Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi fyrirhugaðar breytingar mennta- og barnamálaráðuneytisins á stjórnsýslu framhaldsskóla og sagði þær ganga gegn byggðastefnu. Hann vísaði til sjónvarpsviðtals við ráðherrann í gær þar sem ræddar voru „nýjar áherslur“ í málefnum framhaldsskóla, í störfum þingsins á Alþingi.
„Ég verð að viðurkenna að ég var litlu nær eftir að hafa hlustað á viðtalið og í raun og veru vöknuðu fleiri spurningar eftir það en voru fyrir. Og hvað er í raun að gerast og hvað mun í raun gerast? Með þessu móti er verið að feta sömu slóð og við höfum séð hæstv. ríkisstjórn feta hér áður gagnvart landsbyggðinni, að taka sjálfstæðið af stofnunum og ég nefni hér sýslumenn sem eru á dagskrá í dag og heilbrigðiseftirlitið og nú framhaldsskólana.“
„Sjálfstæðið er tekið af þegar þú tekur af stjórnendum fjárráð stofnunar og mannaforráð og færir eitthvert annað,“ sagði Stefán Vagn.
„Að taka slíkt af stofnunum eins og framhaldsskólunum mun ekki styrkja heldur veikja skólana, mun ekki styrkja heldur veikja nærsamfélög skólanna,“ sagði hann og bætti við að þetta talaði „þvert gegn“ þeirri byggðastefnu sem hann hefði barist fyrir og hygðist halda áfram að verja.