Categories
Fréttir

Þurfum bráðaaðgerðir vegna raforkuverðs til garðyrkjubænda

Deila grein

27/03/2025

Þurfum bráðaaðgerðir vegna raforkuverðs til garðyrkjubænda

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, kallaði eftir tafarlausum aðgerðum vegna hækkandi raforkuverðs sem leggst þungt á garðyrkjubændur í sérstökum umræðum á Alþingi um orkumál og stöðu garðyrkjubænda. Hún fagnaði aðgerðum ríkisstjórnarinnar en sagði þær ekki duga einar og sér.

„Garðyrkjubændur eru að leggja upp laupana og eru að glíma þessa glímu núna. Það er ekki nóg að hugsa bara um stuðning sem kemur síðar á árinu eða frumvarp sem kemur í haust,“ sagði Halla Hrund. Hún hvatti ráðherra til þess að grípa strax til aðgerða til að létta raforkukostnað garðyrkjubænda.

Halla Hrund fagnaði þó því að sérstaklega væri horft til málefna garðyrkjubænda og undirstrikaði að Ísland hefði mikil tækifæri í samtengingu orkumála og matvælaframleiðslu. „Það er þarna sem Ísland á sín stærstu tækifæri.“ Hún kallaði einnig eftir aukinni samvinnu allra þingmanna um þessi mál frekar en að láta umræðuna snúast einvörðungu um aðgerðir ráðherra eða ríkisstjórnar. „Við erum öll að reyna að leysa þessi mál saman.“

Halla Hrund gagnrýndi skort á skýrri stefnumótun og sagði mikilvægt að ákvarðanir væru teknar með langtímasýn að leiðarljósi, einkum varðandi náttúruvernd, nýsköpun og loftslagsmál. „Viljum við að Ísland verði verbúð fyrir bitcoin eða viljum við fjölbreytt og spennandi framtíð?“ spurði hún. „Við þurfum skýra stefnu og skýra hvata til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur.“

Að lokum hvatti hún þingheim til að stilla saman strengi í orkumálum og vinna saman að lausnum í stað þess að festast í pólitískri togstreitu.