Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun KFNV

Deila grein

14/04/2025

Stjórnmálaályktun KFNV

25. Kjördæmisþing Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi ályktar:

Fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafa verið landsbyggðarfólki gríðarleg vonbrigði þrátt fyrir fögur loforð um að hagsmunum landsbyggðar yrði gætt.

Á þeim tíma síðan ný ríkisstjórn tók við má sjá að stór hluti þeirra mála sem hún hefur kynnt eru í raun mál frá fyrri ríkisstjórn, sem hún virðist tileinka sér. Þau mál sem eiga rætur að rekja til núverandi ríkisstjórnar eru hins vegar illa unnin, lítt ígrunduð og skortir greiningu og mat á áhrifum.

Sem dæmi má nefna nýja fjármálaáætlun, sem bersýnilega var unnin í flýti en henni fylgja hvorki lögbundnir mælikvarðar né mat á áhrifum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar boðað niðurskurð í mikilvægum málaflokkum. Fjárframlög til vegamála og menntamála verða skert, auk – þess sem góð verkefni fyrri ríkisstjórnar verða stöðvuð, eins og í heilbrigðisþjónustu, samanber stuðning við Janus endurhæfingu.

Norðvesturkjördæmi er víðfemt svæði þar sem margir hafa lífsviðurværi sitt af landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og iðnaði. Á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar hafa verið teknar ákvarðanir sem gera rekstur í þessum atvinnugreinum enn erfiðari. Þar má nefna illa útfært veiðigjald, aukna skattlagningu á ferðaþjónustu sem bitnar sérstaklega á litlum og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum, og nýlega hækkun raforkuverðs sem hefur sérstaklega neikvæð áhrif á iðnað, garðyrkjubændur og köld svæði.

Þá hafa verið teknar ákvarðanir – og fleiri eru í burðarliðnum – sem munu leiða til fækkunar sérhæfðra opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Það kemur sérlega illa við íbúa í Norðvesturkjördæmi og má þar meðal annars nefna uppsagnir hjá Vinnumálastofnun og sameiningu sýslumannsembætta.

Kjördæmisþingið vill sérstaklega árétta að það harmar þá neikvæðu umræðu á Alþingi er varðar kynjajafnrétti og stöðu minnihlutahópa. Bakslag hefur orðið í mannréttindabaráttunni, einkum á Vesturlöndum, og hafa neikvæðar breytingar í því samhengi orðið augljósari.

Ísland hefur unnið mikilvægt starf til að jafna stöðu kynjanna og bæta réttindi minnihlutahópa. Því skiptir miklu máli að kjörnir fulltrúar sýni ábyrgð og stuðli ekki að hatursorðræðu. Kjörnir fulltrúar eru fyrirmyndir . og bera ríka ábyrgð á málflutningi sínum. Alþingismenn eiga ekki að vera boðberar bakslags í mannréttindum.

Samþykkt á 25. Kjördæmisþingi Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 12. apríl 2025 í Dæli í Víðidal.