Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins mikilvægi þess að horfa á stóru myndina og lagði áherslu á að hagstjórn snúist um meira en einungis sameiningu stofnana og niðurskurð útgjalda. Var hann þarna að vísa til væntanlegs blaðamannafundar forsætisráðherra um hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar.
Þórarinn Ingi benti á að þótt aðhald í opinberum útgjöldum sé mikilvægt, sé það ekki eina leiðin til að ná fram efnahagslegri stöðugleika. Hann undirstrikaði að stjórnvöld verði að horfa á stærri myndina og stuðla að heilbrigðu efnahagsumhverfi þar sem atvinnulíf getur vaxið og dafnað.
„Sjávarútvegur, landbúnaður og aðrar atvinnugreinar eru grunnstoðir hagkerfisins og án þeirra verður ekki til það skattfé sem rekstur ríkisins byggir á,“ sagði hann og bætti við að stjórnvöld verði að tryggja skilyrði fyrir nýsköpun, fjárfestingar og sjálfbæran vöxt í atvinnulífi.
Jafnvægi milli ríkisreksturs og atvinnulífs
Þórarinn Ingi lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að tryggja jafnvægi í samspili ríkisreksturs og atvinnulífs. Hann varaði við því að of miklar álögur og íþyngjandi reglugerðir gætu kæft vöxt fyrirtækja, dregið úr fjárfestingum og leitt til færri starfa. Stjórnvöld verði að hlusta á atvinnulífið og tryggja að stefna ríkisins styðji við verðmætasköpun í samfélaginu.
„Hagstjórn má ekki snúast einkum um skammtímalausnir eins og niðurskurð á útgjöldum eða skattahækkanir. Aðstæður atvinnulífsins þurfa að vera þannig að fyrirtæki sjái sér hag í að fjárfesta, skapa störf og bæta afkomu þjóðarinnar til framtíðar,“ sagði Þórarinn Ingi.
Atvinnulíf og ríkisfjármál þurfa að haldast í hendur
„Stjórnvöld verða að líta á heildarmyndina í hagstjórn. Bæði opinber útgjöld og rekstrarskilyrði atvinnulífsins skipta máli. Ef atvinnulífið dafnar þá hefur ríkið meira svigrúm til að sinna samfélagslegum verkefnum,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.
***
Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:
„Frú forseti. Í dag mun forsætisráðherra að kynna hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar kl. 14:45 í dag og verður áhugavert að fylgjast með þeim lestri. Hagstjórn snýst um meira en bara sameiningu stofnana. Ríkisstjórnin getur ekki einungis horft inn á við þegar kemur að hagræðingu innan stofnanakerfisins og ríkisverkefna. Aðhald í opinberum útgjöldum er mikilvægt en það kemur ekki til með að nægja eitt og sér. Það þarf að skoða stærri myndina og styðja við heilbrigt efnahagsumhverfi þar sem atvinnulíf getur vaxið og dafnað. Sjávarútvegur, landbúnaður og aðrar atvinnugreinar eru grunnstoðir hagkerfisins og án þeirra verður ekki til það skattfé sem rekstur ríkisins byggir á. Ríkisstjórnin verður að tryggja skilyrði fyrir nýsköpun, fjárfestingar og sjálfbæran vöxt í atvinnulífi. Regluverk, skattkerfi og aðgengi að fjármagni eru lykilþættir í að skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir fyrirtækin. Samspil ríkisreksturs og atvinnulífs þarf að vera í jafnvægi. Of miklar álögur og íþyngjandi reglugerðir geta kæft vöxt fyrirtækja sem dregur úr fjárfestingum og störfum. Stjórnvöld þurfa að hlusta á atvinnulífið og tryggja að stefna ríkisins styðji við verðmætasköpun í samfélaginu. Hagstjórn má ekki snúast einkum um skammtímalausnir eins og niðurskurð á útgjöldum eða skattahækkanir. Aðstæður atvinnulífsins þurfa að vera þannig að fyrirtæki sjái sér hag í að fjárfesta, skapa störf og bæta afkomu þjóðarinnar til framtíðar.
Virðulegur forseti. Stjórnvöld verða að líta á heildarmyndina í hagstjórn. Bæði opinber útgjöld og rekstrarskilyrði atvinnulífsins skipta máli. Ef atvinnulífið dafnar þá hefur ríkið meira svigrúm til að sinna samfélagslegum verkefnum.“