Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi of lága aðhaldskröfu fjárlagafrumvarpsins 2026 í 1. umræðu fjárlaga á Alþingi. Hvatti hann til skýrari aðhalds í ríkisfjármálum til að styðja við lækkun stýrivaxta. Hann sagði 0,2% aðhald ekki nægilegt og hvatti til þess að halli næsta árs, 15 milljarðar króna, yrði felldur niður.
Stefán Vagn sagði umræðuna marka „vatnaskil“ þar sem ný ríkisstjórn legði nú fram sitt eigið fjárlagafrumvarp. „Nú fer að verða erfiðara að horfa í baksýnisspegilinn og skella ábyrgðinni á fyrri ríkisstjórnir.“
Stærsta verkefni vetrarins væri að ná niður verðbólgu og vaxtastigi. „Stýrivextir hafa lækkað úr 9,25% í 7,5% á árinu 2025 en lækkunarferlið hefur stöðvast, sem er alvarlegt,“ sagði Stefán Vagn og taldi fjármálaáætlun og fjárlög vera lykiltæki til að ná árangri.
Stefán Vagn gagnrýndi sérstaklega 0,2% aðhald í frumvarpinu: „Ég hef áhyggjur af því að 0,2% aðhald sé ekki nægilegt. Við lögðum sjálf fram 0,3% aðhald 2023 og þá var það metið hlutlaust af Seðlabankanum. Því er erfitt að færa rök fyrir því að 0,2% teljist aðhaldssamt.“
Tekjuaukning ríkissjóðs milli ára væri þó „gleðileg“, að hans sögn. Tekjur hækki úr um 1.500 ma.kr. í 1.591 ma.kr., eða um 91 ma.kr. Hann vildi nýta svigrúmið til að fella niður hallann 2026. „Það hefði sent sterk skilaboð,“ sagði hann, og bætti við að miðað við reynslu síðustu ára gæti niðurstaða 2026 jafnvel orðið jákvæð.
Í umræðum um skuldir hvatti hann til samræmdrar framsetningar talna. „Við eigum að nota sama grunn þar sem skuldahlutfallið fer úr 38% í 37%. En þrátt fyrir það hækka skuldir að nafnvirði um 80 ma.kr., sem kom mér á óvart miðað við tekjuaukninguna.“
Stefán Vagn benti jafnframt á útgjaldavöxt. „Útgjaldavöxturinn er 126 ma.kr. og hefur tvöfaldast frá frumvarpi 2025. Frumvarpið er á mörkunum og jafnvel ómögulegt að kalla það aðhaldssamt.“ Hann ítrekaði að stjórnvöld þyrftu að „senda skýr skilaboð um aðhald“ til að styðja við lækkun stýrivaxta.