Categories
Fréttir

Jafnara aðgengi að háskólanámi – inntökupróf nú haldin bæði í Reykjavík og Akureyri

Deila grein

04/03/2025

Jafnara aðgengi að háskólanámi – inntökupróf nú haldin bæði í Reykjavík og Akureyri

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, vakti athygli á framfaraskrefi sem væri verið að taka í menntakerfinu. Í fyrsta sinn verður inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði haldið bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta framfaraskref í menntakerfinu er liður í að jafna aðgengi að háskólanámi óháð búsetu.

„Á síðasta ári fékk ég ábendingu frá foreldri sem óttaðist að barn þess myndi ekki komast í inntökupróf í læknisfræði vegna veðurs. Þetta var ekki einstakt tilfelli. Margir nemendur á landsbyggðinni hafa þurft að leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að taka próf og veðuraðstæður hafa jafnvel komið í veg fyrir að þeir geti mætt,“ sagði Ingibjörg.

„Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn um fjölgun próftökustaða og nú er fyrsta skrefið tekið með því að bjóða upp á inntökupróf á Akureyri. Þetta er mikilvægt fyrir landsbyggðina og fyrir jafnrétti til náms. Með þessu skrefi erum við að mæta fólki og efla tækifæri þess til að sækja sér menntun óháð því hvar það býr.“

Nú verður prófunum sinnt samhliða í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands með rafræna prófakerfinu Inspera, sem tryggir samræmi í framkvæmd prófanna. Ingibjörg telur þetta vera fyrsta skrefið í stærri breytingum og hvetur til þess að í framtíðinni verði inntökupróf einnig haldin á fleiri stöðum, eins og Ísafirði, Egilsstöðum og Hornafirði, þar sem aðstaða til háskólanáms og prófaumsýslu er þegar til staðar í samstarfi við Háskóla Íslands.

„Það er brýnt að við höldum áfram að þróa menntakerfi með þarfir nemenda að leiðarljósi og tryggjum að allir hafi sömu möguleika.

Þessi breyting er sönnun þess að þegar hlustað er á raddir fólks og unnið markvisst að lausnum er hægt að ná árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öllum þeim sem hafa unnið að þessari breytingu. Höldum áfram á þessari braut, að tryggja að menntakerfið okkar taki mið af þörfum allra landsmanna,“ sagði Ingibjörg að lokum.

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag vil ég vekja athygli á mikilvægu framfaraskrefi sem verið er að taka í menntakerfinu okkar. Í fyrsta sinn verður inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði haldið bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er breyting sem lengi hefur verið barist fyrir og er hún skref í átt að jöfnun aðgengis að háskólanámi óháð búsetu. Á síðasta ári fékk ég ábendingu frá foreldri sem óttaðist að barn þess myndi ekki komast í inntökupróf í læknisfræði vegna veðurs. Þetta var ekki einstakt tilfelli. Margir nemendur á landsbyggðinni hafa þurft að leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að taka próf og veðuraðstæður hafa jafnvel komið í veg fyrir að þeir geti mætt. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn um fjölgun próftökustaða og nú er fyrsta skrefið tekið með því að bjóða upp á inntökupróf á Akureyri. Þetta er mikilvægt fyrir landsbyggðina og fyrir jafnrétti til náms. Með þessu skrefi erum við að mæta fólki og efla tækifæri þess til að sækja sér menntun óháð því hvar það býr. Próf verða nú haldin samhliða í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands með rafræna prófakerfinu Inspera sem tryggir samræmi í framkvæmd prófanna og verður gaman að fylgjast með hvernig til tekst. En við skulum líta á þetta sem fyrsta skrefið í stærri breytingum. Í framtíðinni væri eðlilegt að horfa til fleiri staða, eins og Ísafjarðar, Egilsstaða, Hornafjarðar, sem nú þegar hafa aðstöðu til að sinna háskólanámi og prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands. Það er brýnt að við höldum áfram að þróa menntakerfi með þarfir nemenda að leiðarljósi og tryggjum að allir hafi sömu möguleika.

Virðulegi forseti. Þessi breyting er sönnun þess að þegar hlustað er á raddir fólks og unnið markvisst að lausnum er hægt að ná árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öllum þeim sem hafa unnið að þessari breytingu. Höldum áfram á þessari braut, að tryggja að menntakerfið okkar taki mið af þörfum allra landsmanna.“