Categories
Fréttir

Sigurður Ingi gagnrýnir áherslur stjórnvalda í öryggismálum

Deila grein

04/03/2025

Sigurður Ingi gagnrýnir áherslur stjórnvalda í öryggismálum

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, átti orðastað við forsætisráðherra á Alþingi um stefnu stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum. Gagnrýndi hann að áherslur ríkisstjórnarinnar í öryggis- og varnarmálum væru ekki í samræmi við sérstöðu Íslands og samstarfið innan NATO.

„Við vorum í kjördæmaviku í síðustu viku og tónninn í fólkinu í landinu er eðlilega svona ákveðinn ótti, hræðsla, ekki síst vegna síðustu frétta sem við sáum bara í Hvíta húsinu hér á föstudaginn.“

Sigurður Ingi vék einnig að umræðu sem fram fór á Alþingi fyrir skemmstu um varnar- og öryggismál og benti á að sérstaða Íslands hefði verið þar í brennidepli. Hins vegar hefði það vakið athygli að forsætisráðherra og utanríkisráðherra væru meira og minna erlendis á fundum innan Evrópusambandsins og í Evrópu. Sagði hann slíkt ekki samræmast því að treysta varnarsamstarf Íslands við NATO og Bandaríkin.

„Það er eins og það sé einhver skortur á jafnvægi.“

Sigurður Ingi benti á nýleg ummæli utanríkisráðherra Frakklands um að hættan á stríði í Evrópu hafi aldrei verið meiri. Hann vék einnig að orðum Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem sagðist vilja flýta fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu og eins að forsætisráðherra hefði fundað með jafnaðarmönnum á Norðurlöndunum um varnarsamstarf.

Sigurður Ingi lagði áherslu á að Ísland væri herlaus þjóð, en verið virkur þátttakandi í NATO í áratugi og einnig byggt á tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Hann velti fyrir sér hvort ríkisstjórnin væri að feta aðra braut í varnarmálum en þá sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt síðustu 80 ár.

„Fólkið í landinu hefur verið ánægt með þá vegferð sem við höfum verið á í 80 ár. Er ríkisstjórnin á einhverri annarri braut? Er verið að leggja áherslu á eitthvað annað en það sem okkur hefur gagnast svo vel í allri lýðveldissögunni?“ spurði hann.

Þó NB8-ríkin séu mikilvægir bandamenn Íslands í öryggis- og varnarmálum, eru NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin hornsteinar í öryggisstefnu Íslands og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar landsins.

Sigurður Ingi vék að því á dögunum í ræðu á Alþingi, vegna yfirlýsingar forsætisráðherra að ótímabært væri að stofna eða ræða evrópskan her.

Var forsætisráðherra í framhaldi spurður hvort ekki væri „skynsamlegast að viðhalda þeirri sérstöðu sem við höfum hér á Íslandi með varnarsamninginn við Bandaríkin, með stofnaðild að NATO og þar sé okkar öryggi best borgið, en ekki að hlaupa í skjól Evrópu þar sem er enginn her“.

„Og hvað þýðir yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra um að það sé ótímabært að ræða her Evrópu? Er það svipað og hin ótímabæra umræða var að hennar mati fyrir aðild að Evrópusambandinu fyrir kosningar?“ En orð forsætisráðherra féllu að lokinni nýliðinni öryggisráðstefnu í Evrópu í München.