Categories
Fréttir

Sigurður Ingi kallar eftir tafarlausum aðgerðum í vegamálum

Deila grein

06/03/2025

Sigurður Ingi kallar eftir tafarlausum aðgerðum í vegamálum

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gagnrýndi ástand vega í ræðu á Alþingi og hvatti núverandi ríkisstjórn til að auka fjárveitingar í vegaviðhald. Hann vísaði í eigin reynslu úr samgönguráðuneytinu og minnti á að svipuð staða hefði komið upp þegar hann gegndi embætti samgönguráðherra á árunum 2017–2021.

Sigurður Ingi sagði að ástand vega hefði versnað verulega víða um land, sérstaklega á Vesturlandi, þar sem vegir sem voru í góðu ástandi árið 2018 væru nú hrundir. Hann benti á að aukin umferð og veðuraðstæður hefðu haft mikil áhrif á burðarlag vega og kallaði eftir tafarlausum aðgerðum til að tryggja öryggi vegfarenda.

Hann rifjaði upp að í fyrri ríkisstjórn hefði verið gripið til aðgerða þegar sambærileg staða kom upp. Þá hafi hann aflað upplýsinga frá Vegagerðinni, farið í ríkisstjórnina og fengið samþykkt 4 milljarða króna úr varasjóði til viðgerða á vegum. Þó tók tvö ár að koma þeim fjármunum í framkvæmd, þar sem ekki sé alltaf nóg að auka fjármagn heldur þurfi að tryggja að verktakar og verkferlar séu til staðar. Hann nefndi að fjárfesting sú hafi skilað árangri, en nú væri staðan aftur orðin alvarleg og þyrfti að bregðast við án tafar.

Í ræðu sinni gagnrýndi Sigurður Ingi að núverandi samgönguráðherra hefði fyrst og fremst horft til fortíðar í umræðunni í stað þess að setja fram skýrar lausnir. Hann vísaði til þess að ráðherrann hefði lagt áherslu á að ástand vega væri arfleifð fyrri ríkisstjórna í stað þess að leggja fram skýra aðgerðaáætlun. Hann minnti á að viðhaldsfjárveitingar hefðu aukist verulega á síðustu árum, úr 5,5 milljörðum árið 2017 í 13-14 milljarða í dag, og að stefnt væri að frekari hækkunum í fjármálaáætlun. Hann lagði þó áherslu á að þrátt fyrir þessa aukningu væri ekki nægilegt fjármagn sett í vegaviðhald og að grípa þyrfti til frekari aðgerða.

Sigurður Ingi beindi loks spurningu til núverandi samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar: Í stað þess „að bölsótast út í fortíðina og segja að þetta væri allt ómögulegt“, heldur segja hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til til að bæta ástand vega um landið? Hann kallaði eftir aukinni fjárfestingu og markvissari viðhaldsáætlun til að tryggja öruggari samgöngur fyrir landsmenn.