Categories
Fréttir

Framsókn krefst svara fyrir niðurskurð í framhaldsskólum

Deila grein

11/04/2025

Framsókn krefst svara fyrir niðurskurð í framhaldsskólum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, kallar eftir því að mennta- og barnamálaráðherra útskýri fyrirhugaðan niðurskurð á framhaldsskólastiginu. Hún lagði fram beiðni á fundi allsherjar- og menntamálanefndar þess efnis að ráðherra mætti tafarlaust á fund nefndarinnar – en beiðninni var hafnað.

„Tillögur hagræðingarhóps stjórnvalda fela í sér breytingar sem gætu raskað starfsemi framhaldsskóla verulega ef þær eru innleiddar án samráðs og stuðnings,“ segir Ingibjörg.

Samkvæmt áætlunum fjölgar nemendum um tæplega 650 næstu tvö ár – sem samsvarar einum meðalstórum skóla. Þetta gerist á sama tíma og skerðing framlaga stendur fyrir dyrum, þrátt fyrir auknar kröfur um kennslu í íslensku, einstaklingsmiðaðan stuðning og aðlögun nemenda.

Ég óskaði eftir því í morgun á fundi Allsherjar – og menntamálanefndar að mennta- og barnamálaráðherra myndi mæti á fund…

Posted by Ingibjörg Isaksen on Fimmtudagur, 10. apríl 2025

***

Minnisblað

– Niðurskurður á framhaldsskólastiginu í fjármálaáætlun 2026–2030

Helstu niðurstöður úr fjármálaáætlun
  • Gert er ráð fyrir niðurskurði upp á 2,5 milljarða kr. á tímabilinu 2026–2030.
  • Þetta samsvarar meira en 5% samdrætti í fjárframlögum til framhaldsskólanna, miðað við núverandi útgjöld.
  • Á sama tíma er gert ráð fyrir fjölgun nemenda – um 650 nemendur á næstu tveimur árum – auk aukins kostnaðar við verknám og stuðning við fjölbreyttan nemendahóp.

Gagnrýni og áhyggjur
  • Félag framhaldsskólakennara hefur lýst yfir miklum áhyggjum og telur að niðurskurðurinn geti haft áhrif á:
    • gæði kennslu
    • framboð námsleiða og valfaga
    • starfsskilyrði kennara
    • aðgengi að sértækum úrræðum fyrir nemendur með sérþarfir
  • Stefán Vagn Stefánsson alþingismaður hefur bent á alvarlegan skort á markmiðum og mælikvörðum í fjármálaáætluninni, sem brýtur gegn lögum um opinber fjármál.

Viðbótarathuganir og samhengi
Samanburður við önnur skólastig
  • Nauðsynlegt er að meta hvort sambærilegur niðurskurður sé fyrirhugaður í grunn- og háskólastigi – ef ekki, þarf að skýra hvers vegna framhaldsskólar dragast sérstaklega saman.
Áhrif á framtíðarmöguleika
  • Gæti dregið úr möguleikum nemenda til að velja fjölbreyttar námsleiðir, sérstaklega í verknámi.
  • Aukið brottfall eða lakari námsárangur til lengri tíma, sem getur haft áhrif á atvinnulíf og samfélag.
Starfsskilyrði kennara
  • Hætta á auknu álagi, fækkun starfa og minni sveigjanleika í skipulagi náms.

***