Categories
Fréttir

Halla Hrund hvetur til aukinnar nýsköpunar og tækniþróunar

Deila grein

18/02/2025

Halla Hrund hvetur til aukinnar nýsköpunar og tækniþróunar

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, gagnrýndi á Alþingi skort á áherslu ríkisstjórnarinnar á nýsköpun og tækni þegar kemur að því að efla hagvöxt og atvinnuþróun. Hún sagði að Ísland ætti að horfa til fyrirmynda erlendis og leggja meiri áherslu á að styðja við sprotafyrirtæki og tæknilausnir sem gætu haft afgerandi áhrif á efnahagslega þróun landsins.“

„Á Viðskiptaþingi í síðustu viku var fjallað um það hvernig eitt fyrirtæki í Danmörku væri í raun og veru ábyrgt fyrir þeim hagvexti sem Danmörk hefur upplifað á undanförnum árum.“

„Við þekkjum vel hér á landi að fyrirtæki líkt og Kerecis geta gjörbreytt samfélögum og lagt gríðarlega mikið af mörkum til okkar samfélags. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að sá slíkum fræjum því það eru þau sem munu gera það að verkum að fólk mun vilja vinna hér um allt land í framtíðinni,“ sagði Halla Hrund.

Hún lagði sérstaka áherslu á mikilvægi nýsköpunar á landsbyggðinni og nefndi dæmi um fyrirtæki á borð við Kerecis og Marel sem hafi vaxið út frá nýtingu náttúruauðlinda landsins. Hún skoraði á ríkisstjórnina að beina sjónum sínum sérstaklega að svæðum eins og Suðurnesjum, þar sem nægur jarðhiti og græn orka skapa einstök tækifæri til atvinnuuppbyggingar í nýsköpun.

Gervigreind mikilvæg fyrir framþróun og sparnað

Halla Hrund fjallaði einnig um mikla möguleika sem felast í gervigreind og tækniframförum til að auka hagkvæmni og spara í rekstri hins opinbera. „Við eigum stór tækifæri þegar kemur að sparnaðaraðgerðum að horfa til gervigreindarinnar, ekki bara til að greina tillögur heldur einnig til að hraða innleiðingu kerfa og framkvæmda.“

Halla Hrund benti á að þróun gervigreindar hafi tekið veldisvexti undanfarin ár og að sú tækni væri þegar farin að gegna stórt hlutverki í daglegu lífi fólks. „Í dag er hægt að panta lasagna nánast með því að hugsa um það á internetinu og fá vörur heimsendar,“ sagði hún og hvatti stjórnvöld til að nýta þessa tækni betur.

Að lokum hvatti hún ríkisstjórnina til að setja nýsköpun og gervigreind í forgang á stefnuskrá sína og tryggja að Ísland yrði leiðandi í tækniþróun. „Nýtum þessa tækni til að spara og vera leiðandi; setjum nýsköpun og gervigreind á dagskrá.“


Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin sé ekki að beina sjónum sínum nægilega mikið að tækni og nýsköpun þegar kemur að því að stækka kökuna eins og hefur verið mikið í umræðunni hér á þingi. Á Viðskiptaþingi í síðustu viku var fjallað um það hvernig eitt fyrirtæki í Danmörku væri í raun og veru ábyrgt fyrir þeim hagvexti sem Danmörk hefur upplifað á undanförnum árum. Við þekkjum vel hér á landi að fyrirtæki líkt og Kerecis geta gjörbreytt samfélögum og lagt gríðarlega mikið af mörkum til okkar samfélags. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að sá slíkum fræjum því það eru þau sem munu gera það að verkum að fólk mun vilja vinna hér um allt land í framtíðinni.

Mig langar líka að segja að það er gaman þegar við horfum á nýsköpunarsögu Íslands, sama hvort það er Kerecis eða Marel, að þetta eru mörg hver fyrirtæki sem tengjast líka landsbyggðinni. Við erum að tala um fyrirtæki sem beina sjónum sínum að betri nýtingu auðlinda okkar. Mig langar að skora á ríkisstjórnina að horfa t.d. á svæði eins og á Suðurnesjunum þar sem jarðhitinn er nægur, orka er næg og hægt er að taka miklu stærri skref í atvinnuþróun tengdri nýsköpun og þessum auðlindum.

Mig langar líka að segja að við eigum stór tækifæri þegar kemur að sparnaðaraðgerðum, eins og er mikið rætt um hér, að horfa á gervigreindina, ekki bara til að greina tillögur heldur til að spara okkur vinnu þegar kemur að innleiðingu á kerfum, þegar kemur að framkvæmd verkefna. Ef við lítum á hvað hefur gerst í heimi „artificial intelligence“ undanfarið hefur orðið alger veldisvöxtur. Og hvað þýðir það? Fyrir almennan borgara þýðir það að hægt er að panta lasagna nánast með því að hugsa um það á internetinu og fá heimsendar vörur. Nýtum þessa tækni til að spara og vera leiðandi; setjum nýsköpun og gervigreind á dagskrá.“