Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gerði stöðu lögreglunnar að umtalsefni í umræðum um störf þingsins og sagðist fagna 50 nýjum stöðugildum hjá lögreglunni en varaði við brottfalli úr stéttinni. Kallaði hann eftir markvissum aðgerðum um kjör, aðbúnað og lagaumhverfi.
„Ég vil byrja á því að fagna þeirri aukningu sem boðuð hefur verið í löggæslunni og þeim 50 nýju stöðugildum sem bætt hefur verið við,“ sagði Stefán Vagn og benti á að viðbæturnar hefðu þegar skilað sér að einhverju marki. „Vandamálið er hins vegar að þrátt fyrir viðbætur þá er brottfall úr stéttinni mjög mikið.“
„Ekki bæta á vatni í leka fötu“
Stefán Vagn sagði stóra verkefnið felast í því að stöðva brottfall reynslumikilla lögreglumanna. „Það er gott að fá nýtt fólk inn, það er nauðsynlegt, en að missa á sama tíma út reynslumikið fólk, jafnvel með áratugareynslu, er afleitt,“ sagði hann og bætti við að orsakir væru margvíslegar: álag, kjör, aðbúnaður, búnaður, starfsaðstæður, lagaumhverfi, vinnutími og áhætta í starfi.
„Það þjónar nefnilega takmörkuðum tilgangi að bæta á vatni í leka fötu. Við þurfum að einbeita okkur að því verkefni að stoppa í götin þannig að við förum að sjá raunverulega fjölgun lögreglumanna.“
Samráð lykilatriði
Að sögn Stefáns Vagns sé jákvætt að meginþættirnir sem valdi brotthvarfi séu „allt saman hlutir sem hægt er að laga og bæta“. Hann kallaði eftir markvissu samráði við Landssamband lögreglumanna, embætti hringinn í kringum landið, ríkislögreglustjóra og lögreglumenn sjálfa til að ná raunhæfum úrbótum.
„Við þurfum að vinna þetta í sameiningu til að tryggja stöðugleika og uppbyggingu í löggæslunni,“ sagði Stefán Vagn að lokum.