Categories
Fréttir

„Við þurfum raunhæfa byggðastefnu“

Deila grein

06/05/2025

„Við þurfum raunhæfa byggðastefnu“

Jónína Brynjólfsdóttir, varaþingmaður, flutti í dag jómfrúarræðu sína á Alþingi og kallaði hún eftir skýrri og markvissri byggðastefnu sem stuðli að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og eflingu samfélaga utan höfuðborgarsvæðisins.

Skortur á markvissri stefnu

Jónína vakti athygli á því að íbúafjölgun á landsbyggðinni haldi ekki í við fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu og benti á að áratugalangar tilraunir til að skapa raunhæfa byggðastefnu hafi mistekist.

„Hingað til hefur stefnumörkunin einkennst af tilviljanakenndum ákvörðunum, teknum á ólíkum tímum og án samhæfingar,“ sagði hún og bætti við að afleiðingin sé sú að bæði fólk og opinber stjórnsýsla sé í sífellu beint inn á sama svæði.

Byggðirnar bjóða upp á tækifæri

Þrátt fyrir skort á opinberri stefnu, benti hún á að landsbyggðirnar bjóði upp á fjölmörg tækifæri, betri lífsgæði og bætt þjónustustig, meðal annars vegna aukinnar ferðaþjónustu.

„Á landsbyggðunum er nóg pláss fyrir alla, húsnæði á sanngjörnu verði, nægt framboð af lóðum, pláss á leikskólum […]. Við búum nær náttúrunni, höfum meiri fjármuni til ráðstöfunar og meiri tíma til að lifa lífinu án þess að sitja föst í umferð.“

Hún lagði einnig áherslu á að þar eigi sér stað mikil verðmætasköpun – í sjávarútvegi, orkuvinnslu, stóriðju, landbúnaði og þjónustu – en að opinber störf hafi sífellt fækkað.

Skýr aðgerðaráætlun nauðsynleg

Jónína beindi spjótum sínum að ríkisstjórninni og krafðist breytinga.

„Ég hvet ríkisstjórnina til að breyta stefnu sinni og stuðla að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðunum,“ sagði hún og bætti við að leggja verði fram „byggðastefnu með skýrri aðgerðaáætlun sem styrkir landsbyggðirnar í stað þess að leggja auknar álögur á atvinnuvegina sem halda samfélögunum gangandi.“

„Eins konar nýlendustefna“ gagnrýnd

Í ræðu sinni vék hún að þeirri hugmynd að íbúar landsbyggðanna væru ekki treystandi til að stjórna eigin málum. Hún sagði slíka afstöðu jafngilda nýlendustefnu og mótmælti harðlega.

„Ég vil sérstaklega mótmæla þeirri eins konar nýlendustefnu að treysta ekki íbúum landsbyggðanna til að reka og stýra þeim opinberu fyrirtækjum sem nánast eingöngu hafa starfsemi sína þar.“

Tími til að stíga skrefið

Jónína lauk ræðu sinni með áskorun til ríkisstjórnarinnar um að gera betur og horfa til raunhæfra lausna.

„Við þurfum byggðastefnu sem beinir fólki til landsbyggðanna, ekki frá þeim.“