Categories
Fréttir

„Þetta er einfaldlega ekki í lagi“ – Halla Hrund varar við nikótínpúðum og vill harðari lög

Deila grein

23/05/2025

„Þetta er einfaldlega ekki í lagi“ – Halla Hrund varar við nikótínpúðum og vill harðari lög

„Við sjáum sérverslanir með nikótínvörur spretta upp eins og gorkúlur í ólíkum hverfum borgarinnar. Þær eru að selja nikótín til barna og ungmenna. Þær eru að selja efni sem er skilgreint sem eitt það mest ávanabindandi í heimi,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í beinskeyttri ræðu á Alþingi.

Samkvæmt nýrri rannsókn norrænu velferðarnefndarinnar nota 30% íslenskra ungmenna nikótínpúða – hæsta hlutfall á Norðurlöndum. Halla Hrund lýsti alvarlegum afleiðingum þessa og sagði meðal annars: „Sífellt fleiri börn upplifa fráhvörf eftir meðgöngu móður og við erum að sjá börn leita á bráðamóttöku vegna neyslu púðanna.“

Villandi markaðssetning – „Blanda af Mikka mús og Íþróttaálfinum“

Halla Hrund gagnrýndi jafnframt þá mynd sem dregin er upp af nikótínpúðum í markaðsefni. „Þessi skaðlega vara er markaðssett sem einhvers konar Extratyggjó, af fígúru sem er blanda af Mikka mús og Íþróttaálfinum,“ sagði hún og bætti við að slík markaðssetning höfði til breiðari hóps en hefðbundin tóbaksvörur:
„Hún höfðar til afreksíþróttafólks, ólíkt því sem t.d. sígarettur gerðu á sínum tíma.“

Eru núgildandi lög nægjanleg?

Í ræðunni benti Halla Hrund á að 11. grein laga um nikótínvörur og rafrettur banni hvers konar auglýsingar á þessum vörum, en vék að því að núverandi regluverk virðist ekki ná til notkunar teiknimyndalíkrar fígúru í markaðssetningu:
„Það er hæpið að slík villandi markaðssetning sé lögleg… Lögin virðast hins vegar ekki ná yfir slíkar fígúrur sem nýttar eru til að gera neysluna töff.“

Skref tekin – en nægja þau?

Halla Hrund rifjaði upp að fyrri heilbrigðisráðherra Framsóknar hafi stigið framfaraskref með því að fella nikótínvörur undir lög um rafrettur, leggja á þær skatt og auka forvarnir. Hún lýsti þó áhyggjum sínum af því að frekara frumvarp – sem til stóð að yrði lagt fram – hafi ekki birst.

„Ég sakna hins vegar frumvarps sem var á þingmálaskrá sem átti að taka skrefið lengra til að girða fyrir þessa villandi markaðssetningu,“ sagði Halla Hrund og spurði í lokin:
„Hvar er sú vinna stödd? Hvenær kemur slíkt frumvarp inn í þingið?“