Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um afmörkun á uppbyggingu vindorkuvera á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar þannig:
„Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að móta stefnu sem leggur grunn að afmörkun á uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi í ljósi áhrifa þeirra á náttúru og vistkerfi. Í stefnunni skal koma fram skýr afmörkun landsvæða þar sem reisa má vindorkuver, hversu umfangsmikil þau megi vera á hverju svæði fyrir sig, hvaða markmið þau eigi að styðja, ásamt sjónarmiðum um eignarhald og áhrif á samfélagið. Stefnan skal leggja grunn að því að uppbygging vindorku sé unnin í skrefum á grunni varúðar og lærdóms með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga.“
Í ljósi vaxandi áhuga á nýtingu vindorku hér á landi er nauðsynlegt að móta skýrari ramma um hvar slík nýting sé heimil. Í stað þess að útiloka einstök svæði ætti að skilgreina þau svæði þar sem vindorkuverkefni eru leyfð, til að draga úr óvissu og forðast að stærstur hluti landsins verði opinn fyrir óskipulagðri uppbyggingu. Slík nálgun gæti dregið úr kapphlaupi um auðlindir og minnkað líkur á deilum í sveitum landsins.
Sjá nánar: Tillaga til þingsályktunar um afmörkun á uppbyggingu vindorkuvera
Hagkvæmni vindorkuverkefna þurfi að liggja fyrir strax í upphafi. Það krefst ítarlegra rannsókna á vindgæðum, fýsilegri stærð verkefna, aðgengi að flutningskerfi og kostnaði við tengingu við það. Einnig þarf að liggja fyrir raunhæf áætlun um jöfnunarorku, hvaðan hún kemur og hvernig hún verður tryggð.
„Nýr veruleiki“ í orkumálum
Í greinargerð segir að samanlagt afl vindorkuverkefna í skoðun hér á landi sé orðið meira en allt uppsett afl raforkukerfisins sem byggst hafi upp á áratugum. Meiri hluti verkefna sé í höndum einkaaðila á grundvelli Evrópureglna um samkeppni á raforkumarkaði og græna orku, án þess að ítarleg umræða hafi farið fram um breytt eignarhald á grunninnviðum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að tryggja að beinn arður af auðlindanýtingu renni áfram til samfélagsins, líkt og tíðkast hafi í orkumálum hingað til, nema settar verði skýrar reglur um annað.
Áhrif á náttúru og skipulag
Vindmyllur geti náð allt að 250 metra hæð og haft veruleg áhrif á landslag, hljóðvist og fuglalíf. Þar sem nýting vindorku sé ekki bundin við tiltekna staðsetningu, eins og við árfarvegi eða jarðhitasvæði, sé stór hluti landsins tæknilega opinn fyrir verkefnum. Skortur á framtíðarsýn hafi leitt til þess að tugir kosta séu komnir til skoðunar í rammaáætlun. Bent er á að samþykki landeigenda þurfi ekki að liggja fyrir áður en virkjunarkostir fara í umhverfismat, sem geti vakið ágreining.
Ekki hægt að „vísa í frjálsa samkeppni“
Hall Hrund leggur áherslu á að Evrópuréttarreglur taki ekki afstöðu til staðsetningar vindorku; það sé á ábyrgð hvers ríkis að marka stefnu. „Stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér á bak við frjálsa samkeppni til að leyfa vindorkuverum að rísa hvar sem er,“ segir m.a. í greinargerðinni. Í stað þess að útiloka stök svæði verði að skilgreina hvar nýting sé leyfð og með hvaða skilyrðum.
Hagkvæmni, flutningskerfi og jöfnunarorka
Að mati Höllu Hrundar þarf að tryggja hagkvæmni frá upphafi með ítarlegum rannsóknum á vindgæðum, fýsilegri stærð verkefna, aðgengi að flutningskerfi og tengikostnaði, sem og raunhæfum áætlunum um jöfnunarorku. Lagt er til að byggja upp í skrefum á örfáum svæðum til að dreifa veðurfari og lágmarka sveiflur, „vindurinn blæs ekki alltaf á sama stað“.
Vindorka á hafi: leiga í stað afhendingar
Þá er hvatt til þess að ljúka regluverki um vindorku á hafi. Erlend orkufyrirtæki sýni þegar áhuga og mikilvægt sé að íslensk hafsvæði séu ekki framseld án endurgjalds, heldur leigð til afmarkaðs tíma líkt og þekkist víða.
Orkuskipti krefjast skýrra hvata
Vindorka er gjarnan sett í samhengi við orkuskipti og orkuöryggi, en flutningsmaður bendir á að raforka sé almennt seld á frjálsum markaði. Tryggja þurfi með lögum og sértækum hvötum að framleiðsla styðji tiltekin markmið stjórnvalda, t.d. orkuskipti eða aukið orkuöryggi á ákveðnum svæðum.
Skýr lagarammi í stað lagalegrar óvissu og átaka
Í tillögunni er lögð áhersla á skýran lagaramma strax í upphafi til að forðast lagalega óvissu og sársaukafullar deilur í samfélaginu. Ef rétt sé að málum staðið geti vindorka orðið mikilvæg viðbót við vatnsafl og jarðhita, sérstaklega yfir vetrartímann þegar lón eru undir álagi, án mikilla umhverfisáhrifa.