Categories
Fréttir

Brýn þörf fyrir fjárfestingu innviða á Austurlandi

Deila grein

20/05/2025

Brýn þörf fyrir fjárfestingu innviða á Austurlandi

Jónína Brynjólfsdóttir, varaþingmaður, lagði áherslu á brýna þörf fyrir fjárfestingu í samgöngumannvirkjum á landsbyggðinni í ræðu sinni á Alþingi. Hún segir samkeppnishæfni landshlutanna vera í hættu ef stjórnvöld sýna ekki kjark í að hefja nauðsynlega innviðauppbyggingu.

„Ég sem stoltur íbúi Austurlands fagna þessari mikilvægu umræðu,“ sagði Jónína og vísaði til aukinnar umræðu um svokallaða innviðaskuld, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins.

Ófullnægjandi vegakerfi hamlar atvinnulífi

Jónína tók dæmi af afleiðingum slæms vegakerfis og lýsti atviki þar sem kranafyrirtæki á Austurlandi þurfti að flytja 58 tonna krana frá Súðavík austur á firði. Vegna veikra brúa var ekki hægt að aka honum yfir landið.

„Slíkt var ekki hægt nema með því móti að keyra krananum til Þorlákshafnar, sigla honum síðan til Færeyja og þaðan til Seyðisfjarðar. Það var ekki hægt að keyra honum um brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá á Breiðamerkursandi né brúna yfir Sléttuá því þær brýr þola ekki slíka þungaflutninga,“ sagði Jónína.

Hún kallar eftir því að brýnar framkvæmdir verði hafnar strax, meðal annars nýr vegur um Öxi og endurbætur á Suðurfjarðavegi, vegum sem tengja saman byggðakjarna í Múlaþingi og Fjarðabyggð.

Skortur á stefnu og ákvarðanatöku

Jónína gagnrýndi jafnframt að ekkert hafi verið gert í að endurskipa samgönguráð og að ekki liggi fyrir skýr stefna í samgöngumálum.

„Í þessu samhengi vekur mikla undrun að heyra að ekki hefur verið skipað í samgönguráð að nýju,“ sagði hún og hvatti ráðherra samgöngumála til að upplýsa þingið tafarlaust um stöðu nýrrar samgönguáætlunar.

„Frekari innviðauppbygging þolir ekki meiri bið“

Í ræðu sinni undirstrikaði Jónína mikilvægi þess að landsbyggðin fái sitt réttmæta hlutverk og hlutdeild í innviðafjárfestingum.

„Ég hvet hann [ráðherrann] til að sýna kjark og þor þegar kemur að uppbyggingu innviða landsbyggðarinnar. Frekari innviðauppbygging þolir ekki meiri bið,“ sagði hún að lokum.