Categories
Fréttir

Orkuöryggi almennings verður að vera forgangsmál

Deila grein

14/03/2025

Orkuöryggi almennings verður að vera forgangsmál

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um að tryggja orkuöryggi almennings á Íslandi. Hún leggur áherslu á að hátt raforkuverð til almennings stafi ekki af skorti á orku heldur skorti á regluverki sem tryggi réttindi heimila og minni notenda. „Orkuöryggi almennings verður að vera eitt af forgangsmálum Alþingis. Það er fátt sem skiptir meira máli fyrir lífsgæði landsmanna en öruggt aðgengi að raforku á hagkvæmu verði.“

Halla Hrund bendir á að orkuþörf heimila á Íslandi sé innan við 5% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar og minni notendur, s.s. hárgreiðslustofur, bændur og minni fyrirtæki, noti samtals um 20% orkunnar. Aftur á móti fari 80% raforkunnar til stórnotenda eins og álvera og gagnavera sem njóta langtímasamninga.

Regluverk veikir stöðu almennings

Samkvæmt Höllu Hrund var tryggt orkuöryggi almennings áður fyrr lagalega verndað. „Landsvirkjun gegndi því hlutverki að tryggja orkuöryggi heimila. Með nýrri orkulöggjöf var þessi forgangur felldur niður, án þess að koma í staðinn öðrum úrræðum sem styðja við almenning,“ segir hún.

Hún telur óásættanlegt að heimili og minni fyrirtæki þurfi að keppa við stórnotendur sem bjóði einfaldlega hærra verð í raforkuna en almenningur getur staðið undir. Þetta skapi sérstaklega ótryggar aðstæður fyrir fólk á köldum svæðum sem er háð rafmagni til upphitunar húsnæðis.

Brýn þörf á lagabreytingum

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggi fram frumvarp á yfirstandandi vorþingi sem tryggi stöðu almennings og stuðli að stöðugu og hagkvæmu raforkuverði.

„Við höfum orðið vitni að mestu hækkunum á raforkuverði til almennings í áratugi, og þessar hækkanir eru alls ekki vegna skorts á raforku. Við þurfum að tryggja forgang heimila og viðhalda hagkvæmu raforkuverði sem hefur verið grundvallarhluti af lífskjörum landsmanna,“ segir Halla Hrund.

„Tryggjum raforkuöryggi fyrir alla landsmenn“

Halla Hrund leggur áherslu á að Alþingi verði að lagfæra þetta óréttlæti með skýrum lagabreytingum sem setja almenning í forgang.

„Ég trúi því og treysti að Alþingi lagfæri þetta óréttlæti. Við verðum að tryggja orkuöryggi heimila, bænda og minni fyrirtækja sem eru uppspretta fjölbreytileika í atvinnulífi og mikilvægt mótvægi gegn samþjöppun valds á markaðnum,“ segir hún.

Að lokum bendir hún á að þótt forgangur heimila sé brýnn, þurfi einnig að taka upplýstar ákvarðanir um nýjar virkjanir til að styðja við fjölbreyttan iðnað og vöxt samfélagsins. „Það er efni í aðra umræðu. En fyrst og fremst verðum við að tryggja örugga raforku til allra landsmanna.“