Categories
Fréttir

Stórsókn í lýðheilsumálum

Deila grein

25/03/2025

Stórsókn í lýðheilsumálum

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, vakti athygli á mikilvægi „Vöðvaverndardagsins“ í ræðu á Alþingi. Af þessu tilefni standa Opni háskólinn og deildir íþróttafræði og sálfræði við Háskólann í Reykjavík fyrir ráðstefnu í vikunni.

Áhersla á réttmætar upplýsingar um lýðheilsu

„Í ár verður áherslan á mikilvægi miðlunar réttmætra upplýsinga í nútímasamfélagi með áherslu á vitundarvakningu og vöðvavernd. Vöðvavernd er gríðarlega mikilvæg fyrir lýðheilsu allra Íslendinga, og ég er svo heppinn að fá að taka þátt í ráðstefnunni að þessu sinni,“ sagði Jóhann Friðrik.

Í erindi sínu á ráðstefnunni mun Jóhann Friðrik leggja áherslu á mikilvægi þess að koma upplýsingum um lýðheilsu á framfæri til landsmanna.

Skammarlega lítið fjármagn til forvarna

„Ég hef lengi haft verulegar áhyggjur af því hvert við stefnum. Fjármagn til forvarna hér á landi er skammarlega lítið, og samt skiljum við ekkert í því hvers vegna áskoranir vegna lýðheilsu þjóðarinnar vaxa hratt – og kostnaðurinn með,“ sagði Jóhann Friðrik.

Hann segir mikilvægt að Alþingi samþykki aukið varanlegt framlag í lýðheilsusjóð. Á síðasta kjörtímabili hafi í tvígang tekist að auka tímabundið framlag í sjóðinn. „Nú þarf að gera það varanlegt, og miklu meira en það.“

Hrósar fyrrverandi heilbrigðisráðherra

Jóhann Friðrik hrósaði fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, fyrir að hafa lyft upp lýðheilsumálum. Hann segir boltann nú vera hjá núverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlækni.

„Við erum í dauðafæri til að samþykkja á þinginu þingsályktunartillögu mína um lýðheilsumál og sækja fram af miklum eldmóði.“

Hvetur til sameiginlegs átaks

„Ég hvet íslensk stjórnvöld, Alþingi og samfélagið allt að koma með okkur í þessa vegferð. Það er ekkert mikilvægara í lífinu en heilsan. Pössum upp á hana og verndum hana,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.