Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við Íslendingar erum lánsöm þjóð. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum en stærsta auðlindin er fólkið sjálft. Á lýðveldistímanum höfum við sem þjóð farið úr því að vera ein sú fátækasta í Evrópu í að komast í þann hóp sem stendur sig hvað best. Þetta höfum við gert saman og sagan sýnir okkur að sameinuð þjóð getur tekist á við hvaða áskoranir sem er. Við höfum á örfáum árum staðið af okkur ýmsar efnahagslegar áskoranir, eldgos og aðrar náttúruhamfarir, heimsfaraldur, fall WOW air og stríð í Úkraínu. Og þrátt fyrir þessar áskoranir og þrátt fyrir að ríkissjóður hafi staðið undir beinum kostnaði sem nemur um 350 milljörðum króna erum við í betri stöðu en flestar aðrar þjóðir í Evrópu.
En það markverðasta er að við höfum meiri tækifæri en flestir til að gera lífskjör enn betri hér á landi. Á nær alla mælikvarða erum við í efstu sætum meðal samanburðarþjóða, friðsælasta og öruggasta land í heimi síðastliðin 18 ár. Lífskjör og velsæld eru að mati Sameinuðu þjóðanna mest hér. Hagvöxtur og kaupmáttur almennings hefur vaxið meira hér en annars staðar, sérstaklega borið saman við þjóðir Evrópu. Jöfnuður er meiri hér en á hinum Norðurlöndunum, hvað þá annars staðar. Og í jafnréttismálum höfum við forskot á allar aðrar þjóðir. Atvinnuleysi er lágt, mun lægra en í ESB-löndum, þó að það hafi aukist um nær eitt prósent á síðustu mánuðum. Okkar hagkerfi hefur því vaxið samhliða öflugri uppbyggingu atvinnulífsins og bætt lífskjör almennings. Allt þetta höfum við náð að gera saman á síðustu árum og áratugum sjálf þrátt fyrir utanaðkomandi ógnir.
En hér er þversögn sem við verðum að nefna. Í aðdraganda síðustu kosninga lýstu margir ástandinu sem afar alvarlegu, jafnvel versnandi. Nú þegar fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar liggur fyrir sjá þeir sömu aðilar ekki ástæðu til að gera miklar breytingar. Það er gott að lofa stöðugleika en það dugar ekki eitt og sér. Það er ekki nóg að segjast ætla að gera — tala og tala. Ríkisstjórnin hefði við núverandi aðstæður þurft að grípa til markvissari aðgerða til að koma verðbólgu og vöxtum niður. Sleggjan sem forsætisráðherra lofaði þjóðinni í aðdraganda síðustu kosninga hefur ekki komið niður og vonbrigðin eru augljós þegar við sjáum að aðgerðir til að styðja heimilin láta á sér standa.
En er allt þá bara í besta lagi? Auðvitað er það ekki svo. Það eru fjölmargir þættir í okkar samfélagi sem við getum bætt sjálf, á okkar eigin forsendum. Lífsseig verðbólgan og háir stýrivextir hafa hækkað kostnað heimila og fyrirtækja og þrengt að fjárhagslegu svigrúmi þeirra. Þröng staða ungs fólks á húsnæðismarkaði hefur gert mörgum erfitt fyrir að koma sér upp eigin heimili. Við þurfum að auka framboð og hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og við þurfum að tryggja hagkvæm, óverðtryggð húsnæðislán til langs tíma á föstum vöxtum. Það er lykilatriði til að vinna á verðbólgunni. Stefnuræða forsætisráðherra og fjárlagafrumvarpið skila auðu í húsnæðismálum og lánamálum heimila.
Mig langar hér að ræða sérstaklega málefni barnanna okkar. Þau eru framtíðin. Eðlilega höfum við mörg áhyggjur af því umhverfi sem börnin okkar alast upp í, í samfélagi sem er flóknara og meira krefjandi en áður. Þess vegna skiptir öllu máli að við tryggjum þeim stuðning, jöfn tækifæri og öruggt umhverfi. Undir forystu Framsóknar var embætti barnamálaráðherra sett á laggirnar og málefni barna færð inn á dagskrá stjórnmálanna með nýjum hætti. Við höfum þegar stigið mikilvæg skref með farsældarlögunum. Nú þarf að klára það verkefni og nálgast hagsmuni barnsins þvert á kerfin þannig að þjónustan sé á forsendum barnsins en ekki kerfisins.
Kæru landsmenn. Það er ekki hægt annað en að nefna atburði síðastliðins sólarhrings þegar Rússar rjúfa lofthelgi Póllands með vopnuðum drónum. Það eru víðsjárverðir tímar sem við lifum. Aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru hornsteinar varna okkar og öryggis út á við. Hér heima þurfum við að styrkja áfallaþolið. Það styrkjum við best með því að undirbúa nærsamfélagið. Öflug sveitarfélög þar sem innviðir virka vel, þar sem eru öflugar björgunarsveitir, íþróttafélög, góðgerðarfélög og samkennd er ríkjandi, það er dæmi um sterkt áfallaþol. Þegar hamfarir dynja á, af hvaða toga sem þær eru, þá er það hinn mannlegi þáttur sem skiptir öllu máli og þar stöndum við Íslendingar framarlega. Okkur er annt um náungann og við höfum ávallt sýnt að þegar á reynir stöndum við saman. Stjórnvöld verða að tryggja að umgjörðin sé styrk, að innviðir okkar virki, að fólkið okkar sé undirbúið. Og þar legg ég áherslu á öflugt samstarf almannavarna, lögreglu og landhelgisgæslu. Það eru okkar stoðir þegar á reynir — og samstaðan.
Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við eigum að vera stolt af því sem við höfum náð saman. Við eigum að tala samfélag okkar upp, vera uppbyggileg í málflutningi og takast á við áskoranir í sameiningu. Ísland er eins og eitt stórt heimili og við sem þar búum vitum að hreinskilni og samtal skipta þar miklu máli. Við verðum aldrei sammála um allt en það sem mestu skiptir er að við vinnum saman að því að byggja upp traust, samstöðu og bjartsýni. Þannig byggjum við upp betra samfélag. Það er lærdómurinn af sögu okkar, lýðveldissögunni, að þegar við stöndum saman er engin áskorun of stór. Framtíð Íslands er björt. Hún er í okkar höndum. Við getum þetta sjálf. Framsókn er til í þá samvinnu.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana á 157. löggjafarþingi 10. september 2025.