikið áhyggjuefni að ríkisstjórnin kjósi að fylgja erlendum hagsmunum frekar en að standa vörð um lífsviðurværi íslenskra bænda. Við þurfum að spyrja okkur líka hvort greining liggi fyrir á efnahagslegum áhrifum þessara breytinga og aukins innflutnings á erlendum mjólkurafurðum.“
Ingibjörg gagnrýndi einnig Félag atvinnurekenda fyrir harðan málflutning og rangfærslur í umræðunni. Fullyrðingar félagsins um að stjórnvöld hafi breytt tollflokkun vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum fremur en lagalegrar nauðsynjar standist ekki skoðun.
„Endanleg niðurstaða dómstóla hér á landi hefur skorið úr að umræddur ostur skuli tollflokkaður sem hefðbundinn ostur en ekki jurtaostur og því er íslenska ríkið bundið af þeirri niðurstöðu. Það er skylda okkar að horfa til framtíðar og taka ákvarðanir sem styrkja undirstöður þjóðaröryggis og byggðafestu í landinu,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir mikilvægu máli sem snertir framtíð íslensks landbúnaðar og fæðuöryggi okkar allra. Nýleg áform fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á tollflokkun osts með viðbættri jurtafitu munu hafa víðtæk og alvarleg áhrif á íslenska bændur og matvælaframleiðslu í landinu. Slík breyting mun ekki aðeins veikja íslenska mjólkurframleiðslu heldur stefna fæðuöryggi landsins í hættu. Hundruð milljóna króna munu færast frá íslenskum bændum til erlendra fyrirtækja og framtíð ungra bænda verður óviss. Tugir kúabúa gætu þurft að hætta starfsemi. Við verðum að spyrja okkur hvort við séum reiðubúin til að fórna okkar eigin framleiðslu, byggðafestu og sjálfbærni fyrir skammtímaávinning örfárra innflutningsaðila.
Svo er einnig stóralvarlegt mál sem varðar vald og tilgang Alþingis. Það vekur nefnilega athygli að íslenska ríkið er ekki skuldbundið til að fylgja áliti Alþjóðatollastofnunarinnar þar sem íslenskir dómstólar hafa þegar komist að annarri niðurstöðu og raunar ákveðið hvernig túlka beri hina íslensku tollskrá. Fjölmörg ríki hafa neitað að fara sambærilega leið og hafna því að fylgja slíkum tilmælum án neikvæðra afleiðinga. Það er því mikið áhyggjuefni að ríkisstjórnin kjósi að fylgja erlendum hagsmunum frekar en að standa vörð um lífsviðurværi íslenskra bænda. Við þurfum að spyrja okkur líka hvort greining liggi fyrir á efnahagslegum áhrifum þessara breytinga og aukins innflutnings á erlendum mjólkurafurðum.
Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að Félag atvinnurekenda hefur verið mjög hávært í þessari umræðu og oft og tíðum með gífuryrðum og rangfærslum. Fullyrðing félagsins um að íslensk stjórnvöld hafi breytt tollflokkun vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum fremur en lagalegrar nauðsynjar standast ekki skoðun. Endanleg niðurstaða dómstóla hér á landi hefur skorið úr að umræddur ostur skuli tollflokkaður sem hefðbundinn ostur en ekki jurtaostur og því er íslenska ríkið bundið af þeirri niðurstöðu. Það er skylda okkar að horfa til framtíðar og taka ákvarðanir sem styrkja undirstöður þjóðaröryggis og byggðafestu í landinu.“